11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2251 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

311. mál, lagning byggðalínu til Norðurlands

Heimir Hannesson:

Herra forseti. Ég vil á ný mæla fyrir fsp. frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni í fjarveru hans til hæstv. orkumrh. á þskj. 95, sem hljóðar þannig:

„1. Er búið að ákveða, hvenær hafist verði handa um lagningu byggðalínu frá Hvalfirði að Varmahlíð?

2. Hvenær er fyrirhugað, að því verði verði lokið ?“

Í þessu máli er komið inn á mál sem er náskylt þeim málefnum sem voru til umr. áðan, og ég vil aftur vekja athygli á því að einnig í þessu máli hafa menn orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum með allan seinagang þessara mála. Í þessu sambandi vil ég vitna í sama fund, sem haldinn var á Akureyri í árslok 1973 um orkumál, þar sem fyrrv. orkumrh. flutti ræðu og sagði á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ég held að það þurfi að stefna að því að þessi lína þurfi að komast í gagnið fyrri hluta árs 1975. Ég álít að það sé ekki neitt raunsæi í öðru en að norðlendingar, iðnrn. og Orkustofnun vinni saman um það að reyna að hrinda þessari framkvæmd af stað sem allra fyrst.“

Orkumálastjóri, Jakob Björnsson, sagði á sama fundi um margrædda byggðalínu:

„Þessari línulögn sýnist okkur mega ljúka árið 1975, eins og nú horfir a. m. k.“

Nú er þegar farið að líða töluvert á árið 1975 og menn hafa séð harla lítið af framkvæmdum og eru orðnir býsna þreyttir í þessu sérstaka máli. Ég geri mér ljóst að hér er um að ræða í rauninni málefni tveggja ríkisstj., og ég harma það sérstaklega að hér skuli ekki vera staddur fyrrv. orkumrh., Magnús Kjartansson, sem vafalaust hefði óskað eftir að taka þátt í þessum umr. og ég hefði gjarnan óskað að hefði svarað ýmsu af því sem hér hefur komið fram í þeim málum sem hann bar ábyrgð á í ráðherratíð sinni.

Af því að þessi mál tengjast því sem var á dagskrá áðan, þá vona ég að mér leyfist að ræða það. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að rannsóknir allar í sambandi við orkumál yfirleitt eru m. a. háðar því að einhver aðili sé til til að fjalla um slíkar rannsóknir, bera á þeim ábyrgð og stjórna þeim. Og ég vil sérstaklega vekja athygli á því og nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh.: Í upphafi þessa árs gerði bæjarstjórn Akureyrar samþykkt, og það voru reyndar shlj. samþykktir frá fleiri aðilum, þar sem var sérstaklega lagt til að þessi sveitarfélög og iðnrn. kæmu sér saman um að koma á stofn Norðurlandsvirkjun, það yrði aðili sambærilegur Landsvirkjun, þannig að það ætti ekki að þurfa að vísa til þess að enginn aðili væri fyrir hendi til að fjalla a. m. k. um rannsóknir, hvort sem um er að ræða orkuver eða lagningu byggðalínu. Ég vil ítreka það að einnig í þessu máli hefur orðið alveg mjög óhæfilegur seinagangur og óhæfilegur dráttur og ég vonast til þess að hraðari gangur komist á þessi mál sem önnur í þessu sérstaka, mikilvæga máli.