11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

87. mál, vatnsvirkjunarrannsóknir til raforkuframleiðslu á Norðurlandi

Ingi Tryggvason:

Herra forseti.Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. iðnrh. að ákvörðun um stórvirkjun á Norðurlandi verði tekin á undan ákvörðun um Hrauneyjarfossvirkjun. Ég vil þó vekja athygli á því að það er ekki nóg að taka ákvarðanir í einhverri ákveðinni röð um virkjanir. Það hafa fyrr verið teknar ákvarðanir eða alla vega fyrr verið samþykktar virkjanir sem ekki hafa síðan verið gerðar, og það, sem fyrir okkur vakir á Norðurlandi, er auðvitað fyrst og fremst að fá virkjanir. Ég vil að vísu taka fram að það lítur út fyrir að nokkuð sé bjartara fyrir dyrum í virkjunarmálum okkar þar sem gert er ráð fyrir að virkja Kröflu mjög fljótlega.

En erindi mitt hingað var að vekja athygli á því að það er nauðsynlegt að hraðað verði rannsóknaframkvæmdum við Jökulsá á Fjöllum. Það kom hér fram áðan að ekki er vitað um undirtektir landeigenda í sambandi við virkjun í Blöndu. Þar er um það að ræða að stórt land verði sett undir vatn og kunna að verða einhverjir örðugleikar í sambandi við ákvörðun um virkjun þar. Mér er ekki kunnugt um að slík vandkvæði séu við Jökulsá á Fjöllum og það atriði út af fyrir sig ætti að vera hvati til þess að áframhaldandi rannsóknir verði unnar sem fyrst svo að hægt verði að taka ákvörðun um virkjun í Jökulsá, ekki síður af stærri gerðinni en þeirri minni.

Loks langar mig að víkja að því að ég hefði gjarnan viljað heyra skýringar á því hvernig á því stendur, að undirbúningur virkjana er svo miklu lengra á veg kominn hjá Landsvirkjun heldur en annars staðar á landinu. Það er athyglisvert vissulega hversu vel hefur gengið með undirbúning virkjana á svæði Landsvirkjunar. Hvernig stendur á því, að þessi verk ganga miklu hraðar fram þar en annars staðar á landinn?