10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

95. mál, vegalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get ekki verið öruggur um það, að hv. dm. séu allir sammála samgrh. um það, að með þessu frv. sé fundin nokkuð skynsamleg leið til þess að ráða bót á þeim vandamálum sem hér er fjallað um. Ég vil ítreka það, sem ég sagði við 2. umr. í hv. d. 3. mars, að hér væri gengið á hlut Reykjavíkur eins og vant er og Reykjavík enn frekar gerð að einhvers konar skattríki fyrir þjóðina alla. Fer ekkert á milli mála, að gengið er á þann hlut sem Rvík hefur hingað til fengið úr þessum sameiginlega sjóði. Verið getur að hæstv. ráðh. meini einmitt að þar sé skynsemin í vinnubrögðunum. En ég vil að gefnu því tilefni, að þegar ég tók til máls við 2. umr. hafði ég ekki meðferðis það bréf frá borgarverkfræðingi í Rvík, sem ég vitnaði þá í eftir minni, leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa það bréf upp nú. Ég vil taka það fram, áður en ég les bréfið, að það er skrifað 6. jan., en með þeim hraða sem hefur verið á breyt. á verðgildi peninganna og upphæðum öllum, þá hafa þær að einhverju leyti breyst til hins verra fyrir Reykjavík, en ég leyfi mér að vitna í þetta bréf, sem skrifað er 6. jan.:

„Fyrir Alþ. liggur nú till. um breyt. á vegal. í þá átt að skerða hlut Reykjavíkurborgar í fé sem ætlað er til þjóðvega í þéttbýli. Reglugerð frá 27. des. 1973 ákveður hvaða vegir innan þéttbýlis skuli teljast þjóðvegir í þéttbýli. Í Reykjavík er þetta Eiðsgrandi frá mörkum Seltjarnarneshrepps að Hringbraut, Hringbraut, Miklabraut og Vesturlandsvegur að Höfðabakka, Kringlumýrarbraut frá Sætúni að Fossvogslæk, Sætún, Kleppsvegur, Elliðavogur og Reykjanesbraut að Breiðholtsbraut, Fossvogsbraut frá Hringbraut við Sóleyjargötu sunnan Öskjuhlíðar um Fossvogsdal að Höfðabakka, Höfðabakki frá Vesturlandsvegi að Breiðholtsbraut og Bæjarháls frá Höfðabakka að Tunguhálsi.

Þarna er um að ræða allt aðalvegakerfi Reykjavíkurborgar innan skipulagssvæða aðalskipulags frá 1965, að undanskilinni Geirsgötubrú að því er virðist. Þjóðvegakerfi þetta er ekki nærri fullbyggt, og sá hluti þess, sem gerður hefur verið, þarf nú á næstu árum verulegra endurbóta við til þess að geta annað vaxandi umferð. Má þar nefna Miklubrautina frá Háaleitisbraut að Miklatorgi, sem breikka verður innan tíðar í sex akreinar, og umferðarmannvirki á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, svo að eitthvað sé nefnt af því efni.

Í öðru lagi vantar inn í kerfið enn sem komið er veigamiklar umferðargötur algerlega, eins og Fossvogsbrautina, og Elliðaárvogurinn og Sætúnið eru að mestu leyti ógerð. Svo að einhverjar tölur séu nefndar má slá því föstu, að umferðarmannvirkin á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar muni kosta um 200 millj. kr., en þessi gatnamót eru hin mikilvægustu gatnamót í öllu umferðarkerfi landsins, en Kringlumýrarbraut flytur nú alla umferð frá gjörvöllu Reykjanesi og þéttbýlissvæðum sunnan Reykjavikur inn á þjóðvegakerfið í heild.

Núverandi skipting tekna Vegasjóðs til þjóðvega í þéttbýli er þannig 121/2% af tekjum Vegasjóðs. Ráðh. er þó heimilt að undanskilja það fé sem renna á til hraðbrauta hverju sinni. Af því, sem þá er eftir, skal taka 10% í sjóð sem fer til úthlutunar til afmarkaðra verkefna er flýta þarf hverju sinni. Framkvæmdir, sem fjármagnaðar hafa verið með þessum fjármunum, eru m. a. Suðurlandsvegur í gegnum Selfoss, gjáin í Kópavogi og eru þetta stærstu verkin þar.

Samkvæmt vegáætlun fyrir 1975 eru markaðar tekjur af bensingjaldi, þungaskatti og gúmmígjaldi 2 250 millj. kr. og sérstakt ríkisframlag til Vegasjóðs 380 millj. kr. Samtals eru þetta 2630 millj. kr. Fé, sem renna á til hraðbrauta utan þéttbýlis, er 590 millj. kr., þannig að eftir verða þá 2 040 millj. kr. — 2 milljarðar og 40 milljónir kr. — til skifta. 10% frádregin til hins sérstaka sjóðs skilja eftir 1836 millj. kr. Skiptingin til þéttbýlisstaða fer síðan eftir íbúatölu og eru þá meðtaldir þéttbýlisstaðir sem hafa 300 íbúa eða fleiri, og er skiptingin eftir manntali 1. des. 1973 þannig að Reykjavík taldist hafa 84 333 íbúa, en þéttbýlisstaðir með 300 íbúum eða fleiri í heild 182800 íbúa. Þannig átti hún 46.13% af því fé, sem til skipta kemur, og gerir það skv. áætlun Vegagerðar ríkisins um 105.6 millj. kr. árið 1975. Þetta er það sem átti að koma til Reykjavíkur.

Frv. það, sem fyrir Alþ. liggur til breyt. á þessu, fjallar um það að í stað 10% frádráttar af skiptifénu komi 25%, og síðan sú breyting að þéttbýlisstaðir skuli teljast kaupstaðir og kauptún með yfir 200 íbúa í stað 300 áður. Breyt, þessi mun því muna Reykjavíkurborg 17–20 millj. kr. á árinu 1975, og með tilliti til þeirra brýnu verkefna, sem við okkur blasa á þjóðvegum í þéttbýli í Reykjavík, og með tilliti til þess að rúmlega 40% af tekjum Viðlagasjóðs koma frá bifreiðum reykvíkinga, tel ég að þm. Reykjavíkur,“ — og svo kemur rúsínan í pylsuendanum, — „ef Reykjavik á þá nokkra þm., ættu að beita sér fyrir því að þessi till. verði felld.“

Herra forseti. Ég vil svo gera það að till. minni, að þessi upphæð, 10%, sem áður var, haldist. Legg ég því til að breyt. um að 10% hækki í 25% verði felld niður og eins falli niður það, sem kemur fram í brtt. á þskj. 357, að heimilt sé að láta þetta ákvæði einnig ná til þéttbýlis með færri en 200 íbúum.

Ég leyfi mér að leggja fram brtt. um þetta.