06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þess, sem hér hefur verið rætt, og vegna þess að mér virðist núv. hæstv. menntmrh. mjög jákvæður í því að gera bragarbót á þeim vandkvæðum sem nú eru og hafa verið á Austurlandi að því er varðar dreifingu sjónvarps. En af því að hæstv. menntmrh. er svona jákvæður til þessa þáttar málsins, þá vildi ég aðeins koma því á framfæri við hann að hann minntist sinna hrjáðu meðbræðra á hinu horninu, á Vestfjörðunum. Það er vissulega þar mikið vandamál í þessum efnum eins og víðar. Ég vil því nota tækifærið af því að ég veit að dreifbýlishjartað slær þar innan veggja hjá hæstv. menntmrh., að hann hugi að hinu horninu líka, hinum kjálka landsins, sem er álíka settur og sá sem hér hefur nú verið mest um rætt. (Gripið fram í: Ég lýsti því yfir.) Já, ég þakka fyrir það.

En vegna þess, sem hér hefur komið fram líka í sambandi við útvarp og sjónvarp og þá sérstaklega sjónvarp, að það hafi fjármuni til ýmissa hluta sem sú stofnun vill, þá er það rétt. Mér er sagt að t. d. eitt verk, sem ekki hefur gefist tækifæri til að sýna enn, Lénharður fógeti, muni hafa kostað um 20 millj. kr. Ég held að það dæmi ásamt mörgum öðrum, án þess að ég sé að sjá eftir aurum sem skáldin fá fyrir yrkisefni, eins og hér kom fram áðan, þá sýni það dæmi, að það er og virðist vera til fjármagn til þeirra hluta, sem sú stofnun sjálf vill koma á framfæri. Og það er rétt, sem hér hefur verið tekið fram, að það þarf visst aðhald til þess að huga að til hvaða framkvæmda eða þátta þeir fjármunir fara, sem stofnunin hefur yfir að ráða. Það er vissulega ekki vanþörf á því, að slíkt aðhald verði upp tekið.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en ég ítreka það, að ég treysti á hæstv. menntmrh. að hann hugsi til okkar hinna þegar ráðist verður í framkvæmdir til úrbóta.