11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

148. mál, orkumál Norðurlands

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér finnst þessi viðbrögð hv. þm. norðlendinga furðuleg, einkennileg. Þó að þið sprengduð álverksmiðju í dag munduð þið verða jafnrafmagnslausir á Akureyri næsta vetur. Það er rétt, ég þekki ekki viðhorf bænda í Þingeyjarsýslum, en ég þekki hins vegar allmargt af fólki, sem býr á Akureyri, og veit hvernig ástrand er þar á vetrum. (Gripið fram í.) Já það er rétt og þetta láta þm. bjóða sér.

Ég veit ekki betur en bæði núv. og fyrrv. ríkisstj. hafi farið fram á endurskoðun á samningum sem íslenska ríkið gerði við hið erlenda auðfélag. En að það megi ýja að því að fara fram á endurskoðun samningsins, sem gerður hefur verið við landeigendur í Þingeyjarsýslu, það er eins og það sé einhver hrópleg synd. Hvers lags vit er í þessu? Það hefur enginn talað um að byggja 57 m stíflu eða Gljúfurversvirkjun. En ég held að það sé örugglega rétt að bændur hafi sjálfir, landeigendur þarna við Laxá, samþykkt að bjóða 18 m stíflu og Laxárvirkjunarstjórn hafi ekki þegið það og síðan hafi verið veitt hundruð millj. í að byggja stærri virkjun og stærri vélar en þörf var fyrir. Á allan handa máta er þetta mál ósköp óeðlilegt. Hins vegar ef bændur hafa einu sinni boðið fram 18 m stíflu, þá sé ég ekki annað en grundvöllur sé fyrir því að taka upp samninga á ný þegar ný viðhorf hafa skapast. Ég held að þarna sé einhver misskilningur. Ég var ekki að tala um lagabreytingu eða þröngva neinu upp á neinn, heldur að það yrði leitað samkomulags á ný, og tók fram í minni framsöguræðu að samkomulagi mætti að sjálfsögðu breyta ef báðir samningsaðilar væru því samþykkir.