06.03.1975
Sameinað þing: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

67. mál, eignarráð þjóðarinnnar á landinu

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þau orð síðasta ræðumanns, að ásókn þeirra manna, sem ekki hyggjast nytja land sjálfir, er mikið vandamál. Þetta held ég að ég hafi tekið fram í fyrri ræðu minni, og ég vil taka undir það, að það þarf að finna aðferðir til þess að verslun með land færist ekki inn á það sem ég vil kalla óeðlilegar brautir, sem sumir kalla brask. En mig langar til þess í örfáum orðum að reyna að gera svolitla grein fyrir því, hvers vegna menn eru svo tortryggnir út í till. sem þessa, og mér finnst það felast í till. sjálfri.

Ég tók það upp hér áðan, sem hv. 2. landsk. þm., fyrsti flm. till., tók að vísu upp, að hér stendur á þessa leið: „En bújarðir verða í eigu bænda, þegar þeir kjósa þann hátt fremur en að hafa lönd sin á erfðafestu. Ríki og sveitarfélögum skal þó tryggður forkaupsréttur á öllu landi.“ Þetta skoða ég alveg hiklaust þannig, að ef ríkissjóður vildi nota þennan forkaupsrétt gagnvart þeim sem vilja búa á landinu, þá verði ekki fram hjá því komist. Það má segja sem svo, að ef stjórnvöld eru á ákveðnu tímabili þeirrar skoðunar, að bændurnir eigi að eiga landið, og skipti verða á eignaraðild þeirra, sem hafa haldið eignarrétti á landinu, þá sé þetta í lagi, en ef á næsta tímabili kemur ríkisstj. sem er þeirrar skoðunar, að allt land eigi að renna til ríkisins, þá fari það þangað. Þannig skil ég þessi ákvæði eins og þau koma hér fram. (Gripið fram í.) Já, hugsunin er kannske önnur og hugsunin er kannske ágæt, en það er ekki nóg. Orðin þurfa að túlka hugsunina þannig að þau valdi ekki misskilningi og tortryggni.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram áður, að hv. frsm. hefur flutt mál sitt hér af hófsemi og skilningi. Hann undraðist að vísu nokkuð að þeir menn, sem hér hafa risið upp, hafa túlkað sjónarmið bænda. Ég vil leyfa mér að láta þá skoðun mína í ljós, að einmitt þetta, afnotarétturinn, umráð landsins, er auðvitað meira tilfinningamál bændastéttarinnar og bændanna en nokkurra annarra í landinu. Það eru bændurnir, sem hafa tryggð við þann forna atvinnuveg að framfleyta sér á landinu, og það hlýtur alltaf að verða svo, að þeir, sem standa í nánustu sambandi við landið, líti þetta nokkuð öðrum augum en þeir, sem — oft að vísu óviljugir — urðu að hverfa frá beinum afnotum af landinu. Ég get út af fyrir sig mjög vel skilið þörf og löngun þéttbýlisbúanna til umgengni við landið. Við höfum ekki verið hér bændur í 11 aldir án þess að tengsl okkar við landið hlytu að setja djúp spor í hugsunarhátt hvers einasta manns. Þau tengsl og þau áhrif verða ekki máð út með einni kynslóð. Og ég ber fyllstu virðingu fyrir því sjónarmiði að allir eigi þess kost að njóta íslenskrar náttúru. En ég vil endurtaka það, að ég álít að eignarhaldi á jörðunum verði best komið í höndum þeirra, sem nytja landið sjálfir, bændanna og sveitarfélaganna. Þess vegna sé þessi till. að þessu leyti óþörf. Hitt vil ég líka taka fram, að ég tel mjög nauðsynlegt að sett verði löggjöf og það sem fyrst, sem miðar að því að tryggja að landið sé áfram í eigu þeirra sem nytja það, þ. e. a. s. fyrst og fremst bændanna og sveitarfélaganna. Og ég vona að við hv. frsm. þáltill. getum orðið samferða um að samþykkja slíka löggjöf, sem verði þá til trausts og halds fyrir bændastéttina í framtíðinni og þjóðinni allri til hagsældar.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki ástæða til þess að orðlengja mikið um þetta. Ég vil endurtaka það, að ef svo er, að við lesum annað út úr þessari till. en flm. meina, þá er það vegna þess að þar stendur að einhverju leyti annað en þeir hugsa. Ég vil líka leyfa mér að segja, að það kann að vera sumra manna mál að sjónarmið þeirrar stéttar, sem enn þá á, eins og kallað er, meginhluta landsins, sé nokkuð þröngt í þessu efni. En það, sem kallað er þröngt í þessu efni, er einfaldlega það sem ég var að reyna að gera grein fyrir áðan, að ég tel að bændastéttin sé með því að verja umráðaréttinn yfir landinu að verja rétt sinn til að lífa í landinu, tilverurétt sinn í landinu og virðingu sina í landinu sömuleiðis, ekki vegna þess að bændastéttin eigi að misnota á nokkurn hátt þennan rétt, heldur vegna þess að bændastéttinni sé treystandi til þess að nýta þennan rétt með sóma, sjálfri sér og þjóðinni til góðs.