06.03.1975
Sameinað þing: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Á nokkrum undanförnum þingum hafa hv. þm. Alþfl. flutt till. til þál. um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum. Þessi till. hefur verið ítarleg, hún hefur verið í nokkrum skýrt mörkuðum töluliðum og hún hefur haft þann tilgang að færa allt land og öll landsréttindi úr eigu einstaklinga og í hendur ríkisins. Það er rétt, sem hv. 2. landsk. þm., 1. flm. till. nú, greindi, að gerð hefur verið sú undantekning frá reglunni, að bændur geti átt bújarðir sínar eða megi eiga bújarðir sínar á meðan þeir kjósa þann hátt fremur. En þó er svo um hnúta búið, að þessi eign bændanna hlýtur að færast í hendur ríkisins fyrr eða siðar, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði grein fyrir. Ég held, að það orki ekki tvímælis að þessi tillöguflutningur á undanförnum árum hefur verið mesta aðför að eignarréttinum í þjóðfélaginu sem gerð hefur verið hér á hinu háa Alþingi.

till., sem nú liggur fyrir, er í nokkuð breyttu formi. Hún er óljósar orðuð en fyrri till. af sama tagi, og það er jafnvel svo, að seinni mgr. samrýmist varla þeirri fyrri. Þetta virðist vera gert til þess að reyna að slá ryki í augu fólks, að draga úr hinum beina tilgangi till., sem sé þeim að þjóðnýta landið, gögn þess og gæði, ef það mætti verða til þess að hún gengi fremur í augu fleiri en áður var. Samt sem áður liggur það ljóst fyrir, að andi till. og tilgangur allur er enn hinn sami, hann er óbreyttur frá því sem áður var, þjóðnýting landsins og að koma yfirráðum þess í hendur opinberra aðila, — nú segir: ríkis- eða sveitarfélaga, og er það ný skilgreining á því hvað sé alþjóðareign, — ef tiltekin verðmæti í eigu sveitarfélags, þá séu þau alþjóðareign. Það er ný skilgreining fyrir mér.

Ég þarf kannske ekki að flytja langa ræðu um þetta mál nú, vegna þess að mér nægir að vitna til þess sem ég sagði í þessum ræðustól fyrir 2–3 árum um afstöðu mína til þessa máls. Ég vil þó láta nokkur orð falla um þetta efni.

Till. eins og hún liggur nú fyrir, að stefnt verði að því „að land allt verði alþjóðareign (eign ríkis og sveitarfélaga), en bújarðir verði í eigu bænda þegar þeir kjósa þann hátt fremur en hafa lönd sín á erfðafestu,“ eins og segir í fyrri mgr., og enn fremur, að ríki og sveitarfélögum skuli „þó tryggður forkaupsréttur á öllu landi,“ er með þeim hætti, að það mætti e. t. v. skilja á þann veg að bújarðirnar í landinu ættu að verða áfram í eigu bænda sjálfra, að meginhluti af óbyggðu landi, sérstaklega afréttirnar allar, sem eru meginhluti af óbyggðu landi á Íslandi, ættu áfram að vera í eigu þeirra sem þær eru nú, vegna þess að þær eru að meginhluta í eigu sveitarfélaga, í eigu upprekstrarfélaga sem ýmist eru eitt sveitarfélag eða fleiri. Það mætti ætla, að fallvötnin, árnar, sem falla um byggðir og óbyggðir, ættu áfram að vera í eigu þeirra sem þær eiga nú, vegna þess að áin, sem rennur við túnfótinn á tiltekinni jörð, er óaðskiljanlegur hluti jarðar. Sömu sögu er að segja um stöðuvötn o. s. frv. En það kveður við annan tón þegar kemur í síðari mgr. till., því að þar er megininntakið það, að skipa skuli til þess sérfróða menn að semja frv. að l. um það, hvernig eignarráð og eignarréttindi á landi skuli færast yfir í hendur ríkisvaldsins. Og í lok þeirrar mgr. segir: „Glöggt verði kveðið á, hvernig landareign og landsnytjar færist úr einkaeign í eigu ríkisins og hvernig bætur skulu reiknast fyrir.“

Þarna kemur það sem sé ljóst fram, alveg öfugt við það sem gerðist í hinni fyrri mgr., að enn er stefnt í hina sömu átt, að það sé tilgangurinn að koma landinu öllu í eigu ríkisins, e. t. v. í sumum tilvikum í eigu sveitarfélaga, en þó er þjóðnýtingin höfuðatriði. Ég er þeirri stefnu, sem þarna kennir fram, gersamlega andvígur. Ég tel að hún sé óheppileg og mundi leiða til ástands, sem ég held að yrði ekki a. m. k. sveitum landsins og þeim, sem þar búa, til góðs. Ég vil minna á það, að nú munu vera um 800–900 jarðir og jarðeignir á landinu í eigu ríkisins. Þessar jarðir hefur ríkið nýtt með ýmsu móti. Sumar þeirra eru leigðar bændum til ábúðar, aðrar eru það ekki, þær eru eyðijarðir, og enn aðrar eru nýttar með þeim hætti sem a. m. k. umdeilanlegt er að formi til. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma, og væri hægt að gera það síðar ef tilefni gæfist til. Hins vegar lít ég svo á eftir minni þekkingu og mínum kunnugleika, að yfirleitt megi segja að þær jarðir, sem eru í ríkiseign, í opinberri eigu og leigðar eru bændum, þekkist nokkuð úr vegna þess að þar er yfirleitt um síðri búskap að ræða þar er ekki eins mikið keppikefli bóndans að prýða og fegra jörðina eins og er þar sem hann á ábýlisjörðina sjálfur. Slíka sögu held ég að megi rekja gegnum sveitir landsins um allt Ísland, og það er e. t. v. órækasti vitnisburður um það, hver kjölfesta sjálfseignarábúð bænda er á jörðum. Hún er að mínum dómi óumdeilanleg kjölfesta landbúnaðarins. Ef þessi eignarréttur yrði upp hafinn, þá mundi það leiða til þess að ótvírætt los kæmi á búrekstur í landinu. Það mundi leiða til þess, að sú ánægja, sem því fylgir fyrir hvern bónda að búa á eigin jörð, hyrfi, og hann legði ekki eins hart að sér við að bæta landið, gera umbætur í framkvæmdum og fegrun landsins á sínu býli. Hún mundi koma fram í því, að það yrði los á ótrúlega mörgum bóndanum, hann væri ekki lengur sjálfs sín herra á eigin landi, hann væri leiguliði hins opinbera og það hefði svo í för með sér að sú tilfinning, sem sjálfseignarbóndinn ber í brjósti gagnvart sínum búrekstri og sinni jörð, hverfur.

Ég get mætavel skilið það, að hv. 2. landsk. þm. eigi erfitt með að skilja þessa tilfinningu hins íslenska bónda. Ég veit þó, að hann hefur um mörg ár haft kynni af íslenskum landbúnaði og haft kynni af mörgum íslenskum bændum, enda starfað í þeirra þágu. En þó hefur hann, að ég hygg, aldrei komist í þessa aðstöðu sjálfur. Ég held, að það væri mjög til hins verra, og tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, hv. 6. þm. Norðurl. e., að það mundi veikja mjög byggð í sveitum landsins ef árnar yrðu skildar frá jörðunum með sérstakri lagasetningu og þær gerðar að ríkiseign, og sama er að segja um stöðuvötnin. Það mundi ótvírætt verða til þess að kippt væri spæni úr aski bóndans með þeim hætti, að ef hann ætti að lifa í þessu landi yrði að bæta upp á annan veg. Það mundi þá þýða það væntanlega, að landbúnaðarafurðir, sem oft þykja í ærið háu verði, yrðu að hækka. Það mundi einnig þýða það, að upp yrði sett sérstök stjórnarráðsskrifstofa hér í Reykjavík til þess að fara með þessi verðmæti og útdeila þeim til landslýðsins. Ég veit ekki, hvort nokkur trúir því hér inni, að með þeim hætti yrði betur á þessum málum haldið. En það er víst, að ég trúi því ekki.

Eins og ég sagði áðan gagnvart hálendi landsins, þá er meginhluti þess óskorað í eigu sveitarfélaga og stundum nokkurra sveitarfélaga saman, þ. e. upprekstrarfélaga. Um nokkur landssvæði af hálendinu er deilt hver eigi, og væri auðvitað þarft að skera úr því hið fyrsta. En ég held, að það mundi einnig rýra mjög kost þeirra sem sveitir byggja, ef það ætti að taka þessa eign af sveitarfélögunum í strjálbýli.

Nú er það svo, að ef hið opinbera telur sig þurfa að nýta tiltekna eign í almannaþágu, þá eru nægar lagaheimildir fyrir því að taka þær eignarnámi. Ef um er að tefla t. d. jarðhita, sem hv. frsm. ræddi mjög um, þá hefur það fram undir þetta a. m. k. verið regla, eftir því sem mér hefur verið sagt frá, í sambandi við eignarnám eða mat, hvort sem það hefur verið eignarnámsmat eða mat á jarðhitaréttindum, að þau hafa ekki verið talin í ákaflega háu verði, séu þau verðmæti óvirkjuð af þeim sem áttu. Nú kann þetta að hafa breyst á allra síðustu árum með tilliti til orkukreppunnar. En þrátt fyrir það er þarna opin leið eftir íslenskum lögum, eins og þau eru í dag, að taka þessi réttindi eignarnámi, ef almannaheill krefst, svo fremi að samningar náist ekki. Það þarf því ekki þjóðnýtingu þessara verðmæta um land allt til þess að geta nýtt þau í þágu almenningsheilla. Það er algerlega ljóst.

Það er gert mikið úr því, að það þurfi að koma í veg fyrir brask með jarðir og landsréttindi. Víst er það, að þar er við vandamál að etja, og kunna að vera til ýmsar leiðir í því sem réttlætanlegt sé að fara, aðrar en þær að þjóðnýta landið allt. Hins vegar er það eitt meginatriði í slíkum tilvikum í mínum augum að búa svo um hnúta, að sveitarfélög geti nýtt forkaupsrétt, en forkaupsrétturinn, sem sveitarfélög hafa á öllu landi í sínu umdæmi, öllum jörðum, hefur verið að meira eða minna leyti óvirkur vegna fjárskorts sveitarfélaganna. Það gæti verið réttlætanlegt að taka hluta af söluverði fasteigna til sveitarfélags til þess að auðvelda sveitarfélögum að nýta kaupréttinn. Það gæti verið réttlætanlegt, þó því aðeins að verð á þeim fasteignum færi yfir venjulegt söluverð eða eitthvað tiltekið mark yfir fasteignamatsverð. Það er ein af þeim leiðum sem gætu komið til greina.

Ég vil taka það fram út af þeim umr., sem hér hafa orðið í sambandi við afnot þéttbýlisfólks af landinu, að nauðsynlegt er að búa svo um hnúta að fólk geti átt frjálsan aðgang að landi. Þetta er að sumu leyti skipulagsatriði, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. minntist á. Að sumu leyti er það málefni hvers byggðarlags að búa svo um hnúta, að þar sé hægt að hafa frjálsan aðgang að ákveðnu landssvæði, og það er að mínum dómi heppilegast og langsamlega líklegast til þess að vel megi fara, að slíkt land sé í eigu þess byggðarlags, en ekki í ríkiseigu.

Ég vil taka það fram út af sumarbústaðahverfum eða landi undir sumarbústaði, að ekki þarf að vera jafnmikið skipulagsleysi á þeim málum og oft hefur verið, vegna þess að samkv. náttúruverndarlögum er óheimilt að reisa sumarbústað á landi nema með leyfi sveitarstjórnar. Sveitarstjórn getur því eftir gildandi lögum haft á því full tök, hvernig á þeim málum er haldið, og þarf enga þjóðnýtingu til. Það er sannarlega tímabært og alveg rökrétt framhald af tímans rás að sveitarstjórnir, hvar sem er á landinu, hugi að þessu efni og í fyrsta lagi láti ekki rísa upp sumarbústaði án skipulags og taki það beinlínis til meðferðar að koma upp skipulögðum sumarbústaðahverfum þar sem það hentar. Ég tel fráleitt, að það mundi takast betur þó að með það færi einhver deild í stjórnarráðinu hér í Reykjavík.

Ég skal ekki lengja þetta mál mikið, ég tel mig ekki þurfa þess vegna ræðu minnar hér fyrir 2–3 árum. Ég vil aðeins bæta því við það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði um einkavegi, þar sem frsm. ræddi um að sums staðar væri komið að lokuðum hliðum, bönnuð yfirferð yfir landið, að ég held að þetta tíðkist yfirleitt ekki á jörðum sem eru í eigu bænda sjálfra. Ég hef ekki rekið mig á það. Hins vegar verð ég var við þetta í allmörgum tilvikum á þeim stöðum þar sem land og jarðir eru í eigu annarra aðila, og það kynni svo að fara, ef tiltekin stjórnarráðsdeild færi að deila út landinu, að þá þættust þeir aðilar, sem fengið hafa afnot af því, vera þess megnugir að loka því í meira mæli en gert hefur verið til þessa. Ég held, að þjóðnýting landsins mundi verka öfugt í þessu efni. Það yrði í miklu meira mæli komið að lokuðum hliðum, í mun meira mæli stæði við tiltekinn vegarspotta: „Einkavegur. Óviðkomandi bannaður aðgangur.“ Þetta held ég að hv. 2. landsk. þm. ætti að hugsa um í sambandi við þennan tillöguflutning sinn.

Ég þekki ekki það umhverfi, þar sem vegfarendur koma að lokuðum hliðum bænda, ég þekki ekki þær jarðir. E. t. v. þekkir hv. þm. Benedikt Gröndal þær. Ég held einmitt, að einnig í þessu tilviki yrði skipt um til hins verra ef landið yrði, eins og hann nefnir það, alþjóðareign.

Ég ítreka aðeins þá skoðun mína, að sjálfseignarform bænda á jörðum er kjölfesta landbúnaðarins. Sé þessari kjölfestu varpað fyrir borð mun staða landbúnaðarins í framtíðinni vera ótrygg. Það mun verða ótrygg búseta bænda á jörðum og það hverfur sú tilfinning úr brjósti bænda, sem því fylgir að búa á eigin jörð. Með því væri stefnt að mínum dómi til mikilla óheilla.

Ýmsir hafa velt því fyrir sér á þeim árum, sem liðin eru frá því að hv. þm. Alþfl. hófu að flytja till. af þessu tagi, hvað fyrir þeim vakir. Sumir halda því fram, að þeir séu einungis að dusta rykið af gömlum sósíalískum stefnuskráratriðum til þess að sanna, að þeir séu vinstri flokkur, til þess að koma þeirri hugsun á framfæri, að þeir séu róttækur flokkur, e. t. v. róttækari en aðrir flokkar á Íslandi. Aðrir halda, að hér sé einungis um að ræða heldur ómerkilegt áróðursplagg sem þeir séu að veifa framan í þjóðina ár eftir ár, af því að þeir telji sér það hagkvæmt fyrir vissan hluta fólks og það geti e. t. v. orðið til þess að einhverjir glepjist til fylgis við þá af þeim orsökum. Ég held, að þessi síðari tilgáta sé ekki fjarri lagi, ef litið er á framvindu þessa máls á hv. Alþ. bæði fyrr og nú. Till. þessi hefur ekki hlotið afgreiðslu Alþ. til þessa. Þess hefur ekki orðið vart, svo að ég viti, að hv. flm. till. hafi ýtt þar mikið á eftir. Ég spurði um það hjá skrifstofu Alþ., hvort fulltrúi Alþfl. í þeirri hv. þn., sem þetta mál fékk til meðferðar á síðasta Alþ., hefði skilað áliti. Svo var ekki. Nál. hefur ekki verið skilað af stuðningsmönnum þessarar till. Till. nú var flutt snemma á yfirstandandi Alþ., löngu fyrir jól. 6. mars er fyrst mælt fyrir till. Hefur hún þó lengi staðið í efstu röð á dagskrá Sþ., þess fundar er fjallar um till. til þál. Það er því a. m. k. ekki fast eftir því gengið af flm. till. að ýta henni áfram eða koma henni til afgreiðslu.

Ég vil aðeins ýta á eftir því fyrir flm., að þessi till. hljóti nú afgreiðslu. Ég held, að það sé ekkert við það unnið að vera að veifa þessu máli framan í landslýðinn ár eftir ár, þing eftir þing, án þess að taka það einu sinni til formlegrar og endanlegrar afgreiðslu á Alþ. Þess vegna skora ég á þá hv. þn., sem fær þetta mál til meðferðar, að skila fljótt og vel áliti um það og taka það til afgreiðslu. Ég hef það traust á hinu háa Alþ., að ég efast ekki um hver sú afgreiðsla verður.