10.03.1975
Neðri deild: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

167. mál, söluskattur

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Mér er það ánægjuefni að það skuli loksins gefast ráðrúm til að ræða þetta frv. Það hefur tafist að það kæmist til umr. hér um 2 vikna skeið, að ég hygg, vegna þess að hér hefur staðið yfir sérstakur þingflokksfundur Sjálfstfl. og var að fjara út hér áðan. Mér virðist að hv. þm. Guðlaugur Gíslason væri að reyna að fá fjör í þessa umr. með því að reyna að kalla til aðvífandi manna. En það er náttúrlega hvorki fyrir mig né aðra að taka þátt í innanflokksumr. með þingfl. Sjálfstfl. þó að vissulega hafi verið ákaflega fróðlegt og enn þá skemmtilegra að fylgjast með þeim.

Þetta frv. sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um söluskatt, er flutt af mér og hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni og efni þess er ákaflega einfalt. Þar er lagt til að söluskattur verði felldur niður af matvælum, en síðan að ráðh. ákveði með reglugerð mörkin milli matvara og annarrar vöru, t. a. m. sælgætis.

Lögin um söluskatt — grundvallarlögin um söluskatt — eru frá 1960 og þar eru í 6. gr. ákvæði um tilteknar lögskipaðar undanþágur frá söluskatti, og af matvælum er þar að finna neyslumjólk — nýmjólk — og neysluvatn, en að öðru leyti leggst söluskattur á öll matvæli. Í l. er einnig ákvæði um það að ráðh. geti með reglugerð undanþegið tilteknar vörur söluskatti, og það hefur verið gert. Einkanlega var það gert 1971 þegar svokölluð vinstri stjórn tók til starfa og þar bættist við neyslufiskur og allar mjólkurvörur, þ. e. a. s. ekki aðeins mjólkin sjálf, heldur einnig smjör, rjómi, skyr og ostar og svo ýmsar nauðsynjar aðrar sem ekki eru af matvælatagi.

Ástæðan til þess, að ég tel ákaflega tímabært að litið sé á þennan gjaldstofn að því er matvæli varðar, eru þær feiknalegu verðhækkanir sem yfir okkur hafa dunið að undanförnu. Ég vil minna á það, að þegar núv. ríkisstj. tók við var vísitalan 296 stig. Þegar hún var síðast reiknuð var hún komin upp í 375 stig. Hún hefur síðan verið að hækka dag frá degi og er alveg augljóst mál að eftir tiltölulega stuttan tíma, nokkrar vikur, þá verður hún komin yfir 400 stig og þá hefur hún hækkað um meira en þriðjung í tíð núv. ríkisstj. Þetta er almenna vísitalan. Þetta er heildarmeðaltal miðað við grundvöll vísitölufjölskyldunnar. En matvæli hafa hækkað miklum mun meira. Þegar litið var á það dæmi, þegar gengið var frá þessu frv., þá kom það í ljós að matvæli höfðu hækkað að meðaltali um 41.2%. Þar er ekki heldur um að ræða að matvæli hafi hækkað um þessa prósentutölu að jafnaði, því að brýnustu matvæli, þau matvæli sem heimilin nota dag hvern og enginn maður kemst hjá að nota, þau hafa hækkað enn þá meira en þetta. Við tókum nokkrar vörur út úr vísitölunni, einmitt vörur af þessu tagi, og það kom í ljós að þær höfðu hækkað um 60%, hvorki meira né minna, þannig að þarna er um að ræða verðhækkanir sem hafa orðið ákaflega þungbærar, og þær verða þungbærari og þungbærari. Nú í dag hækkuðu landbúnaðarvörur allar nema nýmjólk, aðeins vegna þess að hún er greidd niður úr ríkissjóði með fjármunum sem aflað er með skattheimtu eftir öðrum leiðum. Við vitum öll áhrif gengislækkunarinnar. Þau eru að velta yfir okkur dag frá degi og viku eftir viku og þau munu bitna mjög þungt á innfluttum matvælum og raunar einnig á matvælum sem framleidd eru hér, vegna þess að gengislækkunin hefur áhrif á rekstrargrundvöll landbúnaðar o. fl. matvælaframleiðenda hér á landi.

Söluskatturinn hér er orðinn ákaflega hár. Hann er hvorki meira né minna en 20%. Þetta er svipuð upphæð og söluskattur eða virðisaukaskattur er í nágrannalöndum okkar. En í því sambandi er þess að gæta að þar í löndum er búið að mestu leyti að afnema alla tolla. Því fer mjög fjarri að allir tollar hafi verið afnumdir á Íslandi. Tolltekjur ríkissjóðs eru ákaflega miklar. Í fjárl. þessa árs er sköttum ríkisins þannig skipt, að beinir skattar eru 8.8 milljarðar, en óbeinir skattar eru 38.8 milljarðar. Menn taki eftir þessum hlutföllum á milli beinna skatta og óbeinna. Óbeinu skattarnir eru orðnir svona óhemjulega miklu stærri hluti af skattheimtu ríkisins en áður var, og ég efast um að hlutföll af þessu tagi þekkist í nokkru nálægu landi. Af þessum óbeinu sköttum, sem eru 38.8 milljarðar, er söluskatturinn 17.9 milljarðar skv. þeim tölum sem eru í frv. Ég veit að enginn þeirra stenst vegna breytinga á gengi og af öðrum ástæðum, þetta eru lögin sjálf eins og frá þeim var gengið. En tollar og önnur aðflutningsgjöld eru 12.8 milljarðar. Það eru sem sé innheimtir tollar fyrir 12.8 milljarða á sama tíma og söluskatturinn er kominn upp í 20%.

Nú hefur sú stefna verið mörkuð af íslenskum stjórnvöldum, að við eigum að fella niður tolla af innfluttum varningi, og við höfum raunar skuldbundið okkur til þess, bæði í sambandi við samningana við EFTA og samningana við Efnahagsbandalag Evrópu. En ég vil minna á það, að ef þessir tollar og aðflutningsgjöld féllu niður og ættu að innheimtast í söluskatti í staðinn, eins og oftast hefur verið talað um, þá þyrfti söluskatturinn að hækka upp í hvorki meira né minna en 29%. Ef ætti að fá inn sömu tekjur í ríkissjóð með því að hækka söluskattinn jafnframt því sem tollar yrðu felldir niður, þá væri þessi óbeini skattur orðinn u. þ. b. 50% hærri hér á Íslandi en hann er t. a. m. annars staðar á Norðurlöndum. Ég hygg að við séum þarna komnir inn á braut, sem kann að reynast okkur hættuleg, og það sé ástæða til að endurskoða af fullri alvöru hvort við getum haldið áfram á þessari braut.

Ég vakti athygli á því áðan að matvæli hefðu hækkað meira en nokkrar aðrar vörutegundir. Slík hækkun á matvælum bitnar að sjálfsögðu þyngst á þeim sem verða að nota mestan hluta tekna sinna til matarkaupa. Þannig er því varið um lágtekjufólk, um barnmargar fjölskyldur, um aldrað fólk og um öryrkja. Aldrað fólk og öryrkjar verða raunar að nota svo til allar tekjur sínar til matarkaupa. Sá skammtur, sem þessum þjóðfélagsþegnum er ætlaður, er það naumur að ég hygg að lítið verði þar aflögu þegar búið er að greiða hitunarkostnað og rafmagn einnig. Þess vegna hefur þessi hækkun á matvælum, sem er meiri en á nokkrum öðrum vörum, orðið til þess að stórauka þjóðfélagslegt ranglæti. Það er verið að leggja auknar þjóðfélagslegar byrðar hlutfallslega á það fólk sem hefur minnsta getu til að bera þær.

Eins og ég gat um áðan leggjum við flm. til, að matvæli verði felld niður úr sjálfum söluskattsstofninum. Af því mundi leiða að það yrði ekki aðeins söluskatturinn sjálfur, sem félli niður af þessum vörum, heldur einnig viðlagasjóðsgjaldið. Það eru þau 20%, sem eru lögð á þessar vörur, sem mundu falla niður. Þær mundu sem sé lækka um u. þ. b. 17%.

Við áætluðum hvað mikill söluskattur hefði verið innheimtur af matvælum á síðasta ári. Kom þá í ljós að trúlega hefði sú upphæð numið 1300–1400 millj. kr., eða u.þ.b. 4% í vísitölu. Síðan hafa matvæli hækkað ákaflega mikið, eins og ég gat um áðan, og meira en annað, þannig að trúlega er hér um að ræða upphæð á þessu ári sem næmi um 2 000 millj. kr. og líkast til öllu hærri hluti af vísitölunni, vegna þess að þarna hefur verið um meiri hækkun að ræða en á öðrum vörum eins og ég gat um, þannig að þarna gæti verið um að ræða jafngildi vísitölulækkunar um 5%. Það er vissulega mjög umtalsvert atriði, eins og kjörum manna er nú háttað hér á Íslandi.

Hér hefur oft verið um það rætt hvort ekki væri ástæða til þess að hafa söluskatt af tvenns konar tagi, þ. e. a. s. hafa mismunandi háan söluskatt eftir því hvað menn meta vörur nauðsynlegar eða engan söluskatt á sumum vörum, en einhvern söluskatt á öðrum vörum. Embættismenn hafa verið ákaflega andvígir þessu fyrirkomulagi og talið að það væri erfitt að fylgjast með því að slíkt kerfi yrði ekki hagnýtt til þess að stela undan söluskatti. Ég hygg að allir viti, að það er nú gert í allríkum mæli hér á Íslandi. Samt er það svo að í ýmsum nágrannaþjóðfélögum okkar hefur þessi háttur verið tekinn upp. Ég minnist þess t. d. í Noregi fyrir nokkrum árum, þegar þar var borgaraleg ríkisstjórn, þá beitti Verkamannaflokkurinn sér fyrir till. um að lækka til mikilla muna söluskatt á ýmsum brýnustu matvælum. Hann gerði þetta að miklu baráttumáli, og verkalýðshreyfingin tók undir þessa afstöðu Verkamannaflokksins. Síðan gerðist það nokkru síðar, þegar Verkamannaflokkurinn kom aftur í ríkistj., að hann framkvæmdi þessar till. Þannig er í Noregi um að ræða tvenns konar virðisaukaskatt eftir mati á því hvort vörur eru nauðsynlegar eða miður nauðsynlegar. Ég hef ekki heyrt um að norðmenn hafi lent í neinum vandræðum af þessum sökum. Mér er kunnugt um að hliðstæð skipan er í Frakklandi og ég hygg í fleiri löndum. Fyrir því eru að sjálfsögðu engin rök að embættismenn okkar íslendinga geti ekki gengið frá eftirlitskerfi sem fylgist með þessu á sama hátt og unnt er að gera í öðrum þjóðfélögum. Raunar er þessi breyting, sem við leggjum til, ákaflega einföld. Þarna er um að ræða matvæli, einvörðungu matvæli, og þetta er tiltölulega einföld flokkun. Sala á matvælum fer yfirleitt fram í sérstökum verslunum, þannig að ég hygg að það væri mjög auðvelt að koma þessari skipan á.

Menn kunna að segja að það séu flutt inn ýmis konar matvæli, — matvæli sem varla verða talin til mikilla þarfa, eins og t. a. m. fiskmeti frá útlöndum, sem er flutt inn fyrir nokkur hundruð millj. kr. árlega, og alls konar erlendur dósamatur, sem er aðallega útlent vatn sem er soðið niður í dósir. Auðvitað má færa rök að því að það sé engin ástæða til þess að hætta að innheimta söluskatt af þessum vörum. En ég hygg að hvað þessar vörur snertir verði hin leiðin miklu einfaldari, að ríkisstj, taki þá ákvörðun, á meðan við erum í miklum vanda staddir í gjaldeyrismálum eins og okkur er tjáð að við séum um þessar mundir, að hætta að flytja slíkar vörur inn um tiltekinn tíma þar til náðst hefur eðlilegt jafnvægi í gjaldeyrismálum.

Ég sé nú að hæstv. viðskrh. er hér ekki staddur. En fyrst ég er farinn að minnast á þetta er e. t. v. ástæða til að geta þess, að mér fannst birtast býsna athyglisverð frétt í blöðum og fjölmiðlum á föstudaginn var um afgreiðslu á umsóknum um gjaldeyri. Eins og allir hv. þm. vita hafa hér verið í gildi æðiströng gjaldeyrishöft margar undanfarnar vikur. Það hefur enginn gjaldeyrir verið afgreiddur nema hann hafi verið borinn undir sérstaka n. sem bankarnir og viðskrn. hafa tilnefnt menn í. Þessi gjaldeyrishöft voru það ströng, að það hrönnuðust upp umsóknir, og um skeið var svo ástatt að óafgreiddar umsóknir voru komnar yfir tvo milljarða kr. að upphæð. Það er alkunna að hæstv. viðskrh. leit á þetta sem aðferð til þess að taka upp þær reglur, að það yrði hætt að flytja inn vissar vörutegundir eða takmarkaður yrði innflutningur á vissum vörutegundum í takmarkaðan tíma, á meðan svo er ástatt að við lifum á erlendum lánum eins og við gerum núna, á neyslulánum sem við höfum fengið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hjá Sovétríkjunum og víðar. Hæstv. viðskrh. var þeirrar skoðunar, á meðan svo væri ástatt að við þyrftum að fá erlend gjaldeyrislán til þess að standa undir innflutningi okkar, að þá ætti ekki að heimila innflutning á varningi af þessu tagi, sem allir eru sammála um að er algerlega óþarfur, sem við getum skemmt okkur við þegar við höfum nægan gjaldeyri, en við eigum ekki að vera að sóa gjaldeyri í þegar við eigum hann ekki. Um þetta hefur verið tekist á milli stjórnarflokkanna að undanförnu, og skoðanir viðskrh. voru þessar, að þarna ætti að beita heilbrigðri skynsemi og vera ekki að flytja inn algerlega óþarfan varning meðan svona væri ástatt. En fyrir helgina gerðust þau tíðindi, og það er ekki í fyrsta skipti í tíð þessarar ríkisstj.hæstv. viðskrh. var beygður. Við höfum hér einn hæstv. ráðh. viðstaddan, hæstv. fjmrh., sem þetta mál snertir náttúrlega mjög mikið, og það væri fróðlegt að biðja hann að segja frá því hvernig þessi átök hafi farið fram og hvaða ráðum hann og aðrir forustumenn Sjálfstfl. hafi orðið að beita til þess að beygja hæstv. viðskrh., því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist, eins og ég rakti hér áðan. Þetta hefur verið að gerast æ ofan í æ, þetta er að verða hinn fasti, háttbundni siður í störfum núv. ríkisstj., að hæstv. viðskrh. þrjóskast í vissan tíma, en síðan er hann beygður. Með því að beygja sig í þessu máli er hæstv. viðskrh. að taka á sig ábyrgð á því að auka erlend lán til innflutnings á ýmsum miður þörfum vörum. Hann er að taka á sig hættu af því að efnahagslegt öryggi okkar verði enn þá lélegra en það er núna, við verðum að ganga enn þá lengra á þeirri braut að taka erlend neyslulán fyrir daglegum notum okkar. En það liggur í hlutarins eðli, að það er ekki hægt að ganga langt á þeirri braut. Eigi ekki að ákveða það út frá skynsamlegu mati, hvaða vörur elgi ekki að flytja inn þegar við eigum engan gjaldeyri, þá hlýtur aðferðin að vera hin, sú aðferð sem hæstv. ríkisstj. er að beita, að gera skortinn að svo ströngum skömmtunarstjóra að það hrökkvi til til þess að draga úr gjaldeyriseyðslunni. Og það er nákvæmlega þetta sem verið er að gera núna, t. d. þegar matvæli, landbúnaðarvörur, hækka í dag. Það er verið að gera skortinn að skömmtunarstjóra. Það er verið að takmarka eftirspurnargetu almennings til þess að vissir forréttindahópar geti haldið áfram að leika sér að því að kaupa ýmsar algerlega óþarfar og nánast hlægilegar vörur.

Í sambandi við það, hvaða fólk hefði orðið harðast úti í þeim efnahagsaðgerðum sem yfir okkur hafa dunið að undanförnu, nefndi ég sérstaklega aldrað fólk og öryrkja, vegna þess að það er það fólk sem notar mestan hluta tekna sinna til matarkaupa. Ég vil minna á það, að þetta fólk hefur verið leikið alveg sérstaklega grátt, því að það eru látnar gilda aðrar reglur um tekjur þess en annarra hópa í þjóðfélaginu. Þegar sett voru brbl. um jafnlaunabætur á s. l. hausti, átti svo að heita að lágmarksbætur til hvers manns yrðu 3 500 kr. Því var haldið fram. En í framkvæmd var það þannig, að aldrað fólk og öryrkjar fékk ekki nema tæpar 1 904 kr., það fékk sömu prósentu, en það fékk ekki nema tæpar 1 900 kr. Og þetta var rökstutt með því, að ef þetta fólk væri gift, ef báðir aðilar fengju ellilífeyri með tekjutryggingu, þá mundu þeir ná þessari upphæð, 3 500 kr. Og sama máli gegndi um öryrkja, ef þeir væru giftir og báðir fengju örorkubætur, þá mundu þeir ná þessari upphæð, 3 500 kr. En þannig er ástatt um ákaflega lítinn hluta af öldruðu fólki og öryrkjum á Íslandi.

Ef við tökum árið 1972, þá sýna skýrslur, að 10 714 einstaklingar fengu ellilaun, en ekki nema 2602 hjón. Örorkulífeyri fengu 3612 einstaklingar, en ekki nema 196 hjón. Ef á að réttlæta þessa framkomu við aldrað fólk og öryrkja með þessum rökum, þá standast þau engan veginn, enda þekki ég ekki til þess á almennum vinnumarkaði að farið sé að greiða mönnum kaup eftir því hvort þeir eru giftir eða ekki. Það hefur ekki tíðkast. Það er samið um að greiða mönnum tekjur fyrir unna vinnu, en ekki eftir því hvernig þeirra fjölskyldu er háttað. Ég vil því mótmæla alveg sérstaklega þessari meðferð á öldruðu fólki og öryrkjum, og ég vil minnast á það að þegar það kom upp hér á hinu háa Alþ. að breyta þessum brbl. miðað við nýjustu aðstæður og hækka þessa lágmarksupphæð nokkuð, þá átti að hafa sama háttinn á. Þá átti aldrað fólk og öryrkjar aðeins að fá rúmar 2 000 kr., á sama tíma og lágmarksbætur til allra annarra láglaunahópa áttu að vera 3 800 kr. Þetta er að minni hyggju algerlega ósæmileg framkoma, og mér finnst að okkur, sem erum hér á þingi, beri skylda til þess að gæta alveg sérstaklega að hag þessa fólks, því að það hefur enga málsvara aðra en okkur.

Frv. þetta um afnám söluskatts af matvælum hefur nokkuð verið rætt í blöðum að undanförnu. M. a. hefur það verið rætt í forustugrein í Tímanum og í grein, sem ritstjóri Tímans, hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, hefur skrifað. Og undirtektir Tímans hafa verið ákaflega jákvæðar. Það hefur verið talið að hér væri verið að fitja upp á stefnu sem Eysteinn Jónsson hefði fylgt á sínum tíma, og ekki skal ég fara neitt að pexa um það, það er ekki leiðum að líkjast. En þessar undirtektir formanns þingflokks Framsfl. eru að minni hyggju ákaflega athyglisverðar. Ég hef ekki orðið var við neinar aths. við þessa hugmynd af hálfu Sjálfstfl., en ég hygg, að hér sé um að ræða mál, sem hefur vakið það mikla athygli, að það væri áreiðanlega vel þegið og yrði eftir því tekið ef einhver málsvari Sjálfstfl., t. d. hæstv. fjmrh., sem var hér viðstaddur til skamms tíma, léti það uppi við 1. umr. um málið hver væri afstaða Sjálfstfl. til þess. Það hefur mikið verið um það talað af hálfu Sjálfstfl. að undanförnu, að hann vildi gjarnan draga úr almennri skattheimtu vegna þess hvað kjör hafa skerst að undanförnu. Þar er um að ræða ýmsar leiðir sem hægt er að fara. Við fulltrúar Alþb. höfum bent á að þeir skattar, sem hvíla þyngst á lágtekjufólki, eru annars vegar útsvörin og hins vegar söluskatturinn. Þessi skattafúlga er langsamlega stærsti hlutinn af tekjum ríkissjóðs, eins og ég gat um áðan. Og ef þarna yrði um að ræða að ríkisstj. gæti fallist á umtalsverðar breytingar, þá hafa alþýðusamtökin lýst yfir því, að þau muni að sjálfsögðu meta það til móts við auknar tekjur, ef um er að ræða slíkar breytingar að þær hafi áhrif á afkomu alþýðuheimilanna. Þess vegna hygg ég, að þetta sé æðimikilvægt mál og að það væri gagnlegt að fá viðbrögð þingflokkanna við því þegar við 1. umr.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og væntanlega hv. fjh.- og viðskn.