10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár til þess að bera fram kvörtun við þessa hv. d. og forseta þessarar hv. d. yfir fullmiklum flýti í vinnubrögðum iðnn. þessarar d. í sambandi við afgreiðslu frv. um málmblendiverksmiðju í Hvalfirði, flýti, sem ég tel nálgast nú á síðustu dögum óþinglegt flaustur. Ég tel mig ekki hafa fengið í hendur öll þau gögn, sem nauðsynleg eru, til þess að ég geti skilað rökstuddu áliti mínu á frv. hér í d., en önnur gögn hef ég fengið svo seint og það illa úr garði gerð að til vansæmdar horfir, og raunar svo seint að ekki hefur gefist tóm til að kanna þau svo að gagni geti komið, þegar við það er miðað að til þess er nú ætlast að iðnn. skili áliti á morgun.

Sem dæmi vil ég nefna það að álit Þjóðhagsstofnunar, sem óskað var af viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, var ekki lagt fyrir iðnn. fyrr en á fundinum í morgun. Hagsýslustjóri, sem kom til okkar á fundinn til þess að útskýra þetta álit Þjóðhagsstofnunar, kvartaði undan því að ekki hefði gefist tími til þess að vinna þetta álit eins og nauðsynlegt væri að sínu viti. Hann kallaði þetta álit Þjóðhagsstofnunar því háðulega nafni „utanlegsfóstur“, sem hann sagðist vera að leggja þarna fram, vakti athygli á því hversu mjög ófullkomið það væri vegna tímaskorts og fór ekki dult með að hann teldi að þarna hefði þurft að vinna miklu meira og betra verk. Hann lagði einnig á það áherslu að hér væri aðeins reynt að svara nokkrum spurningum frá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. Í plagginu felast ekki svör við neinum spurningum frá iðnn. Ed. Alþingis. Varðandi mjög þýðingarmikið atriði þessarar skýrslu, þar sem eru talnalegar upplýsingar, þá tók hann fram að iðnn. mætti ekki taka of mikið mark á þessum tölum, þar sem Þjóðhagsstofnun áskildi sér rétt til að breyta þeim við nánari athugun.

Ég leyfði mér á fundinum í morgun að bera fram spurningar um nokkur atriði, sem ekki er fjallað um í þessari skýrslu, sem gerð er, eins og ég sagði áður, að ósk viðræðunefndar um orkufrekan iðnað sem bar fram allar spurningarnar.

Ég leyfði mér að bera fram nokkrar spurningar til viðbótar um atriði, sem þarna koma ekki fram, svo sem um áhrif þessa fyrirtækis í Hvalfirði á atvinnuvegi landsins og búsetuform, spurningu um það, hvaða tillit hefði verið tekið til yfirvofandi olíuskorts í heiminum, þegar út er reiknaður arður af hugsanlegri sölu ferrosilicium sem á fyrst og fremst að fara í smíði véla sem ætlaðar eru til þess að vera knúnar með olíu. Ég innti líka eftir því hvaða áhrif rekstur þessarar verksmiðju uppi í Hvalfirði kynni að hafa á markaði okkar erlendis fyrir innlend matvæli, svo sem landbúnaðarafurðir, þar sem nú fer hækkandi verð erlendis á matvælum sem framleidd eru í umhverfi sem er sannanlega talið ómengað af iðnaði. Enn fleiri spurningar eru það, sem nauðsynlegt er að Þjóðhagsstofnun fjalli um.

En fyrst og fremst er nauðsynlegt að fulltrúum í iðnn. Ed. gefist tóm til þess að skoða skýrslu Þjóðhagsstofnunar, eins og hún liggur fyrir og þar næst eins og hún verður, eftir að Þjóðhagsstofnun hefur gert á henni nauðsynlegar breytingar, sem tilkynnt var á þessum fundi í morgun að gerðar yrðu.

Ég tel með öllu fráleitt að hægt sé að ætlast til þess, að iðnn. skili áliti á frv. með svo skömmum fyrirvara eftir að þessi skýrsla Þjóðhagsstofnunar hefur verið lögð fram, — skýrsla sem raunar hefði átt að liggja fyrir þegar málið var tekið á dagskrá þessarar hv. deildar.

Í öðru lagi nefni ég það til, þegar ég deili á vinnubrögð iðnn. Ed., að dregið var fram undir það allra síðasta að kveðja til fulltrúa frá líffræðistofnun Háskóla Íslands til þess að láta uppi álit sitt á því, hvort unnt væri fyrir líffræðinga að gera úttekt á mengunaratriðum þessa frv. og samningsins, sem því fylgir, og láta uppi álit sitt á því, hvort gerlegt væri fyrir líffræðinga að kanna þau gögn sem fyrir lágu varðandi þessi atriði, og í öðru lagi að láta í ljós álit sitt á því, hvort hætta væri af völdum mengunar í sambandi við þetta mál. Það var þráast við fram undir það síðasta að kveðja til forstöðumann líffræðistofnunarinnar, Agnar Ingólfsson prófessor í vistfræði. Þegar hann kom svo á okkar fund gerði hann okkur grein fyrir því í n., að hann teldi æskilegt að líffræðingum gæfist kostur á því að gera ýmiss konar athuganir áður en þetta mál væri tekið til afgreiðslu. Hann nefndi til 5 vikna tíma í þessu skyni, miðað við það að 4 líffræðingar eða 4 sérfræðingar yrðu settir til starfa af hálfu líffræðistofnunar til þess að gera frumathuganir á prentuðum heimildum varðandi þetta mál, síðan með því að eiga viðræður við þá, sem kunnugastir væru innanlands og erlendis, og gera skýrslu til iðnn. Alþ., skýrslu þar sem niðurstaðan yrði e. t. v. sú að ekki þyrfti að gera frekari athuganir, skýrslu sem yrði tæmandi. En þó kynni að verða sú niðurstaða skýrslunnar, að líffræðistofnun teldi æskilegt að gerðar yrðu vettvangsathuganir á staðnum þar sem verksmiðjan á að rísa, — vettvangsathuganir sem fælust í athugun á veðurfari, straumum og samsetningu sjávar, gerð kort yfir lífríki staðarins, en það yrði lokaathugunin áður en tekin yrði ákvörðun um hvort þarna yrði sett upp verksmiðja. Síðara stigið kynni að taka eina 4 mánuði í rannsóknum til þess að hægt væri að skila áliti um það stig athugana.

Ég fór þess á leit að líffræðistofnuninni yrði gefið tóm til þess að gera frumstigsathugunina, þá fyrstu, til þess að við gætum fengið skýrslu þeirrar stofnunar til þess að byggja á álit okkar um það hvort um mengunarhættu væri að ræða frá þeirri verksmiðju, þ. e. a. s. ég fór fram á 5 vikna frest til þess að líffræðistofnunin gæti innt þetta starf af höndum. Þeirri ósk var synjað á þeirri forsendu að þetta tæki allt of langan tíma og óvíst væri hvort hægt væri að útvega sérfræðinga til að vinna þetta verk.

Ég tel að hér sé um að ræða svo mikið alvörumál, — mál sem skipt geti sköpum fyrir tilveru þjóðarinnar, — svo mikið alvörumál, að það sé fráleitt að setja þröng tímatakmörk fyrir störfum iðnn. þessarar hv. d. í sambandi við þetta mál. Ég vil vekja athygli á því, að ef prófessor Agnar Ingólfsson hefði verið til okkar kvaddur í upphafi, á 1. fundi eða 2. fundi iðnn., ef þá þegar hefði verið tekin ákvörðun um það að láta fram fara þessa nauðsynlegu athugun, þá hefði henni langt til verið lokið nú.

Ég mun, ef með þarf, gera frekari rökstudda grein fyrir kröfu minni um meiri tíma handa iðnn. Ed. til þess að kynna sér hinar ýmsu hliðar þessa máls, sem hér um ræðir, áður en hún skilar áliti, þ. e. a. s. svo að henni verði kleift að skila rökstuddu áliti. En fyrst og fremst á þessu stigi núna óska ég eftir lengri fresti en til morguns, — með ófullkomin plögg í höndunum, vantandi önnur, óska ég eftir lengri fresti en til morguns til þess að skila endanlegu áliti á frv. um málmbræðslu í Hvalfirði.