20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. óskaði eftir því að fá fylgi sem flestra við málið og er það eðlilegt. Ég tek ekki til máls til að lýsa andstöðu minni við þetta mál, þvert á móti. Auðvitað vil ég styðja vegagerð á leiðinni til Akureyrar eins og annars staðar. En mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á því að í sambandi við þetta mál ber á nokkrum misskilningi. Í grg. fyrir frv. er sagt: „Framkvæmdum á Skeiðarársandi er nú lokið og er þá eðlilegt að við taki nýtt stórátak í vegagerð og rétt að nota m.a. þá fjáröflunarleið sem felst í útgáfu happdrættisskuldabréfa.“ Þegar talað er um að hringveginum sunnan jökla sé lokið, er allt of mikið sagt. Hringvegurinn var opnaður á s.l. sumri við hátíðlega athöfn og miklum áfanga var náð þegar Skeiðará var brúuð og önnur vatnsföll sem hafa hindrað leiðina milli Suður- og Austurlands. En þessari vegagerð er ekki lokið. Það vita þeir sem þekkja veginn. Suðurlandsvegur er á köflum mjög veikbyggður, en við opnun hringvegarins tvöfaldaðist umferðin og aldrei hefur Holtavegur og Rangárvallavegur í Rangárvallasýslu verið eins slæmir og á s.l. sumri og á þessu hausti vegna aukinnar umferðar þungra bíla sem koma frá Hornafirði og frá Austfjörðum. Austfirðingar hafa minnst á veika kafla, t.d. á Lónsheiði, Breiðamerkursandi, og skaftfellingar þekkja Mýrdalssand. Þessa kafla alla þarf að gera sterkari áður en talað er um að þessum vegi sé lokíð.

Ég sé ástæðu til að minnast á þetta þegar hér er flutt frv. um heimild til að selja happdrættisskuldabréf að upphæð 1 200 millj. kr. Þessi hugmynd er ágæt og ég tel rétt að styðja þá hugmynd að afla fjár á þennan hátt sem hefur gefist vel í sambandi við brúargerð á Skeiðará o.fl. vatnsföll. En við verðum að horfa meira en til einnar áttar. Það er eðlilegt að þm. norðlendinga og Vesturlands minni á Vesturlandsveg og veginn til Akureyrar. Þegar flutt er frv. eins og þetta um fjáröflun til þessa vegar verður að minna á það sem ógert er á öðrum stöðum sem eru jafnvel fjölfarnari. Það var gert myndarlegt átak í sambandi við Austurveginn, þegar hann var rykbundinn frá Reykjavík austur að Selfossi. Í vegáætlun 1972–76 var gert ráð fyrir að vegarkaflinn frá Selfossi að Skeiðavegamótum yrði fullgerður á árinu 1974. Þessari framkvæmd hefur seinkað vegna fjárvöntunar hjá Vegasjóði. Verður þessum kafla því ekki lokið fyrr en haustið 1975. Holtavegurinn og það sem eftir er af veginum í Flóanum verða þess vegna á næsta ári kannske svipaðir yfirferðar og var á s.l. sumri og munu margir kviða því, sömuleiðis Rangárvallavegur.

Við höfum talað um hringveg um landið og við skulum halda áfram að gera það. Þá er ekki nóg að tala um veginn sunnan jökla eða Vesturlands- og Norðurveginn til Akureyrar. Við skulum halda áfram að tala um hringveg um landið og gera heildaráætlun um kostnað við að gera góðan hringveg þannig að þegar farið er vestur um til Akureyrar megi halda áfram austur og svo frá Austurlandi hingað vestur. Þá er kominn hringvegur. Þetta tekur nokkuð langan tíma, þetta er dýrt fyrirtæki og þess vegna er eðlilegt að unnið sé á tveimur vígstöðvum að þessari framkvæmd, að það verði haldið áfram að vinna að hringveginum sunnan jökla og það verði haldið áfram að vinna að Vesturlandsveginum og Norðurveginum þaðan. Þetta þarf allt að gerast samhliða.

Það er um tvennt að ræða ef við ætlum að vera sanngjarnir og horfa til beggja átta, að hringvegurinn sunnan jökla fái hluta af þeim 1200 millj., sem nefndar eru í þessu frv., eða þá að við endurskoðun vegáætlunar, sem óhjákvæmilega verður að fara fram á þessu þingi, verði tekið tillít til þess að Vesturlandsvegurinn fær 1200 millj. samkv. þessu frv. og þess vegna verði beint framlag frá Vegasjóði meira til Austurvegar en annars hefði orðið.

Ég skal ekkert segja um það hvort þetta er hæfileg upphæð, 1 200 millj., til útboðs í skuldabréfasölu á þessum tiltekna tíma. Það má vel vera að það sé hægt að hafa þessa upphæð eitthvað hærri.

Ég er sömu skoðunar og hv. 1. flm. þessa frv. að það sé eðlilegt að taka innlend lán hjá borgurunum til nauðsynlegra framkvæmda og minna þá af erlendum lánum. Við höfum heyrt það að með því að setja háar upphæðir á markaðinn af skuldabréfum tæmist bankarnir. Ég held að það sé misskilningur að mestu leyti. Ég held að skuldabréfasala í þessu formi geti örvað sparnað og geti komið í veg fyrir það að stórar fjárhæðir fari í eyðslu og óþarfavarning. Er þetta ekki leiðin til þess að örva sparnað, að unglingar og aðrir, sem vilja spara fé, geti tryggt það? Ég held að skuldabréfasala í þessu formi geti gert þetta tvennt: að örva sparnað og koma í veg fyrir óþarfa gjaldeyriseyðslu fyrir varning og aðra eyðslu sem best væri að venja fólk af. Þess vegna er ég ekkert víss um að þessar 1 200 millj. séu rétta upphæðin. Það getur vel verið að það mætti hækka þessa upphæð með það fyrir augum að auka hér vegaframkvæmdir því að kröfurnar um bætta vegi eru alltaf að aukast af eðlilegum ástæðum. Bílafjöldinn er alltaf að aukast. Það er ekki ýkjalangt síðan bifreiðaeignin var aðeins 35 þús. Nú er bifreiðaeignin komin upp í 70 þús. Það er ekki ýkjalangt síðan stærstu vörubifreiðar voru aðeins 5–6 tonna, en nú er algengt að 10–12 tonna bifreiðar séu á vegunum. Þetta eykur slitið á vegunum og þetta krefst allt saman betri vega.

Vegasjóður er illa staddur fjárhagslega. Síðan 1972, að síðasta áætlun var gerð, hefur vegagerðarkostnaður aukist um meira en 100%. Í vandræðunum vegna fjárvöntunar í Vegasjóð varð að fresta vegaframkvæmdum á þessu ári sem nemur meira en einum milljarði kr. Þrátt fyrir þá hækkun, sem hefur verið gerð á bensíni og þungaskatti til fjáröflunar fyrir Vegasjóð, er ekki annað að sjá en það verði að fresta framkvæmdum á næsta ári um hærri upphæð en gert var á þessu ári, nema þá sérstök ný fjáröflun komi til sem ekki hefur enn verið kynnt alþm.

Ég geri ráð fyrir því að við þm. sunnlendinga og þm. austfirðinga gerum tilraun til að fá auknar fjárveitingar í einu eða öðru formi til hringvegarins sunnan jökla, til að halda honum færum og til að sýna að mönnum sé alvara að gera hringveg. Ég segi þetta ekki til þess að spilla fyrir þessu frv. sem hér er um að ræða. Ég segi þetta vegna þeirrar nauðsynjar að þörfin að viðhalda vegi hér sunnanlands og halda áfram með vegagerð þar er engu minni en þegar horft er vestur á bóginn.

Það er kannske ekki síður ástæða fyrir okkur þm. sunnlendinga og þm. austfirðinga að vekja athygli á þessu nú strax við 1. umr. þessa máls vegna þess að hæstv. samgrh. sagði í útvarpsumr. fyrir stuttu að það væri Vesturlandsvegurinn sem bæri sérstaklega að leggja áherslu á. Hæstv. samgrh. er í eðli sínu það sanngjarn maður að þegar hann fer að hugsa þetta mál, þá kemst hann að raun um það að það er alls ekki nóg að leggja Vesturlandsveg.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira að sinni. Ég vildi aðeins vekja athygli á nauðsyn þess að leggja vegi sunnanlands eins og annars staðar á landinu.