06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

322. mál, vetrarsamgöngur á Austurlandi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það hvarflar stundum að okkur faxaflóamönnum, að dreifbýlisþm. séu að ýkja nokkuð þegar þeir eru að tala um örðugleika sína. En ég ætla aðeins að segja frá smáreynslu sem ég hlaut á slóðum síðasta ræðumanns. Í þinghléinu meðan Norðurlandaþingið sat skrapp ég til eins austfjarðarins. Þetta var 900 manna byggðarlag og það var búið að vera vegasambandslaust í tvo mánuði — ekki tvær vikur, en tvo mánuði, og þarna voru á þessu svæði, að ég best veit, til áhöld sem Vegagerðin átti, það voru til menn á árslaunum hjá Vegagerðinni, en þó var talið of dýrt að opna þennan veg, sem var þó aðeins lokaður á nokkurra km svæði. Ég held að slík innilokun sem þessi hafi ákaflega mikil sálræn áhrif á fólk sem þarna býr. Það finnur að það er vanrækt. Og örugglega er þarna um framkvæmdaatriði að ræða á annan veg en ráðamenn þjóðarinnar óska eftir. Það er víst, að hvergi hefur verið ýkt í þeim lýsingum sem komið hafa fram, því að þetta fannst mér hámark vanrækslu.