20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég er samþykkur því sem fram kemur í þessu frv., að rétt sé að gera ráð fyrir því að halda áfram fjáröflun til vegaframkvæmda í landinu á þann hátt sem gert hefur verið nú um skeið með útgáfu happdrættisskuldabréfa. Ég er hins vegar ekki samþykkur því að það eigi að slá því föstu að allt það fé, sem fæst með þessum hætti, eigi að ganga sérstaklega nú til vegagerðarinnar á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Ég vil að vísu taka það fram að ég tel að sú vegagerð hljóti að vera í fremstu röð í sambandi við þær framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum eða þarf að vinna að. Það er enginn vafi á því að það þarf að gera miklar umbætur á þeim vegi, bæði að umbyggja veginn á stórum svæðum og einnig að vinna að því að leggja hann með bundnu slitlagi.

Ég tel, eins og hefur komið fram í þessum umr., að það sé í rauninni alveg fráleitt að hugsa sér að horfið verði frá hinum svonefnda hringvegi sem svo hefur verið kallaður, rétt eins og það væri allur hringurinn, þessi vegagerð yfir Skeiðarársand, að horfið verði frá þeirri framkvæmd. Það verk, sem þar hefur verið unnið að, er ekki nema hálf unnið. Það er að vísu búið að byggja brýrnar á Skeiðarársandi og rétt ná saman endum, en á þessum vegi eru stórir vegarkaflar sem ekki er hægt að segja það sama um og hæstv, samgrh. sagði um vegina hér á Vesturlandi, að þeir væru með eistu vegum landsins. Þessir vegarkaflar, sem við tölum um þarna fyrir austan, hafa aldrei verið lagðir. Þar er sem sagt um stóra vegarkafla að ræða þar sem enn er ekið aðeins eftir söndum eða því landslagi, sem þarna hefur verið lengst af fyrir hendi, með litlum breytingum á, en formleg vegagerð hefur þarna ekki átt sér stað. Auðvitað er það svo að það er óhjákvæmilegt ef þessar miklu framkvæmdir eiga að koma að tilætluðu gagni, sem unnið hefur verið að á undanförnum árum á Skeiðarársandi, að halda þessu verki áfram og leggja veg yfir sandana, þar sem vegur hefur ekki verið lagður og umferð öll er í mestu erfiðleikum. Einnig teljum við að það sé alveg óhjákvæmilegt að koma þessum vegi á raunhæfan hátt alla leið til Austurlandsins, en það þýðir að það verður að sigrast á þeim vanda, sem vegurinn yfir Lónsheiði er, á milli Skaftafellssýslu og Suður-Múlasýslu og verður að leggja þann veg, eins og áætlanir eru uppi um, út yfir Hvalnesskriðu, til þess að hér geti verið um teljandi vegasamband að ræða og hér sé í rauninni hægt með skaplegum hætti að tala um hringveg.

Ég held að það hljóti að vera almenn samstaða meðal þm. um að halda áfram þessari fjáröflunarleið til vegaframkvæmda. Spurningin er hins vegar hvort á að fara þá leið, sem mér heyrðist einna helst á hæstv. samgrh. að hann aðhylltist, en það væri að taka þá fjármuni, sem fengjust eftir þessari leið, almennt í Vegasjóð, til vegagerðarmála almennt, því að víða kallaði þar á, sbr. allan þann vanda sem er í nánasta umhverfi Reykjavíkurborgar og allir hv. þm. þekkja vel, vissulega er þar um mikinn vanda að ræða. Það er auðvitað ein leiðin að nota þessa fjáröflun fyrir Vegasjóð almennt og síðan verði fjármunum hans deilt út á svipaðan hátt og verið hefur, þessari happdrættisskuldabréfasölu verði ekki ráðstafað í neina sérstaka framkvæmd. Hin leiðin er aftur að fara svipað að og gert hefur verið að undanförnu, þ.e. að ráðstafa þessum fjármunum til einhverrar sérstakrar stórframkvæmdar í vegagerðarmálum. Þá kemur vissulega upp hugmynd um það að verja öllum fjármununum til Norðurvegar af því að á því er mikil þörf. En það kemur líka til mála að skipta þessum fjármunum, ákveða t.d. að þessir fjármunir fari á einhverju tímabili í hringveginn allan til þess að gera hann raunverulega fullfæran. Ég tel fyrir mitt leyti að vissulega kæmi þá til greina að stærsti hlutinn yrði látinn renna til þessa verkefnis hér frá Reykjavík til Akureyrar, í Norðurveginn. En það er enginn vafi á því að það er réttlætismál að verulegur hluti, nú fyrst um sinn, af þessu fjármagni renni áfram til þess verkefnis sem það var hugsað til. þ.e. til þess að koma sambandinu á á raunhæfan hátt austur á bóginn.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það er engin vafi á því að eftir að endar náðust saman á Skeiðarársandi, þá kom fljótt í ljós að ýmsir vegarkaflar á veginum austur, eins og um Rangárvallasýsluna og eins og á Mýrdalssandi, þoldu ekki með nokkrum hætti þessa umferð og þeir eru þannig að það verður að lagfæra þá. Sömuleiðis verður vitanlega að leggja veg í fyrsta skipti um Breiðamerkursand. Hann var langtímum saman í sumar alveg ófær og er það ef nokkuð bregður út af, vegna þess að þarna hefur ekki farið fram formleg vegagerð. Það verður að breyta veginum yfir Lónsheiði og koma honum út fyrir Hvalnes til þess að þessi vegagerð um suðursvæðið nái þó til Austurlandsins, þótt ekki sé talað um meira, þegar komið er að þeirri veiku vegagerð sem fyrirfinnst nú á Austurlandi.

Ég held því að þetta mál sé þannig, að það væri rétt að það yrði reynt að koma á víðtæku samstarfi meðal þm. um það hvernig þessum fjármunum verði ráðstafað, ef menn eru á einu máli um að halda áfram þessari fjáröflun. Ég hallast helst að því að verja þessu fé áfram til hringvegarins, en ekki í aðra vegagerð, og þá verði fyrst um sinn teknir þeir kaflar á hringveginum sem margt mælir með að gangi fyrir öðrum köflum, þ.e.a.s. Norðurvegur og áframhald af veginum austur. Þetta held ég sé bæði sanngirnismál og þetta væri eðlilegast. Hitt er, eins og hér hefur verið sagt, byggt á misskilningi að nú sé vegagerðarframkvæmdunum í sambandi við hringveginn austur á bóginn lokið, því að þótt brúargerðunum sé lokið á Skeiðarársandi, er eftir þarna mjög mikið af þeirri eiginlegu vegagerð.

Ég veit að það er alveg ástæðulaust fyrir okkur hér við þessa umr. að fara að telja upp alla þá mörgu vegi í landinu þar sem þörf er á miklum umbótum. Þá er að finna svo að segja um allt landið, og auðvitað höfum við allir áhuga á því að hægt verði að sinna þeim vegum. Auðvitað er áhuginn eitthvað dálítið misjafn hjá okkur eftir því hvaðan við komum. En ég vil nú skjóta því sérstaklega til þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, hvort ekki væri réttast að ganga út frá því að hreyta þessu frv. á þann veg að þessari fjáröflun verði varið til hringvegarins og síðan verð'i gengið út frá því að vinnuáætlun verði með þeim hætti, a.m.k. nokkur fyrstu árin, að þá fari aðalfjármagnið í einhverjum ákveðnum hlutföllum t.d. í veginn vestur um og norður, jafnhliða því sem ákveðinn hluti af fjármagninu færi í veginn suður um og austur, en það teldi ég á margan hátt eðlilegast.