11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

87. mál, vatnsvirkjunarrannsóknir til raforkuframleiðslu á Norðurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þessar fsp. voru fluttar fyrir áramót af hv. 3. þm. Norðurl. e., Stefáni Valgeirssyni. Þær hafa oft verið á dagskrá í Sþ., en verið teknar út af dagskrá vegna veikindaforfalla hv. þm. Hins vegar varð að ráði að hv. þm. Heimir Hannesson, varamaður Stefáns Valgeirssonar, gerði grein fyrir fsp.

Fyrsta spurningin er: „Hvaða vatnsvirkjunarrannsóknir með raforkuframleiðslu fyrir augum eru lengst komnar á Norðurlandi?“

Þegar rætt er um vatnsvirkjunarmöguleika á Norðurlandi verða venjulega fyrst og fremst fyrir fjórir stórvirkjunarmöguleikar. Ég vil að vísu fyrst nefna einn virkjunarmöguleika þar sem er Svartá í Skagafirði, en í aprílmánuði 1971 var með lögum heimiluð virkjun Svartár við Reykjafoss. Þar var ekki um stóra virkjun að ræða og úr framkvæmdum þar varð ekki. Nú er hins vegar rætt einkum um fjóra möguleika, eins og ég gat um áðan. Það eru Blanda, Jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum.

Varðandi Blöndu er það að segja að þar hafa allvíðtækar rannsóknir og frumáætlanir verið gerðar. Má gera ráð fyrir því að þar megi gera álitlega og hagkvæma virkjun með a. m. k. 150 mw. afli. Það þarf að kanna þar nánar jarðlög með jarðborunum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin. Hins vegar tel ég annað meira aðkallandi varðandi þá virkjun og það er að hafa sem fyrst samráð við bændur þar nyrðra. Þessi virkjun er þannig hugsuð að um stórt uppistöðulón verði að ræða til miðlunar og öryggis fyrir virkjunina og gert ráð fyrir því að fari um eða yfir 50 ferkm lands undir vatn. Þetta land, sem þannig mundi fara undir miðlunarlónið, er afréttur, góð beitilönd og eiga þar hlut að máli upprekstrarfélög Auðkúluheiðar og Eyvindarstaðaheiðar. Ég tel sjálfsagt og nauðsynlegt, að áður en lengra er haldið og áður en ráðist er í frekari jarðvegsrannsóknir og boranir með ærnum kostnaði verði efnt til fundar með landeigendum, með bændum og aðilum afréttarlanda þar, til þess að kynna fyrir þeim þessar virkjunarhugmyndir og kanna hug þeirra til þessara mannvirkja. Í því sambandi hefur komið til orða að ef af þessari virkjun yrði skyldi reynt að græða upp önnur beitilönd í staðinn. Iðnrn. hefur þegar gert ráðstafanir til þess að undirbúa slíkan kynningarfund með bændum þar nyrðra.

Annar möguleiki er Jökulsárnar í Skagafirði. Þar er einnig möguleiki á stórvirkjun, væntanlega af svipaðri stærð og Blönduvirkjun. Þá virkjun er hægt að framkvæma í áföngum og er það einnig mjög álitleg virkjun.

Þriðji möguleikinn er Skjálfandafljót. Varðandi þá virkjunarmöguleika gaf ég upplýsingar á Alþ. 4. febr. s. l. sem svar við fsp. frá hv. 6. þm. Norðurl. e., Inga Tryggvasyni, og tel ekki ástæðu til að fara ítarlegar út í það hér. Sérfræðinga greinir mjög á um hversu álitlegir virkjunarmöguleikar séu í Skjálfandafljóti. Sumir telja þá mjög góða, aðrir draga það í efa, ag virkjunarrannsóknir varðandi Skjálfandafljót eru ekki það langt á veg komnar að möguleiki sé til ákvarðanatöku þar nú alveg á næstunni.

Fjórði möguleikinn er Jökulsá á Fjöllum. Einna mestar rannsóknir hafa farið fram þar og lengst síðan þær hófust. Í svari mínu þennan sama dag, 4. febr. s. l., við annarri fsp. frá hv. 6, þm. Norðurl. e. gerði ég grein fyrir þessum rannsóknum sem hafa staðið yfir allt frá árinu 1960 og er búið að verja til nokkru fé. Það hefur heyrst frá Orkustofnun að virkjun Dettifoss sé í rauninni tilbúin til ákvarðanatöku, rannsóknum og áætlunum sé það langt á veg komið. Má vera að það sé rétt, svo langt sem það nær. Hins vegar, eins og ég gat um í svari mínu við þeirri fsp., hafa einnig verið, að vísu lauslega, athugaðir af Orkustofnun möguleikar á öðrum virkjunum í Jökulsá á Fjöllum og að umsögn Orkustofnunar hefur m. a. verið kannaður möguleiki á að nýta vatnsorku Jökulsár á Fjöllum í einni virkjun annars staðar, um það bil tvöfalt stærri en Dettifossvirkjun. Síðan segir: „Verði Dettifoss virkjaður er hæpið, að afgangurinn af vatnsafli Jökulsár verði nýttur yfirleitt, og útilokað má telja að nýta hann á hagkvæman hátt.“ Þessi virkjun er mjög lítið könnuð enn þá. Þó að rannsóknum á Dettifossi sé þannig alllangt komið og þar gert ráð fyrir 16:5 mw. stöð er tæpast hægt að segja að unnt sé á þessu stigi eða alveg á næstunni að taka ákvörðun um virkjanir á Jökulsá á Fjöllum meðan hinn möguleikinn um tvöfalt stærri virkjun er lítt kannaður enn þá. Ég býst við að fáir ráðamenn þjóðarinnar mundu vilja bera ábyrgð á því að ákveða nú á næstunni virkjun í Dettifossi með 165 mw. — virkjun sem útilokaði um aldur og ævi aðra tvöfalt stærri virkjun. Þess vegna held ég að staðreyndirnar séu þær varðandi Jökulsá á Fjöllum að þó nokkrar rannsóknir þurfi að gera þar enn áður en endanlegar ákvarðanir er hægt að taka.

Einnig er spurst fyrir um það hvaða orkufrekur iðnaður kæmi helst til greina á Norðurlandi með Dettifossvirkjun fyrir augum eða aðra stórvirkjun þar. Varðandi þetta mál hefur, að því er ég veit best, helst komið til greina tvenns konar iðnaður, annaðhvort álframleiðsla eða áburðarframleiðsla.

Ég get svo þessu til viðbótar vísað um nánari upplýsinga varðandi Skjálfandafljót og Dettifoss til svara minna frá 4. febr. En ég vil út af orðum hv. þm. Heimis Hannessonar taka mjög undir það sem hann sagði um orkumál Norðurlands, að þau hafa verið fulllengi eingöngu á dagskrá, en minna um efndir en orð, það væri því tími til kominn að taka ákveðna afstöðu. Hv. þm. taldi að hingað til hefðu norðlendingar orðið að sætta sig við biðleiki. Ég vona að taflmennsku biðleikanna sé senn lokið og a. m. k. er það eindreginn ásetningur núv. ríkisstj. að setja framkvæmdir þar í fyrsta sess. Ég tel að áður en ákvörðun verður tekin um næstu virkjun á Þjórsársvæði eða Hrauneyjarfoss, sem hv. þm. einnig gerði að umtalsefni, verði að taka ákvörðum um stórvirkjun á Norðurlandi.