20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Frv. það um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg, sem hér er til umr., flyt ég ásamt 6 öðrum hv. þdm. Meginatriði frv. er það að ríkissjóður gefi á næstu árum út happdrættisskuldabréf að upphæð allt að 1200 millj. kr. til sölu innanlands og fjármunir þeir, er inn koma fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skuli renna til Vegasjóðs og þeim varið til að greiða kostnað við gerð Norðurvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Öllum þm. er jafnljós nauðsyn þess, að gera enn stórátak í vegamálum. Vissulega hefur mikið áunnist t.d. síðasta áratuginn, en engu að síður blasa verkefnin hvarvetna við.

Það var vel ráðið þegar ákveðið var að efna til útboðs happdrættisskuldabréfa til að fullgera veginn yfir Skeiðarársand að frumkvæði Jónasar Péturssonar, þáv. hv. þm. Þegar því verki er lokið er eðlilegt að annað stórverkefni taki við. Þótt þörfin sé víða mikil verður naumast um það deilt að vegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur sé sú lífæð, sem varðar beint hagsmuni langflestra landsmanna. Í héruðunum, sem þessi vegur liggur um, búa nú 35 þús. manns eða 40% landsmanna utan Reykjavíkur og Reykjaness, en vegurinn tengir hins vegar saman meira en 2/3 hluta landsmanna allra beint.

Till. um happdrættislán vegna Norðurvegar hefur hvarvetna hlotið góðar undirtektir og efast ég ekki um að þm. allra stjórnmálaflokka hafi mikinn áhuga á þessu verkefni þótt að ráði hafi orðið að einungis þm. stjórnarflokkanna flyttu þetta frv. sem flutt er í samráði við bæði hæstv, samgrh. og hæstv. fjmrh. Þetta stórátak mundi verða eitt þeirra verkefna sem núv. ríkisstj. legði megináherslu á, enda þarf auðvitað að koma til margháttuð fyrirgreiðsla ríkisvaldsins, og m.a. er ráð fyrir því gert í grg. að samhliða útboðinu innanlands verði leitað eftir lánsfé erlendis. En æskilegt væri að ljúka þessum framkvæmdum á 3–4 árum og hefjast handa strax á næsta ári. Enda þótt gert sé ráð fyrir því að áfram verði fjárframlög til þessa vegar á vegáætlun og samgönguáætlun Norðurlands er hér gert ráð fyrir verulegri fjárútvegun til vegamála almennt sem auðvitað flýtir fyrir því að unnt verði að ljúka fyrr en ella öðrum vegum og verja til þeirra meira fé. Þessi ráðstöfun ætti því að vera sameiginlegt áhugamál allra þeirra sem kapp vilja leggja á auknar framkvæmdir í vegamálum.

Raddir hafa um það heyrst, að varhugavert geti verið að afla mikils fjár til opinberra framkvæmda með skuldabréfaútgáfu. Ég er þeirrar skoðunar, að ríkið eigi á hverjum tíma að taka nokkurn hluta framkvæmdafjár síns að láni hjá borgurunum fremur en að heimta féð allt með sköttum og svipta borgarana eignarráðum yfir því. Sannfærður er ég einnig um það að mikill fjöldi landsmanna vill láta fé af hendi rakna til þessa stórverkefnis, því að allir finna fyrir því hversu slæmir ýmsir vekir eru, ekki síst á langleiðum, og satt best að segja er mikill hluti Norðurvegar, eins og t.d. um Norðurárdal, svo til allur ónýtur.

Á Vegamálaskrifstofunni er nú unnið að kostnaðaráætlun um Norðurveg og ættu frumáætlanir að liggja fyrir fljótlega þannig að sú n., sem frv. fær til athugunar, geti betur áttað sig á kostnaðarliðum. Vegurinn er nálægt 450 km á lengd, en um 100 km hafa þegar verið byggðir upp. Kostnaður við uppbyggingu slíks vegar er 3–10 millj. kr. á hvern km og ef reiknað væri með meðalkostnaði 5 millj. á km væri hér um að ræða 1750 millj. sem þyrfti til uppbyggingar vegarins alls, en síðan kæmi slitlagið og talið er að það kosti, miðað við núv. verðlag, 6–7 millj. á km eða að heildarkostnaður við slitlag væri um 3 milljarða, en auk þess koma svo nokkrir dýrir smákaflar og brýr þannig að heildarverkefni þetta er sjálfsagt einhvers staðar á bilinu 5–7 milljarðar. Þegar eru allstórir kaflar, sem búið er að byggja upp og strax mætti leggja á bundið slitlag, t.d. út frá Akureyri, beggja vegna Blönduóss, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og víðar.

Flm. hafa haft hliðsjón af því að ríkisstj. stefnir að því að reyna að draga úr of mikilli spennu á vinnumarkaði sem fyrst og fremst er þó hér suð-vestanlands. Þó að hér sé um stórframkvæmd að ræða útheimtir hún ekki ýkjamikið vinnuafl því að fyrst og fremst eru notaðar stórvirkar vélar og t.d. þyrfti ekki nema um það bil 20 manna vinnuflokk til að hef ja verulegar framkvæmdir við lagningu olíumalar.

Efamál er hvort nokkur ein framkvæmd hefði meiri þýðingu fyrir heilbrigða byggðaþróun en einmitt fullnaðargerð þessa mikilvæga vegar sem öllum landshlutum kemur að drjúgum notum. Ég leyfi mér þess vegna að treysta því að mál þetta njóti almenns stuðnings hv. þm. og legg til að það verði að lokinni þessari umr. sent hv. fjh.- og viðskn.