11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

148. mál, orkumál Norðurlands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er ekki möguleiki á því að bæta miklu við þetta, en það var út af tilteknum orðum hv. fyrirspyrjanda sem mig langar til þess að standa hér upp öðru sinni.

Það kom fram hjá honum það sem mér hefur virst ganga í marga, að Laxárdeilan svokallaða hafi verið deila á milli akureyringa og þingeyinga. Ég ætla nú hér úr ræðustól á Alþ. að leyfa mér ekki einungis að bera brigður á þetta, heldur halda því fram að svo er ekki. Það hefur verið gerð, eins og ég sagði áðan, þegar ég greip fram í fyrir ræðumanni, hv. fyrirspyrjanda, það hefur verið gerð tilraun til að „löggilda“ tiltekna skoðun á þessu máli sem ætti eins og að vera skoðun akureyringa. En ég fullyrði að það er ekki hægt að tala um neina slíka ákveðna skoðun akureyringa, að þeir vilji virkjun í Laxá eða krefjist virkjunar eða eitthvað slíkt. Það eru nokkrir tilteknir menn, sem þetta vilja. En ég er alveg sannfærður um að ef farið væri að skoða hug og hjarta akureyringa almennt, þá eru þar kannske miklu fleiri sem síst af öllu vilja standa í því að vekja upp þetta mál, og menn vita að það eru margir aðrir möguleikar og raunsærri til þess að bæta úr orkuskorti en að standa í þessu jagi um Laxá sem stóð lengi fyrr, en er nú búið að setja niður með sérstöku samkomulagi. — Þetta vil ég að komi alveg skýrt fram.