10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

95. mál, vegalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég get í flestu tekið undir þá brtt. sem samgn, hefur nú komið fram með, og ég lýsi ánægju minni með að nokkru breytt orðalag í þessari till. Ég hefði, eins og áður hefur komið fram hér í d., talið eðlilegra að prósentan, sem þarna er sérstaklega ráðstafað, hefði verið hærri, en get vel fallist á það fyrir mitt leyti að draga þá till. til baka eftir að komið er í ljós að um þetta næst nokkurn veginn samkomulag. Ég hefði e. t. v. líka viljað hafa ráðstöfunina í þágu sveitarfélaganna eitthvað ótvíræðari, þ. e. a. s. þeirra sveitarfélaga sem hafa erfiðasta aðstöðu. Það er örlítið erfitt að koma því þarna, en í þeim efnum verð ég að treysta á fjvn. og vegamálastjóra, að þau sjái svo til að þetta fé komi þeim sveitarfélögum að mestu gagni sem erfiðast eiga uppdráttar.

Það er vitað, að vegna þeirrar gagnrýni sem ég hef heyrt varðandi það að þetta fé skuli sérstaklega tekið út úr, þá verður það aldrei of oft tekið fram, að sveitarfélögin, landshlutasamtök þeirra, hafa óskað alveg sérstaklega eftir því mörg hver að eitthvert slíkt fé yrði tekið sérstaklega út úr hinni almennu ráðstöfun þéttbýlisvegafjárins með líkum hætti og þarna er gert, og ég reikna með því að þau treysti mjög á góða framkvæmd þessa máls.

En ég kom hingað aðallega til þess að minna enn þá alveg sérstaklega á þau byggðarlög sem hafa mikinn gegnumakstur og eru nú að leggja á bundið slitlag, þar sem mikla umferð hafa þvert í gegnum kauptúnin. Ég finn því ekki á þessu stigi nógu ákveðinn farveg, en ég mun huga að því síðar á hvern hátt verður hægt að bæta hér úr, þ. e. a. s. ef út úr þessu sérstaka ráðstöfunarfé, þessum 25%, kemur ekki sérstakt framlag einmitt til þessara byggðarlaga. Ég treysti því sem sagt að þetta ráðstöfunarfé, sem þarna er alveg sérstaklega fram tekið um, það renni að nokkru til þeirra byggðarlaga, sem hafa mikinn gegnumakstur, og treysti fjvn. til að taka það sjónarmið mjög til greina því að þarna er um sérstöðu að ræða. Að öðru leyti get ég lýst yfir stuðningi við þetta, en ítreka það, að þessi hagkvæmnisvinnubrögð og annað það orðalag, sem tekið er beint upp úr gömlum vegal., fer alltaf örlítið í taugarnar á mér vegna þess að ég veit hvað það orðalag hefur verið misnotað, En við skulum vona að það verði ekki gert eftir þetta