11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

324. mál, vanskil á stofnlánum hjá Fiskveiðasjóði Íslands og Byggðasjóði

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Á þskj. 266, lið 2, ber ég fram svofellda fsp. til hæstv. sjútvrh.:

„a. Hver voru vanskil togara við Fiskveiðasjóð Íslands og Byggðasjóð 1.jan. 1975?

b. Hvernig skiptast vanskilin eftir kjördæmum?“

Það hefur komið fram í fréttum og viðræðum við bæði eigendur og forsvarsmenn togara, að miklir erfiðleikar séu í þessum rekstri, og a. m. k. einn af nýju togurunum er til sölu erlendis hvað sem líður fregnum um útboð á öðrum. Einnig er það mjög hvimleitt, að uppgjör við háseta gengur afar seint og þunglega og eiga sumir inni margar veiðiferðir hjá vissum útgerðarfyrirtækjum, og undan þessu er mjög kvartað. Þess vegna lék mér forvitni á að vita hvernig staða þessara skipa væri við aðallánasjóðina tvo. Ég vænti þess, — þetta er ekki flókið mál, — að það komi glögglega í ljós, hvernig staðan hefur verið um áramótin, þrátt fyrir það að maður geti búist við, miðað við tóninn í forsvarsmönnum þessara manna, að heldur hafi þyngst róðurinn, því að þeir hafa eindregið sagt að gengisfellingin hafi mjög þrengt að þeim, þrátt fyrir það að hér hefur verið talað um að hún ætti að létta reksturinn.