10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

95. mál, vegalög

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég flutti ásamt tveimur öðrum hv. þm. brtt. við ákvæði þessa frv. um skiptingu þéttbýlisfjármagnsins sem við drógum til baka til 3. umr. Ég vil þakka hv. n. fyrir að hún hefur tekið að nokkru, að vísu litlu leyti, tillit til þess sem þar var farið fram á, orðalagi nokkuð breytt á þann veg sem við teljum betra. Hins vegar harma ég að ekki hefur náðst samkomulag um að meira af þessu þéttbýlisfé sé ráðstafað án tillits til höfðatölu. Ég vil endurtaka það, sem ég hef sagt áður, að ég tel í grundvallaratriðum skakkt, að ráðstafa þéttbýlisfé eftir höfðatölu. Ég tel þörfina um land allt vera að verulegu leyti óháða fjölda þeirra sem þar kunna að búa. Margt annað kemur til sem ég hef gert grein fyrir og ætla ekki að endurtaka. Hins vegar eru í þessu frv. fjölmörg önnur ákvæði mjög mikilvæg og til bóta. Við óttumst, að það geti orðið til þess að tefja fyrir framgangi frv. að berjast til þrautar fyrir þessari brtt., og höfum því ákveðið að draga hana til baka. Þó vil ég lýsa því yfir, svo að ekki fari á milli mála, að ég mun halda áfram baráttu minni fyrir því að þeirri reglu, sem þarna gildir, verði breytt.