10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af því, sem fram hefur komið hjá hv. 12. þm. Reykv. og hæstv. utanrrh., þá finnst mér að það sé ástæða til að ég undirstriki það, sem ég sagði áðan, að hv. dm. hafa sýnt mikinn skilning á þessu máli, því að það er jafnt reykvíkingum í hag sem öðrum landsbúum að dreifa þessu fé með sæmilegri sanngirni og skynsemi. Ég held að það orki ekki tvímælis að sú leið, sem hér er valin í þeim efnum, sé mjög réttmæt. Ég efast ekki um að reykvíkingar eiga óleyst verkefni í vegamálum sínum eins og aðrir landsmenn, en hitt er ég líka sannfærður um, að þeir standa þar betur að vígi en landsbyggðin yfirleitt. Þess vegna er sá skilningur, sem kemur fram hjá hv. samgn. á þessu máli réttmætur. Ég hef alltaf talið að ég hafi metið það rétt, þegar ég á sínum tíma greiddi atkv. með því að það yrði mál allrar þjóðarinnar að byggja brýrnar yfir Elliðaárnar, svo sem gert var, og hefur þó oft verið á mig deilt fyrir það. Ég álít að það sé einnig réttmætt, nú þegar svo mikið átak hefur verið gert eins og þar var og við áframhald á þeim vegum, sem nú eru orðnir innanborgarvegir eða götur hér, að rýmka á þessum mörkum, og ég fagna því að samstaða hefur almennt náðst hér í hv. d. Hitt skil ég vel, þegar borgarverkfræðingur potaði rúsínunni í pylsuendann, eins og hv. 12. þm. Reykv. sagði, þá séu þeir, hann og hæstv. utanrrh. það kappgjarnir að þeir vilji sýna borgarverkfræðingi að hann hafi lög að mæla og við því hef ég ekkert að segja.