11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

311. mál, lagning byggðalínu til Norðurlands

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. 6. þm. Norðurl. e. að á því hefur orðið óhæfilegur dráttur, eins og hann komst að orði, óhæfilegur seinagangur að hafist væri handa um lagningu byggðalínunnar. Framkvæmdir við þessa línulögn gátu hafist í sept. á s. l. hausti. Þá var hönnun að vísu ekki að fullu lokið, en þó var það langt komið að hægt var að hefjast handa og það hefði þýtt það að rafmagn hefði komið til Norðurlands fyrir árslok 1975. En á því varð því miður óhæfilegur dráttur og óhæfileg tregða, að ákvörðun um þessa framkvæmd væri tekin af hálfu hæstv. iðnrh., með þeim afleiðingum að við fáum ekki orkuna til Norðurlands fyrr en væntanlega undir árslok 1976. Þessi dráttur mun verða býsna dýr fyrir raforkunotendur um allt land.

Um raforkumálin almennt er það að segja, að um þau er að skapast nokkuð góð samstaða og næstu viðfangsefni liggja nokkuð ljós fyrir. Það er í fyrsta lagi að leggja byggðalínuna svo fljótt sem verða má, í öðru lagi að reisa Kröfluvirkjun án frekari tafa, í þriðja lagi að stofna Norðurlandsvirkjun sem hafi með þessi mál að gera fyrir norðlendinga og í fjórða lagi að taka ákvörðun um stórvirkjun á Norðurlandi. Ég heyri að forráðamenn raforkumála eru hikandi við að taka ákvörðun um að þessi stórvirkjun, sem verði reist á Norðurlandi, verði Dettifossvirkjun. Og ég er ekki hissa á því þótt þeir hiki við. Í fyrsta lagi er vafalaust um að ræða allmikil ísvandamál í sambandi við þá virkjun sem enn sér ekki fyrir endann á. Ég heyri einnig að ráðh. talar um aðrar og miklu stærri virkjanir sem skyggi á þessa virkjun, og það er alveg laukrétt, þar eru menn með stóru virkjunina í huga sem þeir hyggjast reisa á Austurlandi. Þegar þm. norðlendinga tala um að slík virkjun gæti eins komið til greina, þá minni ég á að þar yrði um að ræða Austurlandsvirkjun, en ekki Norðurlandsvirkjun, ef þessi stærri valkostur yrði valinn.

Ég vil, herra forseti, ljúka máli mínu með því að segja það sem mína skoðun, að ég tel að næsta stórvirkjun eigi að vera Blönduvirkjun. Ég tel í fyrsta lagi að hún liggi betur við raforkumarkaðnum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. — Herra forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu, en það er oft erfitt að koma hugsunum sínum að í símskeytastíl á þessum örstutta tíma. — Í öðru lagi er Blönduvirkjun á leið byggðalínunnar og eru það ákaflega mikil rök fyrir Blönduvirkjun. Í þriðja lagi eru þegar komnar býsna margar virkjanir á eldfjallasvæðinu sem liggur þvert yfir Ísland, svo að við bætum ekki enn einni við, heldur ætti nú að vera kominn tími til að reisa stóra virkjun utan eldfjallasvæðisins.