10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

95. mál, vegalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel ummæli þau, sem hæstv. ráðh. lét falla í lokaorðum sínum alls ekki vera til þess fallin að koma inn í umr. sem þessar. Grín og allt slíkt í sambandi við alvörumál, sem er til umr., ætti að hýsa heima fyrir og bíða betri tíma. En ég skal gjarnan grínast við hann á öðrum vettvangi en í ræðustólum Alþ. þegar alvörumál eru þar á dagskrá, ég tala nú ekki um þegar þau snerta að verulegu leyti Reykjavik, sem ég er nú þm. fyrir hér og eins hæstv. utanrrh. Við erum báðir annaðhvort núv. eða fyrrv. borgarfulltrúar og vitum nokkurn veginn hvar skórinn kreppir að, og eins á það, sem kom fram í skrifum borgarverkfræðings, fullkomlega erindi inn í þessar umr. án þess að nokkurt grín sé þar við haft.

Ég skal ekki segja að hve miklu leyti það er sérstaklega reykvíkingum í hag að dreifa fénu óeðlilega mikið. Ég vil ekki segja að það sé með neinni skynsemi gert að taka meira en réttlætanlegt er af reykvíkingum. Það held ég að reykvíkingar geti aldrei orðið sammála um, að þeir telji það skynsamlegt að taka það, sem þeim ber að nota hér í verklegar framkvæmdir, og setja það í framkvæmdir annars staðar á landinu. Hitt er annað mál, að ég held það sé fullkomlega samþykkjanlegt af hverjum sem er, hvort sem það eru reykvíkingar eða aðrir, og ekki síður reykvíkingum, að taka eðlilegan þátt í uppbyggingu á mannvirkjum um land allt, hvort sem það er vegagerð eða annað. Ég veit ekki til þess að Reykjavík hafi nokkurn tíma látið á sér standa með að taka þátt í slíkri uppbyggingu utan borgarinnar. En ég álít að það sé kominn fyllilega tími til — og þá kannske vegna hins óábyrga tals sem kom hérna fram hjá ráðh. í lokaorðum hans — að láta fara fram könnun á því hvort hlutur reykvíkinga í sameiginlegu átaki um land allt er ekki orðinn óeðlilega mikill. Ég trúi því ekki, að reykvíkingar skorist undan því að taka eðlilegan þátt í uppbyggingu á mannvirkjum utan Reykjavíkur.