10.03.1975
Efri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2219 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Vegna þess að hæstv. iðnrh. var ekki viðstaddur þegar ég hóf mál mitt hér utan dagskrár varðandi vinnubrögð iðnn., vil ég aðeins rifja það upp að ég var að æskja örlítið lengri tíma til öflunar gagna í iðnn., örlítið lengri tíma en þess sem nú virðist eiga að veita. Ég taldi mér ókleift að skila nál. á morgun þar sem iðnn. fékk skýrslu Þjóðhagsstofnunar fyrst nú í morgun, allítarlegt plagg. En ég óskaði m. a. eftir fyllri upplýsingum um ýmis ekki ómerkileg atriði, fyllri upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun, svo sem um áhrif á atvinnuvegi og búsetuform í landinu og raunar fjögur atriði önnur sem ég bað um svör við.

Ég tilnefndi það einnig að Agnar Ingólfsson, prófessor í vistfræði, forstöðumaður líffræðistofnunar Háskólans, hefði talið tæknilega mögulegt fyrir d. að ljúka athugun prentaðra heimilda og öflun annarra upplýsinga, sem til þyrfti, á fjórum vikum og geta í lok fimmtu vikunnar skilað iðnn. Ed. bráðabirgðaskýrslu með áliti um það, hvort ástæða væri til að óttast hættulega mengun eða hættu fyrir vistríkið í Hvalfirði, lífríkið í Hvalfirði af völdum þessarar verksmiðju. Til þess þyrfti aðeins 5 vikur. Ég óskaði eftir því að frekari frestur yrði veittur, þannig að fyrir okkur lægi a. m. k. skýrsla um niðurstöður fyrsta stigs athugunar á þessu máli. En því var synjað á þeirri forsendu að mikið lægi á. Þetta mál hefur nú verið rösk 3 ár á döfinni, þetta málmblendiverksmiðjumál, þannig að ljóst er að hefði vilji verið fyrir hendi, þá hefði verið hægt að ljúka þessari fyrsta stigs athugun a. m. k. 44 sinnum. Annars stigs athuguninni, þar sem prófessorinn gerir ráð fyrir í mesta lagi fjögurra mánaða tíma til starfa, hefði þá verið hægt að ljúka 12 sinnum á þessum tíma ef vilji hefði verið fyrir hendi að gera þessar athuganir sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson játaði og ég er alveg viss um að nauðsynlegar væru til undirbúnings svona framkvæmdum.

Það er rétt sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði, það var ekki af hálfu nm. beðið um þá skýrslu frá Þjóðhagsstofnun sem fyrst kom í morgun, einfaldlega vegna þess að það var tilkynnt strax í upphafi að þessa skýrslu mundum við fá í hendur. Hitt er satt að það var á þeim fundi n. sem átti að verða sá síðasti að ákvörðun formanns, að ég innti eftir þessari skýrslu og rak á eftir henni. Það átti að láta n. ljúka störfum án þess að þessi skýrsla kæmi einu sinni í hendur okkar.

Ég veit að það er rétt, sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði, málsmeðferðin mun koma til umr. hér í d. þegar n. skilar áliti og gefst þá tækifæri til þess að fjalla m. a. um það með hvaða hætti hefur verið unnið að þessu máli í iðnn. Ég mun láta það bíða til þess tíma að færa rök að því að störf Heilbrigðiseftirlits ríkisins til undirbúnings þessa máls hafi ekki verið eins góð og frekast varð á kosið.

Það er alveg rétt að lögum samkv. á Náttúruverndarráð að fjalla um öll þau atriði sem að náttúruvernd lúta í sambandi við stofnun fyrirtækja á borð við fyrirhugaða málmblendiverksmiðju í Hvalfirði. En hitt er formanni iðnn. einnig fullvel ljóst, að sá galli er á gjöf Njarðar, að í löggjöfinni er Náttúruverndarráði ekki ætlað vald til þess að fjalla um svona mál fyrr en sótt hefur verið um leyfi til rekstrar verksmiðju, fyrr en stofnað hefur verið fyrirtækið sem á að reka verksmiðjuna og það hefur sótt um leyfi til verksmiðjurekstrar. Iðnn. Alþ., raunar Alþ. sjálft, á lögum samkv. ekki aðgang að áliti Náttúruverndarráðs fyrr en löngu eftir að því er ætlað að vera búið að afgreiða þetta lagafrv. Við vitum að hér í hv. Alþ. er málmblendiverksmiðjumálið á afgreiðslustigi. Hér verður tekin ákvörðun um það hvort þessi verksmiðja verður leyfð eða ekki. Það er skylda hv. Alþ. á þessu stigi, skylda iðnn. þessarar hv. d., að afla sér allra fáanlegra upplýsinga um það sem málið varðar til þess að geta myndað sér rökstudda skoðun á því hvort æskilegt sé að þessi verksmiðja komi upp í Hvalfirði eða ekki. Við höfum líffræðistofnun Háskóla Íslands sem býðst til þess að gera úttekt á því atriði sem varðar mengunina og skila iðnn. áliti innan 5 vikna. Ég spurði prófessor Agnar Ingólfsson að því, hvort líffræðistofnunin gæti skilað áliti fyrir miðjan apríl, ef henni yrði falið þetta verk á mánudag, þ. e. a. s. nú í dag, og hann sagði já, hún gæti það.

Í viðtali við hagsýslustjóra í morgun og ritara viðræðunefndar um orkufrekan iðnað kom það fram hjá ritara n., að ef gera ætti eðlilega könnun og nauðsynlega könnun á áhrifum málmblendiverksmiðjunnar á búsetuform hér á landi, þá mundi verkið, þessi athugun, sennilega taka eina 3 mánuði. En nú spyr ég ykkur, hv. þm., í fyrsta lagi hvort þið teljið það ekki vera þess virði fyrir Alþ. að geta gengið úr skugga um það, hvort lífríki Hvalfjarðar sé stefnt í hættu með þessari verksmiðju að áliti líffræðistofnunar Háskólans, hvort það sé ekki þess virði fyrir Alþ. að ætla 5 vikna frest til þess að fá svar við slíku. Og ég ætla líka að spyrja hv. þm. hvort þeir telji það ekki nokkurra vikna virði að fá að vita álit sérfræðinga á áhrifum sem málmblendiverksmiðjan mundi hafa á aðra atvinnuvegi landsins og búsetu í landinu, hvort það væri ekki nokkurs virði fyrir hv. alþm. að fá þetta álit áður en þeir greiða atkv. um það hvort þessi verksmiðja á að koma upp í Hvalfirði eða ekki.

Ég ítreka það, að ég fer þess á leit fyrst og fremst að veittur verði frestur til þess að líffræðistofnun Háskólans geti fellt úrskurð. Og ég segi fyrir mig, ég mundi ekki áfrýja þeim úrskurði, ef líffræðistofnun Háskólans fengi að fjalla um þetta mál, — úrskurði um það hvort lífríki Hvalfjarðar stafi hætta af fyrirhugaðri málmblendiverksmiðju í Hvalfirði. Ég fer fram á frest til þess næst þar á eftir að tóm gefist til þess að Þjóðhagsstofnun geti svarað spurningunni um áhrif þessa fyrirtækis, sem fyrirhugað er að stofna í Hvalfirði, á atvinnuvegi landsmanna, búsetuform í landinu. Í þriðja lagi er það lágmarkskrafa mín að veittur verði frestur til þess að athuga gaumgæfilega þá skýrslu sem hér liggur fyrir frá Þjóðhagsstofnun og skilað var til n. í morgun.