20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 17, sem hér er nú til 1. umr., er um að heimila ríkissjóði lántöku fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg. Það er ánægjulegt og reyndar vitað að þm. hafa almennt áhuga á vegagerð, enda er hún eitt af mestu nauðsynjamálum okkar því að hún er undirstaða undir það að við getum haldið uppi byggð um landið allt og komið raunverulegri byggðastefnu í framkvæmd. Það þarf ekki orðum að því að eyða að það eru viðskiptin sem gera það að verkum að fólk flýr af þessum og hinum stað, það er flutningur á framleiðsluvörum bænda og annarra, er búa úti á landsbyggðinni, til neytendanna og það er líka flutningur á vörum sem hér hefur verið skipað upp og héðan fara til þeirra aftur. Það þarf ekki orðum að því að eyða, að það þarf að vinna að gerð vega um allt land því að þótt mikið hafi verið gert er mikið ógert.

Í sambandi við þetta frv. vil ég upplýsa það að ég hef lagt fyrir Vegagerðina að láta gera athugun á því hvar væru til nú vegaspottar, sem væri hægt að leggja á varanlegt slitlag, og hvað það mundi kosta að leggja á þá olíumöl, á þann undirbúning sem þegar er orðinn. Ég var að vona að ég yrði búinn að fá yfirlit yfir þetta áður en þetta frv. kæmi til 1. umr., en það varð ekki því miður, en ég mun upplýsa það síðar þegar það mál liggur fyrir. Ég býst við að það sé meira mál heldur en við leysum á einu ári eða svo, enda var það ekki hugsunin heldur að reyna að gera sér grein fyrir því hvar þessir vegaspottar eru og hvernig væri hægt að snúast við að koma á þá varanlegu slitlagi og draga þannig úr viðhaldi á þeim meðan á uppbyggingu annarra stendur,

Ég get tekið undir það að þörfin fyrir vegagerð og endurbætur á vegum á Vesturlandi til Norðurlands er geysilega mikil. Í þessum landshlutum hygg ég að séu einir elstu vegakaflar landsins sem ekki hafa verið endurbyggðir. En það segir ekki það að ekki séu víðar til vegir, sem þarf að endurbæta, og þess vegna hefur ákvörðun mín um að láta kanna vegakerfið ekki verið bundið við þessa leið eina. Ég tel, eins og fram hefur komið hér í umr. og oft áður, að hringvegur um landið sé höfuðmarkmið þótt fleira komi þar til. Út af leiðinni vestur og norður vil ég segja það að þar eru víða mjög slæmir kaflar sem þola ekki þá umferð, sem er orðin um þá nú. Þessir vegir eru þannig margir að þeir fara strax undir vatn ef einhver flóð verða, eins og t.d. í Borgarfirði, og brýr eru margar á þessari leið, sem ekki þola þá umferð, bæði að mergð og þunga bifreiða, sem um þessa vegi er. Þess vegna þarf að leggja á það brýna áherslu að reyna að endurbyggja þetta vegakerfi, og ég fagna þeim áhuga sem hér liggur fyrir um happdrættislán til þessara framkvæmda.

Ég vil segja það út af þeirri reynslu, sem fengist hefur af sölu happdrættislána, að hún hefur verið góð. Það var talið að ekki mundi þýða seinni hluta s.l. sumars að fara að gefa út happdrættislán, eins og óskað var eftir, því að þau mundu ekki seljast. Hins vegar sýndi það sig, þegar Vestfjarðabréfin voru gefin út, að þau seldust upp á nokkrum dögum svo að færri fengu en vildu. Nú er verið að selja ný bréf til þess að fjármagna eftirstöðvar á Skeiðarársandi sem eru nokkrar. Þar á eftir að fjármagna sennilega um 250 millj. kr., svo að þótt þetta seljist allt, þá nægir það ekki til þess. Ég er á þeirri skoðun um þessa leið til fjáröflunar að það sé ekki rétt að það sé eingöngu tekið fé út úr bönkum og sparisjóðum til kaupanna, heldur eigi það ekki síður sér stað að þetta stuðli að sparsemi. Þó nokkuð hefur verið keypt af svona bréfum vegna barna og unglinga og mikið af því fé mundi ekki verða lagt inn í banka eða sparisjóði ef þessi leið væri ekki fyrir hendi. Þess vegna held ég það, að þetta sé rétt leið, ekki aðeins til að afla fjár til vegagerðar, heldur einnig til að auka sparsemi í landinu. Hún tryggir líka verðmæti þessa fjár á hóflegan hátt og það tel ég vera einnig hina mestu nauðsyn.

Ég vil segja það að þótt þetta frv. leggi höfuðáhersluna á Vesturlandsveginn norður, sem er eins og ég áður sagði hið mesta þarfamál, þá segir það ekki að fleiri verkefni séu ekki í vegagerð bæði á Suðurlandi og einnig hér á milli hinna þéttbýlu staða, eins og Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, en það eru miklir umferðaerfiðleikar á þeirri leið á degi hverjum svo sem kunnugt er. Í sumar hefur verið unnið að vegagerðinni í Kópavogi og henni hefur miðað það að gera má ráð fyrir að komist verði að brúnni fyrir áramótin. En þá er bæði eftir að byggja brú á Kópavogslækinn og einnig að gera veginn þar fyrir sunnan sem er mjög erfiður umferðar. Það er ákveðið að gera bráðabirgðaúrbætur á þeim vegi til þess að draga úr mestu slysahættunni á gatnamótum við þennan aðalveg, og víðar, sem eru mjög hættuleg, en það er auðvitað ekki nema bráðabirgðalausn á þessum vanda.

Ég held því að það verði ljóst að það fjármagn; sem við höfum til vegagerðar, mun ekki nægja okkur til þeirra stóru verka sem við þurfum að vinna í vegagerð og það með meiri hraða en við raunverulega gerum okkur grein fyrir því að það hefur gerst að inn í landið eru komnir það stórir flutningabílar, bæði til fólksflutninga og vöruflutninga, að þeir eru ekki í samræmi við okkar vegakerfi. Þess vegna þarf að endurbæta það og það með miklum hraða.

Ég vil líka segja það að vegagerð hefur þá sérstöðu fram yfir margar framkvæmdir að það þarf minni mannafla til vegagerðar heldur en yfirleitt í stórar framkvæmdir vegna þess að vélarnar eru farnar að annast þar meiri hluta verksins og gera það að verkum að minni mannafla þarf til að leysa þessi verkefni en ýmis önnur hliðstæð verkefni.

Mér er ljóst að til þess að fjármagna að fullu vegáætlun þá, sem gerð var síðast, og verður hér til endurskoðunar og unnið er að núna, skortir verulegt fé því að kostnaður við þessar framkvæmdir hefur vaxið geysilega mikið. Auk þess er það svo að við þurfum að taka inn ný verkefni, eins og þetta sem hér er til umræðu og önnur fleiri sem ekki voru nema að litlu leyti á þessari áætlun, þótt að nokkru leyti væri. Það gerir þetta verk enn fjárfrekara en við getum leyst úr, að ég hygg, en þurfum samt að einbeita okkur að.

Ég skal ekki fara að þreyta hér með langri ræðu í sambandi við þetta frv. Ég fagna áhuga hv. þm. á fjáröflun til vegagerðar í landinn og ég geri mér grein fyrir því að þótt verkefnin á Vestur- og Norðurlandi séu mikil og stór, þá er það víða á landinu sem svo er. Það verður að vera okkur kappsmál að reyna að líka þessum verkefnum á sem skemmstum tíma því að nútíminn krefst þess að vegir séu sæmilegir og eins og bilaeign landsmanna er orðin mikil núna, þá er það verulegt fjármagn sem fer í slit á bílum vegna þess hvað vegirnir eru vondir. Þess vegna er ég sannfærður um það að fjárfesting slík sem þessi mun borga sig, því að það er æðimikill munur að keyra á vegum, sem hefur verið sett á varanlegt slitlag, bæði um eyðslu á bensíni og eyðslu á bílnum, fyrir utan hvaða munur er að fara um þessa vegi. Það sem hefur verið gert að þessu, eins og vegurinn austur á Selfoss og vegurinn upp á Kjalarnes, það sannar okkur þetta betur en nokkuð annað þegar við förum að reyna þetta, og svo Keflavíkurvegurinn og vegirnir á Reykjanesi sem hafa verið gerðir nú á síðustu árum. Allt er þetta spor í rétta átt. En áfram verður að halda og ég er sannfærður um að engum dettur í hug að vegurinn vestur og norður bíði þar til öðru er lokið, heldur verður hann að koma nú í fremstu röð þó að áfram verði haldið í þær áttir sem unnið hefur verið að til þessa.