06.03.1975
Sameinað þing: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fjórir hv. þm. hafa staðið upp til þess að andmæla þeirri till. sem hér er til umr. Þeim er það sameiginlegt að þeir líta allir á þetta mál svo til eingöngu frá sjónarhóli bænda, þeir telja frv. vera árás á bændastéttina og lesa bæði inn í till. sjálfa og þennan rökstuðning, sem með henni hefur verið fluttur, miklu meira og allt annað en þar er um að ræða. Það er t. d. fullyrt, að flm. skilji ekki tilfinningu hins íslenska bónda fyrir því að búa á eigin jörð, enda þótt það standi greinilega í till. að það er gerð sú undantekning frá grundvallarstefnu hennar að bændur skuli eiga jarðir sínar áfram. Þetta hefur verið margoft sagt, og þessi undanþága frá almennri þjóðareign er auðvitað komin af því að við skiljum þetta. Þó að við séum sósíalistískir í hugsunarhætti og verðum það sjálfsagt lengi, þá hef ég ekki séð neitt það sósíalistískt kerfi á landbúnaði að ég treysti mér til að mæla með því, og hef ég þó heimsótt bæði samyrkjubú í Rússlandi og Ísrael og einu eða tveim öðrum löndum. Bændur þurfa ekki að óttast það.

Ég tel sem sagt, að andmæli hafi verið allt of þröng og út frá allt of þröngum sjónarmiðum, en að andmælendur hafi leitt hjá sér að ræða þær stórfelldu breytingar á þjóðlífi okkar, á öllum aðstæðum í heiminum, hér á landi og annars staðar, sem skapast hafa á undanförnum áratugum og viðurkennt er um allan heim að eru orðin að stórfelldum vandamálum, þéttbýlið, viðhorf þess til landsins og hagnýting auðæfa landsins o. s. frv. Þeir líta fram hjá öllum þessum stóru atriðum, nefna þau ekki á nafn, en fara með þetta eins og tilfinningamál á þeim grundvelli að gerð hafi verið með þessari till. árás á bændur sem ég neita algerlega.

Það er túlkun út af fyrir sig að segja, að þrátt fyrir skýr ákvæði í till. um að bændur skuli eiga jarðir sínar áfram, þá þýði þetta að jarðir bænda muni samt lenda í ríkiseign, ef þetta mál yrði framkvæmt. En ég lít svo á að þessi túlkun sé þveröfug við augljósan bókstaf till. Þeir, sem vilja skilja þetta öfugt, verða þá að gera það, en ég tek skýrt fram að ég lít ekki svo á. Ég tel að eign bænda á bújörðum ætti að halda áfram og gæti þrátt fyrir framkvæmd þessarar till. og m. a. vegna hennar orðið miklu sterkari en hún er í dag, m. a. af því að ríkið mundi hafa möguleika til þess að veita mönnum ódýrt land ef þeir þurfa á því að halda. Ég tel sjálfsagt að leiguliðar, þeir sem vilja, eigi að fá kost á því að eignast jarðirnar með hagkvæmum kjörum. Sjálfseignarbændur hér á Alþ. og raunar víðar hafa lengi sýnt heldur litla virðingu fyrir leiguliðum í þessu landi. Skal ég að vísu ekki kveða upp neinn dóm um það, hvort þeir búa verr en aðrir, en engu að síður finnst mér að það þurfi að gefa þeim betri hlut og betri kost á að eignast jarðir sínar ef þeir óska þess. Það ætti að vera hægt innan þess ramma sem hér er um að ræða.

Það var nokkur munur á málflutningi hinna fjögurra þm. Einn þeirra er í Sjálfstfl., og hefur komið í ljós undanfarna daga að hann er þar ærið langt til hægri og töluvert langt til hægri við suma af ráðh. flokksins og líklega þá stefnu sem flokkurinn hefur fylgt frá því að Ólafur Thors var ungur maður, eins og kom fram í gær. Aðrir, sem hér hafa talað, virðast vera meira félagslega hugsandi og mér fannst t. d. á hv. 6. þm. Norðurl. e. að hann hefði svipuð viðhorf og ég um ýmsar þær röksemdir sem fram er að færa fyrir þessu máli þó að hann drægi aðrar ályktanir af þeim.

Það er ekki hægt að ganga fram hjá því, að vandinn er ekki við jarðirnar sem bændur eiga sjálfir og búa á. Hann er miklu meiri við allar þær jarðir og allt það land sem einstaklingar, er búa annars staðar og þá yfirleitt í þéttbýlinu og hafa peningaráð, eru að hrifsa undir sig í vaxandi mæli ár frá ári. Þetta er vandamálið. Og það er fróðlegt að heyra það, að merkisbóndi skuli segja hér, að þar sem eru skilti á girtu landi er banna eitt eða annað, þá sé það oftar á landi sem aðrir en bændur eigi. í þessu felst viðurkenning á að vandamálið snertir mjög það, að aðrir en bændur eru að seilast til eignarréttar á landinu. Og það getur ekki verið, það er óhugsandi að hugsandi bændur séu ánægðir með það, þegar peningamenn kaupa upp hálfar sveitir, helst hlunnindajarðir, t. d. meðfram ám, og leggja allt í eyði, láta standa eitt eða tvö skrauthýsi, en að öðru leyti eru blómleg héruð í eyði. Það er einmitt þetta, landþrengsli, aukinn auður og ýmislegt fleira, þessi almenna þróun mála hefur leitt til þess, að einstaklingar seilast mjög til þess að festa fé sitt á arðbæran hátt með því að eignast jarðir og þá sérstaklega jarðir sem eru hlunnindajarðir.

Ég lét orð falla um það, að víða sæjust skilti með vegum sem bönnuðu eitt og annað. Ræðumenn tóku þetta mjög óstinnt upp og lögðu mér það í munn, að ég hefði verið með þessu sérstaklega að ásaka bændur sem ég nefndi alls ekki á nafn. Ég sagði, að þessi skilti og þessi bönn væru til. En þau eru, eins og hér hefur komið fram, ekkert síður á landi sem aðrir eiga. Ég get nefnt t. d. eitt mjög gott dæmi. Það er fallegur, lítill dalur ekki langt frá Reykjavík, mjög girnilegur til útivistar fyrir þéttbýli í nágrenninu. Það rennur á eftir miðjum dalnum. Það eru oft haldin mót þarna, skátamót og annað slíkt. Ferðamenn eru þar mjög oft. Öðrum megin í dalnum eru tvö býli, og þéttbýlisfólkið, sem þarna kemur, er alltaf þeim megin í dalnum. Þar fær það leyfi til þess að tjalda, til þess að halda mót, en hinn helmingur dalsins, allt sem er handan við ána, er í eign auðugs einstaklings hér í Reykjavík og þar er allt bannað og allt lokað. Þetta er glöggt dæmi um þá þróun sem við höfum varað við og teljum að megi ekki halda áfram óheft.

Það er athyglisvert, að hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur sýnilega mikinn áhuga á því, að sveitarfélögin geti hagnýtt sér þann forkaupsrétt sem þau þegar hafa á jörðum, m. ö. o. telur hann æskilegt að sveitarfélögin eignist sem mest af jörðum og þá væntanlega að það sé mun betra að þau eignist landið en að einhverjir einstaklingar annars staðar kaupi það. Þarna erum við sammála. Það má að vísu toga orðin og segja að það sé ekki alveg rökrétt að tala um þjóðareign og segja að sveitarfélagaeign geti fallið þar undir. Engu að siður er þetta efnislega þess eðlis, að við lítum svo á að það geti vel fallið saman. Það fór því aldrei svo að við værum ekki sammála um eitt verulega þýðingarmikið atríði.

Ég mótmæli því algerlega, að þetta mál sé nokkur árás á bændastéttina, en lít svo á, að framkvæmd þess með tímanum mundi geta orðið til þess að tryggja verulega stöðu bændastéttarinnar, því að hún er nú einu sinni stór og áhrifamikil stétt, sem gæti gætt hagsmuna sinna mun betur við þessar aðstæður heldur en í því endalausa tafli við peningasummurnar og peningafólkið í þéttbýlinu, sem ásælist landið í allt öðrum tilgangi heldur en að búa þar og hagnýta það.

Ég vil að lokum endurtaka það, að tortryggni bænda og bændaþm. í garð þessa frv. er ekki á rökum reist að minni hyggju og sú hugsun, sem er að baki frv., gengur alls ekki í þá átt. Ég vil hvetja menn til þess að líta á landið frá stærri sjónarhól, skoða það í ljósi þeirrar almennu og stórfelldu þróunar sem er að verða í heiminum og þá hér á landi líka. Með tilliti til þess teljum við að það verði með hverju ári ljósara, að til frambúðar verði langfarsælast að landið sé í eigu þjóðarinnar, ýmist ríkisins eða einstakra sveitarfélaga.

Ég læt mér í léttu rúmi liggja allar ásakanir um að við höfum ekki alvarlegan áhuga á þessu máli. Þegar málið hefur komið til n. undanfarin ár hefur það verið rætt þar og fulltrúar Alþfl. hafa fljótlega heyrt hverjar skoðanir nm. vorn. Okkur hefur orðið það ljóst, og sem við vitum vei, að það er mikill meiri hl. þm. sem virðist vera andvigur frv. Það er alveg rökrétt að ýta ekki á eftir því að frv. sé fellt, vegna þess að við eru sannfærðir um að þær hugmyndir, sem í því felast, muni vinna fylgi smám saman. Það er þess vegna sem við flytjum það ár eftir ár. Og ég hygg að það sé þess vegna sem hv. 2. þm. Norðurl. v. var svo önugur út í það, að við skyldum leyfa okkur að flytja þetta mál aftur og aftur, og velti vöngum yfir því hvað kynni að valda. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að líklega gætu ýmsir glapist til fylgis við Alþfl. út af þessu máli. Ef þetta er eins vont mál og hann heldur sjálfur, mundi maður ekki ætla að það hefði þau áhrif. En það skyldi þó ekki vera að þau ummæli hans gefi einmitt til kynna, að hann óttist að þetta mál muni njóta vaxandi fylgis, eftir því sem fram líða stundir, og það sé þess vegna sem hann krefst þess að það verði sem allra fyrst afgreitt og fellt. Ég vona það að þær hugmyndir, sem í frv. felast, muni sigra að lokum, jafnvel þó að það taki sinn tíma.