11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

319. mál, trygginga- og skattakerfi

Fjmrh. (Matthías Á Mathiesen) :

Herra forseti. Í framhaldi af skýrslu þeirri sem n. um tekjuöflun ríkisins skilaði fjmrh. á árinu 1973 og hann gerði grein fyrir, var þeim Jóni Sigurðssyni þáv. ráðuneytisstj. í fjmrn. og Benedikt Sigurjónssyni hæstaréttardómara falið að vinna að undirbúningi lagafrv. um tekju- og eignarskatt. Sú vinna var vel á veg komin á s. l. sumri þegar ráðuneytisstjórinn hvarf af landi brott til annarra starfa. Voru mér þá fengnar í hendur hugmyndir að nýjum lögum um tekju- og eignarskatt. Ekki höfðu á því stigi máls verið mótaðar ákveðnar till. um hvernig tengja skyldi bætur almannatrygginga við skattkerfið, en hins vegar hafði á þeirra vegum verið unnið að ýmsum útreikningum sem nauðsynlegir eru í því sambandi. Ekki höfðu heldur verið mótaðar till. varðandi staðgreiðslu opinberra gjalda.

Í samræmi við það, sem ég sagði við 3. umr. fjárl. og kom fram í málefnayfirlýsingu ríkisstj., fól ég nokkrum aðilum að vinna að ýmsum þáttum skattamála og var gerð grein fyrir því í fréttatilkynningu sem fór frá fjmrn. 24. jan. s. l. Þar kom m. a. fram að ég hafði falið 6 mönnum, þeim Guðmundi Magnússyni prófessor, Þorsteini Geirssyni skrifstofustjóra, Guðjóni Hansen tryggingafræðingi, Guðmundi Skaftasyni hrl., Ólafi Davíðssyni hagfræðingi og Þorkell Helgasyni dósent, að kanna og gera till. um hagkvæmar leiðir til að sameina tekjuskatt og þar með núv. skattafsláttarkerfi helstu bótum almannatrygginga. Ég lagði fyrir samstarfshóp þennan að miða sérstaklega við að með slíkri sameiningu mætti ná þeim tekjujöfnunaráhrifum sem almannatryggingum og tekjuskatti er ætlað að ná á hverjum tíma, með skýrari hætti en núgildandi reglur gera kleift, svo og að framkvæmd reglna um sameinaðan tekjuskatt og tryggingabætur geti leitt til sparnaðar í ríkisbúskapnum og orðið einfaldari í framkvæmd fyrir almenning en þær reglur sem nú gilda. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að athuga hvort fært sé að miða álagningu tekjuskatts við heildartekjur einstaklinga og lækka þar með skatt af viðbótartekjum. Þegar í stað verður þó að kanna hvort eigi sé unnt við álagningu skatta á þessu ári að stíga fyrstu skrefin til sameiningar fjölskyldubóta og tekjuskatts. Sérstaka grein yrði og að gera fyrir áhrifum hugsanlegrar sameiningar tekjuskatts og tryggingabóta á kaupgjaldssamninga með beinum og óbeinum hætti.

Verkefni það, sem ég hef hér rætt um sem svar við fsp. hv. þm., er liður í heildarendurskoðun á tekjuöflun ríkissjóðs og innheimtu ríkistekna og hefur fjmrn. í fyrrnefndri fréttatilkynningu gert grein fyrir hvernig fyrirhugað er að haga þessari athugun. Allir þingflokkar tilnefndu þm. til þess að fylgjast með framgangi þessara mála, og vona ég því að till. þær, er frá starfshópum þessum munu koma, verði þm. að verulegu leyti kunnar þegar þær koma til meðferðar þingsins. Á ég von á að fyrstu athuganir verði kynntar þm.-nefndinni á morgun.

Þá er þess að geta að það er skoðun mín að áður en þessu þingi lýkur þurfi að taka ákvörðun um hvort og þá með hvaða hætti farið skuli í framkvæmd staðgreiðslu opinberra gjalda. Það er enn fremur skoðun mín, að það þurfi að taka ákvörðun um það, áður en þessu þingi lýkur, hvort og þá með hvaða hætti stefnt skuli í átt til almenns söluskatts með virðisaukaskattssniði. Til þess að flýta fyrir þessum verkum hef ég veitt ríkisskattstjóra, Sigurbirni Þorbjörnssyni, leyfi frá störfum um þriggja mánaða skeið, þar eð hann hefur sérstaklega tekið að sér að kanna og gera till. varðandi staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þá er og rétt að geta þess, að að undanförnu hafa farið fram viðræður milli aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa ríkisstj. varðandi skattamálin og að hvaða leyti breytingar þar að lútendi gætu stuðlað að farsælli lausn þeirra vandamála sem þar er við að glíma.