06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Hér er spurt um lausn á þeim vandkvæðum, sem austfirðingar hafa, eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, búið við nokkuð lengi. Hins vegar kom þessi fsp. fram strax fyrir jól og þá eðlilega fram borin svo sem í tengslum við þá alveg sérstöku erfiðleika sem þá gengu yfir á þessu svæði og raunar víðar um land. Það er vitað mál að endurvarpsstöð sjónvarpsins á Gagnheiði austur hefur frá upphafi verið næsta ótrygg. Bilanir hafa verið þarna tíðar og í hríðarveðrum er örðugt um viðgerðir og þess vegna bilanir stundum staðið nokkuð lengi. Aðflutningsleiðir raforku til Gagnheiðar hafa ekki verið nægilega öruggar er a. m. k. óhætt að segja. Sömu sögu er raunar að segja um smærri endurvarpsstöðvar á Austurlandi og sumar hverjar, að þær eru aðeins með lélegum útbúnaði, jafnvel bráðabirgðabúnaði, og nokkrar þeirra eru enn þá á vegum heimamanna, sem lögðu fram fé til að koma þeim upp á sínum tíma. Svo er þess að minnast í þessu sambandi, sem mér finnst rétt að komi hér fram, að nokkrar sveitabyggðir á Austurlandi hafa enn þá engin sjónvarpsnot, og því miður er svo víðar á landinu, þannig að það mál er nokkuð stórt í sniðum. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda hafa menn unað þessu illa á undanförnum árum og t. d. alþm. á Austurlandi hafa farið ótaldar ferðirnar á fund ráðamanna sjónvarps og útvarps að ræða þessi mál og bera fram kröfur um úrbætur. Sýnilegur árangur hefur orðið fremur lítill að því er varðar dreifingu sjónvarpsins og nálega engar eða alls engar endurvarpsstöðvar voru reistar á Austurlandi t. d. síðustu 3 árin. Það var ekki aflað sérstaks fjár til þessara stofnframkvæmda á þessu svæði né heldur annars staðar. Þvert á móti var það svo síðustu árin að útvarpið var rekið með halla frá ári til árs að því marki, að þegar ég kom að þessum málum í haust var yfirdráttur útvarpsins hjá Landsbankanum kominn upp í nálega 150 millj. kr. Þetta þjónustufyrirtæki eða stofnun er auðvitað fráleitt að reka þannig. Ég hlýt að segja það, þó að ég hafi staðið að þeirri ríkisstj. sem fór hér með völd á undanförnum árum á meðan þessi skuldasöfnun átti sér stað.

Fyrr í vetur lagði ég fram hér á hv. Alþ. skýrslu um dreifingu sjónvarps og hugleiðingar tæknimanna um framkvæmdir sem gætu bætt úr núverandi áföllum á dreifingu sjónvarpsins almennt. Ég vil láta það koma fram hér, að í illviðrakaflanum í vetur skrifaði Ríkisútvarpið Landssímanum, sem annast þessi mál fyrir hönd útvarpsins, og óskaði eftir nákvæmri skýrslu um bilanirnar á Austurlandi, hvernig þær hefði borið að og hversu lengi þær hefðu staðið. Jafnframt þessu bað ég útvarpið um það sérstaklega að láta okkur austfirðingum í té varðandi okkar málefni frásögn og till. um úrbætur þar austur frá. Skýrsla frá Landssímanum um bilanirnar, hvernig þær bar að og hversu lengi þær stóðu, er komin fram og í hendur útvarpsins og verður vonandi hægt að nota hana til að byggja á ákvarðanir um aðgerðir.

Að þessum formála loknum mun ég leitast við að svara fsp. hv. 2. þm. Austurl. á þennan hátt:

Í fyrsta lagi varðandi stöðina á Gagnheiði, þá var hún yfirfarin nokkuð vandlega upp úr áramótunum og skipt um ýmsa hluti, og ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því, að gerðar verði þær endurbætur á Gagnheiðarstöðinni, sem nauðsynlegar teljast að fróðra manna áliti. Þá vil ég geta þess, að það hefur verið og er unnið að því að treysta flutningaleiðir sjónvarpsins út frá Reykjavík og áleiðis til hlustenda á Austurlandi og annars staðar, þ. á m. á leiðinni frá Reykjavík til Gagnheiðar. Því starfi verður fram haldið eftir því sem unnt reynist og þær aðgerðir bæta væntanlega myndgæðin þarna austur frá sem og annars staðar þar sem þeirra nýtur við. Og sama gera auðvitað allar aðrar endurbætur sem unnið er að smátt og smátt á dreifikerfi sjónvarpsins. Ég get ekki á þessari stundu gefið upp neinar tímasettar framkvæmdaáætlanir, og það er m. a. af því að fjármagn er á þessari stundu ekki fyrir hendi til þess að framkvæma slíkar áætlanir. Ég mun að sjálfsögðu einnig stuðla að því eftir föngum að hraðað verði lagfæringum hinna minni stöðva á Austurlandi og byggingu nýrra, þar sem engar eru nú, ekki aðeins á Austurlandi, heldur og annars staðar á landinu, þar sem líkt er ástatt. En ég minni á það aftur og enn og legg á það áherslu, að til þess að nokkuð verulegt átak verði gert í þessum efnum þarf fjármagn og meira fjármagn en nú er fyrir hendi. Það verða engar framkvæmdir gerðar, hvorki þessar né aðrar, hversu nauðsynlegar sem þær eru og hvað sem við teljum þær sjálfsagðar, án þess að fjármagns sé aflað.

Eins og ég gat um áðan hefur Ríkisútvarpið á undanförnum missirum beinlínis safnað skuldum. Og ég get sagt það nú strax að þeirri þróun verður ekki unað og ég hef látið undirbúa og hafa raunar þegar verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir þessa skuldasöfnun í framtíðinni og rúmlega það. Eftir þeirri áætlun, sem hækkun afnotagjaldanna sem nú hefur verið tilkynnt, er byggð á, þá á að vera hægt að greiða niður þær skuldir, sem myndast hafa, á næstu tveimur árum. Vona ég að það eigi sér ekki oftar stað, að útvarpið safni þannig skuldum.

Ég vil einnig láta það koma fram í sambandi við þessa fsp., því að það snertir þetta mál vissulega, að að undanförnu um nokkuð langt skeið hefur verið unnið að athugun á skipulagningu og fjármálahlið útvarps og sjónvarps á vegum hagsýslustofnunar og útvarps. Hluti af þessum álitsgerðum liggur fyrir nú þegar og annað er væntanlegt nú alveg á næstunni. Menn gera sér vonir um það, t. d. í sambandi við innheimtukerfi útvarpsins megi með breyttri tilhögun spara mjög verulegar fjárhæðir í rekstri. Ég hef jafnframt leyft mér að vona að hluta af þeim sparnaði mætti verja til þess óhjákvæmilega og bráðnauðsynlega verks að tryggja og endurbæta og færa út dreifikerfi sjónvarpsins alveg sérstaklega.