11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

148. mál, orkumál Norðurlands

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Fyrir alllöngu bar ég fram á þskj. 274 fsp. til hæstv. iðnrh. er hljóðar svo, með leyfi forseta :

„1. Er það rétt að íbúar Norðurl. e. eigi í heimabyggð niðursetta rafmagnsframleiðsluvél er gæti fullnægt orkuþörf kjördæmisins næstu árin, ef hún væri fullnýtt, og að til fullnýtingar þurfi aðeins nokkurra metra háan stíflugarð í Laxá, stíflugarð er reisa mætti á fáum mánuðum og mundi ekki kosta meira en olían á dísilvélar svæðisins næsta ár?

2. Sé svo, er þá ekki hugsanlegt að hið breytta viðhorf í orkumálum ásamt margvíslegum örðugleikum íbúa svæðisins vegna orkuskortsins hafi skapað grundvöll fyrir endurskoðun samninga um stíflubyggingu, jafnvel stíflu er væri opin að nokkru eða öllu leyti frá vori til hausts eða stíflu er skyldi rifin niður er hinni heilsuspillandi orkukreppu Norðurlands lýkur með rekstri Kröfluvirkjunar.“

Það virðist vera að bera í bakkafullan lækinn að vera nú að tala um orkumál Norðurlands, en stundum sést mönnum yfir og leita langt yfir skammt og þess vegna finnst mér ekki óeðlilegt þó að leitað sé svara við ýmsu í því sambandi.

Í nútíma þjóðfélagi er olíuskortur mjög erfitt vandamál. Þetta kom berlega í ljós hér í höfuðborginni þegar hitaveitan var ótrygg árum saman, þegar íbúðir snöggkólnuðu í vissum borgarhlutum um leið og kólnaði úti. Þetta olli ekki einungis efnahags- og atvinnuörðugleikum, heldur hafði snöggkæling íbúða mjög slæm áhrif á heilsufar fólks, einkum barna og gamalmenna. Þeir, sem bjuggu við orkuskortinn hér syðra, skilja örugglega betur en flestir aðrir örðugleika norðlendinga á undanförnum árum og áhuga íbúa þess svæðis á því að fá örugga íbúðahitun sem allra fyrst. Og vegna þess að hér á hinu háa Alþ. hefur verið að því vikið og það alloft að við hér syðra fengjum okkar virkjanir á færibandi, en þeir nyrðra hefðu verið settir hjá og allt gengi á tréfótum varðandi þeirra orkuöflun, þá hef ég hug á því að það upplýsist með svari hæstv. ráðh. við fyrri hluta fsp. minnar hvort orkuskortur norðlendinga stafi einungis af því að þeir hafi verið settir hjá eða hvort hann stafi e. t. v. að einhverju leyti af því að þeir hafa vegna innbyrðis ósamkomulags ekki átt þess kost að fullnýta þá virkjun sem gerð var hjá þeim.

Varðandi 2. lið fsp. minnar vil ég segja þetta: Meiri hl. heims stendur á öndinni vegna orkuverðs, orkuskorts og áhyggna vegna orkuöflunar framtíðarinnar. Atvinnuhættir heilla heimsálfa eru í vanda vegna orkuverðs. Milljónir svelta vegna þess að það fjármagn, sem fara átti til matvælakaupa, fer nú til orkukaupa. Orkuvandinn setur sinn svip á umr. flestra þinga. Allir hafa hug á því að fullnýta eigin orkugjafa. Það hefur löngum verið haft á orði að landið okkar væri fábreytt að auðlindum. Auk huga og handa má segja að það sé gróður landsins, fiskimiðin við strendurnar og orka fallvatna og í iðrum jarðar er gera byggð hér mögulega. Nú er svo komið að gróðurlendi okkar er fullnýtt eða ofnýtt, fiskimiðin eru fullnýtt eða ofnýtt, en orkan er vannýtt, enda þarf til hagnýtingar hennar mikið fjármagn, mikinn tíma og mikla tækni.

Þegar svo er ástatt sem ég nú hef lýst er okkur að sjálfsögðu nauðsynlegt að flýta sem mest virkjunum og ekki síður að fullnýta þær virkjanir sem gerðar hafa verið með ærnum kostnaði og tíma. Virkjunin við Laxá er ekki fullnýtt. Það hefur verið gert samkomulag um að fullnýta hana ekki. Síðan það samkomulag var gert hafa aðstæður gerbreyst. Samkomulagi má breyta ef báðir aðilar eru ásáttir um breytinguna. Og nú þegar norðlendingar hafa árum saman búið við tilfinnanlegan orkuskort er veldur þeim ómældu efnahags- og atvinnutjóni ásamt heilsufarslegu öryggisleysi, þá á ég bágt með að trúa því að ekki megi finna leið til úrbóta er báðir aðilar geti unað við.

Ég er ekki hér að ásaka einn eða neinn vegna framvindu mála við Laxá, en ég lít svo á að aðilar hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna. En það hefur komið í ljós að hér hefur skeð meiri háttar slys með afleiðingum er líkja má við afleiðingar náttúruhamfara.