11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

311. mál, lagning byggðalínu til Norðurlands

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Sams konar fsp. varðandi byggðalínu var borin fram af öðrum hv. þm. og ég svaraði henni í Sþ. 10. des. s. l. og vil nú í verulegum atriðum vísa til þess svars. En í upphafi orða minna þá segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið, að háspennulínan frá Suðurlandi til Norðurlands verði lögð og framkvæmdir hafnar svo fljótt sem auðið er.“ Enn fremur segir: „Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. er lögð áhersla á aukinn hraða í virkjun íslenskra orkugjafa, bæði til iðnvæðingar og í því skyni að gera íslendinga óháðari innfluttri orku.“ Síðan eru talin þar meðal brýnustu verka að tryggja sem fyrst með nýjum virkjunum næga raforku á Norðurlandi og í öðrum landshlutum sem eiga við orkuskort að búa.

Í þessu svari 10. des. gaf ég nokkurt yfirlit um gang þessara mála og var þar svo að orði komist að tímaáætlun, sem gerð hefði verið um verkið, væri sú að lagningu norðurlínunnar, þ. e. a. s. frá Andakíl og norður til Varmahlíðar, mætti ljúka haustið 1976. Í sambandi við tímamarkið minntist hv. þm. Heimir Hannesson á fund einn mikinn, sem haldinn hefði verið í nóv. 1973 á Akureyri, og las upp úr ummælum þáv. iðnrh. og enn fremur orkumálastjóra um að þessari línu mætti ljúka á árinu 1975. Það var bara sá hængurinn á um þessa yfirlýsingu eins og kannske fleiri á þeim fundi að tímaáætlanir stóðust ekki vegna þess að ekki var þannig að undirbúningi eða framkvæmdum mála staðið. Þó að þessi tími væri liðinn, frá nóv. 1973 og fram til mánaðamótanna ágúst-sept. þegar stjórnarskiptin urðu, þá hafði ekki verið hafist handa um lagningu þessarar línu. Hins vegar hafði viss undirbúningur að henni verið gerður, en hönnun línunnar þó hvergi nærri lokið og var í rauninni ekki lokið fyrr en nú um síðustu áramót. En ég skal til viðbótar þessu í tilefni af fsp. flytja hér nokkurt yfirlit um hvernig málin standa nú varðandi byggðalínuna.

Vegalengdin frá Andakíl að Laxárvatni í Húnavatnssýslu er 150 km og frá Laxárvatni til Varmahlíðar 42.6 km. Auk þess þarf línu frá Andakíl til Grundartanga ef ákveðið verður að byggja járnblendiverksmiðju þar. En sem sagt, vegalengdin frá Andakíl til Varmahlíðar er 192.6 km. Á s. l. ári voru keyptir til verksins 1325 tréstaurar. Einn vinnuflokkur Rafmagnsveitna ríkisins byrjaði á staurareisingu við Andakíl 26. febr. og áætlað er að annar flokkur byrji á staurareisingu í botni Hrútafjarðar um 15. mars. Aðaláherslan verður lögð á kaflann Andakíl-Laxárvatn. Ástæðan fyrir því að þessir byrjunarstaðir voru valdir, Andakíll og Hrútafjarðarbotn, er að á þann hátt nýtast best þeir staurar sem til eru, en þeir voru keyptir áður en lokahönnun verksins fór fram. Allt erlent efni í kaflana Andakíll-Laxárvatn og Laxárvatn-Varmahlíð hefur verið boðið út og er sumpart búið að opna þau tilboð, en önnur verða opnuð í síðasta lagi 1. apríl. Eftir næstu mánaðamót, þegar afgreiðslutími alls efnis liggur fyrir, verður hægt að gera endanlega framkvæmda- og greiðsluáætlun fyrir verkið í heild, en samkv. bráðabirgðaáætlun nú er hægt að ljúka verkinu fyrir 1. nóv. 1976. Nú er einnig unnið að endurskoðun kostnaðaráætlunar fyrir verkið í heild. Síðasta áætlun, sem ég hef fengið um þetta efni, var á rúman 1 milljarð þegar sleppt er aðflutningsgjöldum.

Ég vil svo aðeins bæta því við að 19. nóv. s. l. skrifaði ég bréf til Rafmagnsveitna ríkisins, svo hljóðandi:

„Rn. felur hér með Rafmagnsveitum ríkisins að hafa með höndum framkvæmdir við lagningu háspennulínu til Norðurlands. Jafnframt er Rafmagnsveitum ríkisins falið að hraða framkvæmdum umræddrar norðurlínu svo sem kostur er, eftir því sem fjármagn er fyrir hendi.“