10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Iðnn. þessarar d. fékk frv. til l. um járnblendiverkmiðju til meðferðar 12. febr. s. l. Hún hefur því haft það til meðferðar í nokkurn veginn réttan mánuð. Hún hefur á þessu tímabili haldið 11 fundi (StJ: 12) 12 fundi segir hv. fyrri ræðumaður, en ég held, að þeir séu nú 11 enn, en þeir verða 12 áður en lýkur. Sumir þessir fundir hafa verið langir og miklir. Sumir þessir fundir hafa verið sameiginlegir með báðum iðnn. Á fundum þessum hafa mætt allir oddvitar sveitarfélaga við norðanverðan Hvalfjörð, sunnan Skarðsheiðar og bæjarstjórinn á Akranesi. Auk þess var leitað eftir skriflegum umsögnum þessara aðila og frá Verkalýðsfélagi Akraness, og þær hafa borist frá öllum nema einum. Þá hefur dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri og formaður viðræðunefndar um orkufrekan iðnað ásamt ritara n. mætt á einum heilum fundi og stutt á fyrsta fundinum. Þá hefur orkumálastjóri mætt á fundi um orkumál ásamt tveimur starfsmönnum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og tveimur starfsmönnum Landsvirkjunar. Þá hefur formaður Náttúruverndarráðs mætt á einum fundi ásamt tveimur öðrum meðlimum Náttúruverndarráðs og framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs. Landlæknir hefur mætt á einum fundi n. ásamt forstjóra Heilbrigðiseftirlits ríkisins og einum verkfræðingi Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Og Agnar Ingólfsson prófessor, sem nefndur var hér sérstaklega áðan, hefur mætt á fundi n. Í morgun mætti svo forstjóri Þjóðhagsstofnunar ásamt starfsmanni Þjóðhagsstofnunar og Garðari Ingvarssyni ritara viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Þá hefur einnig mætt á fundi n. Hjörtur Torfason hrl., sem verið hefur lögfræðilegur ráðunautur viðræðunefndar um orkufrekan iðnað.

Ég hef að vísu ekki starfað mjög lengi á hinu háa Alþ., en ég man ekki eftir mjög mörgum málum sem hafa fengið ítarlegri meðferð. Ég hef litið svo á að það sé töluvert ítarlegri meðferð að fá þessa menn á fund, þar sem nm. gefst tækifæri til að spyrja þá út úr um hin fjölmörgu mál, heldur en að fá skriflega umsögn sem oft er mjög mikið ábótavant að minni reynslu í meðferð slíkra mála.

Ég vil jafnframt geta þess, að t. d. í orkumálum, þar sem tveir þættir voru taldir sérstaklega mikilvægir, þ. e. a. s. orkuframboð og verð á orku, leitaði n. skriflegra upplýsinga frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og Landsvirkjun og hvort tveggja það liggur fyrir.

Það hljómar dálítið einkennilega þegar kvartað er undan því að umsögn Þjóðhagsstofnunar skuli komin svo seint í okkar hendur. Ég man ekki eftir því að nokkur nm. hafi farið fram á þá umsögn. Það var ekki farið fram á hana á fyrsta fundi n. þegar ég ræddi um það, hverja ætti að kalla fyrir og við hverja ætti að ræða. Ég upplýsti hins vegar að Þjóðhagsstofnun væri með þetta í meðferð fyrir tilstilli viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Þjóðhagsstofnun fékk það til meðferðar 10. jan. s. l. og hefur því haft töluverðan tíma. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar gerði mjög vel grein fyrir þessu áliti í morgun. Það er skakkt, sem kom fram hjá hv. ræðumanni, að hann hafi sagt að ekki mætti taka mark á því sem þarna stæði, eða hvernig hv. ræðumaður orðaði það. Hann sagðist vilja fara nánar yfir töflur sem fylgja, fylla þær betur út, og ætlaði að senda okkur blöð til viðbótar í dag e. t. v. með einhverjum breytingum. En það mikilvægasta að mínu mati var það í morgun, að ekkert kom fram hjá forstjóra Þjóðhagsstofnunar sem breytir þeirri niðurstöðu sem fram kom m. a. á fundi með t. d. Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra og fleirum á hinum efnahagslegu hliðum þessa máls, Það var ekkert, sem þar breytir neinu um. Þvert á móti er það álit, sem barst í morgun, staðfesting á því að eðlilega hefur verið að þessu máli unnið.

Ég vil geta þess að hv. þm. hefur verið ákaflega frjór í sínum hugmyndum um ýmsar athuganir sem iðnn. ber að láta gera, og sú spurning hefur satt að segja vaknað hvort þn. á að feta alla þá slóð sem opinberum stofnunum er falið að annast. Á t. d. iðnn. að ganga í gegnum alla þá leið sem Heilbrigðiseftirliti ríkisins ber að annast? Heilbrigðiseftirlitið sýndi það að mínu mati á fundi þar sem þeir menn sem ég nefndi áðan voru mættir, að Heilbrigðiseftirlitið hefur unnið mjög vandlega að þessu máli og lagt í það mikla vinnu og mikinn tíma. Ég treysti landlækni og forstjóra Heilbrigðiseftirlitsins og Heilbrigðiseftirlitinu fyllilega til þess að sinna þessu máli svo að til sóma verði. Spurningin er sú: Á ein n. Alþ. að ganga í gegnum alla þá vinnu, öll þau störf, öll þau álit, allar þær rannsóknir, sem Heilbrigðiseftirlitinu ber samkv. lögum að annast. Mitt svar er nei. Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur verið sett upp sem opinber stofnun til þess að annast þennan þátt slíkra mála.

Svipað má segja um Náttúruverndarráð. Náttúruverndarráði var skrifað á árinu 1973 af viðræðunefnd um orkufrekan iðnað og leitað álits ráðsins á staðsetningu verksmiðjunnar. Náttúruverndarráð svaraði þessu með bréfi skömmu síðar á því ári, að það sæi ekkert athugavert við staðsetningu verksmiðjunnar á þessum stað sem um er rætt, í Hvalfirði. Vitanlega á það að vera hlutverk Náttúruverndarráðs að láta fara fram líffræðilega úttekt á þessu umhverfi ef ráðið telur þess þörf. Það er skilyrðislaust samkv. lögum um hlutverk Náttúruverndarráðs. Og ég vil vekja athygli á því, að í sambandi við önnur slík mál, eins og t. d. þaraverksmiðjuna á Reykhólum, þar ákvað Náttúruverndarráð að fram skyldi fara líffræðileg úttekt á Breiðafirði áður en ákvörðun yrði tekin um byggingu verksmiðjunnar. Það var Náttúruverndarráð, sem fól líffræðiskor Háskóla Íslands að annast þá úttekt. Líffræðiskor Háskóla Íslands vakti athygli Náttúruverndarráðs á þessu — ég vil undirstrika það — athygli Náttúruverndarráðs á þessu með bréfi núna í jan. Náttúruverndarráð tók þá það bréf fyrir á fundi sínum, ef ég man rétt 21. eða 23. jan. s. l., og þar kemur ekki fram sú samþykkt, að slík líffræðileg athugun skuli fara fram áður en ákvörðun er tekin um byggingu verksmiðjunnar. Ég tel það skakkt í grundvallaratriðum, að iðnn. Alþ. fari að ráða sérfræðinga til þess að gera slíka líffræðilega athugun.

Ég ætla ekki að ræða efnislega um þetta mál, það mun ég gera við framsögu mína með málinu. Þó vil ég geta þess hér, að ég tel æskilegt að hafa það sem höfuðreglu að slíkar athuganir, eins og rakið var af prófessor Agnari Ingólfssyni, fari fram áður en meiri háttar iðnaðarframkvæmdir eru ákveðnar. Í þessu tilfelli taldi Náttúruverndarráð af einhverjum ástæðum ekki þörf á því eða a. m. k. óskaði ekki eftir því í svari sínu við fsp viðræðunefndar um orkufrekan iðnað né síðar.

Ég vil forðast að fara út í efnislega meðferð málsins nú. Um það verða eflaust langar umr. í þessari hv. d. En ég vil mótmæla því að þetta mál hafi ekki fengið ítarlega meðferð í n. Að sjálfsögðu mun n. sjálf ákveða, hvort hún er sammála þessu viðhorfi minn og þá hvert framhald málsins verður í höndum nefndarinnar.