11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

311. mál, lagning byggðalínu til Norðurlands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það vorn orð 6. þm. Norðurl. e. sem urðu þess valdandi að ég stíg hér í ræðustólinn, þar sem hann áætlar allt að 300 millj. kr. kostnaður kynni að verða á næsta ári við að keyra dísilvélar, ef ég hef tekið rétt eftir hans orðum. Menn muna einnig að fyrir nokkru var viðtal við ýmsa forustumenn á Norðurlandi og komu þar inn orkumál norðlendinga og kostnaður við að keyra dísilrafstöðvar í vetur. Mjög greindi menn á um hversu kostnaðurinn væri mikill. Voru nefndir margir tugir millj. kr. í aukakostnað. Einnig kom fram í máli Hermóðs Guðmundssonar í Árnesi, að hann taldi ef ég man rétt — ég hef þó fyrirvara á því, en ég held að ég muni það rétt að þessi kostnaður væri á milli 10 og 20 millj. kr. Nú óska ég eftir því við hæstv. iðnrh. — ég óska eindregið eftir því að rn. birti Alþ. raunverulega skýrslu um þennan kostnað. Það er alger óhæfa að menn séu með slíkar tölur út í loftið eins og hér eru nefndar. Ég legg engan dóm á það hvort tölurnar eru nálægt 20, 30 eða 44 millj. En þegar einn þm. nefnir allt að 300 millj. vil ég að hlutlaus rannsókn fari fram á því hvað er hið rétta í málinu. Við heyrum orðið svo mikið um alls konar talnaleik hér á hv. Alþ. að það er lágmark að vita hvað rétt er í þessu efni. Það er algert lágmark. Hér er um svo stórar tölur að ræða að það verður ekki gengið fram hjá því þegar maður heyrir eitt hér á Alþ. og annað í fréttamiðlum og um er að ræða svo gífurlegan mismun eins og hér kemur fram. Það er algerlega óþolandi. Og ég beini þeirri ósk eindregið til hæstv. iðnrh. að hlutlaus athugun fari fram á því, hvað rekstur dísilstöðva kostaði á s. 1. vetri eða hvað er áætlað eftir þessum upplýsingum sem hv. þm. talar um núna, að það muni kosta á næsta ári, og við fáum skýrslu um það.