11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

324. mál, vanskil á stofnlánum hjá Fiskveiðasjóði Íslands og Byggðasjóði

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, taka það fram að stofnlánasjóðirnir, fjárfestingarlánasjóðirnir, eiga allir í miklum erfiðleikum með fé til að lána og þá ekki síst Fiskveiðasjóður, sem er langstærsti atvinnumálasjóðurinn. Þar er ástandið þannig, að það er búið að setja á hann skuldbindingar fram í tímann þannig að hann verður að standa undir erlendum lánum vegna togarakaupa sem munu nema á þessu ári á annan milljarð kr. Hann verður að standa undir þeirri innlendu skipasmíði sem þegar er farin af stað, en sú upphæð ein er, að mig minnir, um 1100 millj. kr. Það er mikið vandamál, sem hér er við að etja, eins og fyrirspyrjandi gat réttilega um. Ég er auðvitað allur af vilja gerður að sjá til þess að Fiskveiðasjóður fái sem mest lánsfé. Fiskveiðasjóður er þó einn af sterkustu stofnlánasjóðum okkar því að hann hefur eigið ráðstöfunarfé um 900 millj. kr. Við verðum auðvitað að draga saman, en það þýðir ekki að draga saman þar sem slíkar skuldbindingar hvíla á sjóðum, eins og ég hef þegar lýst, hvað þessar tvær greiðslur snertir til Fiskveiðasjóðs.

Út af útgerðarlánum vil ég taka fram vegna þess sem fyrirspyrjandi sagði að þar hefur ekki versnað staða eða magn í rekstrarlánum því að útgerðarlánin hækkuðu í sept. s. l. um 50%. Hins vegar tek ég undir það með honum, að að mínum dómi eru útgerðarlaunin allt of lág, en þá höfðu þau ekki heldur breyst í langan tíma á undan þrátt fyrir mikla verðrýrnun peninga. Hitt er rétt, að síðari gengislækkunin hefur ekki leitt af sér neina breytingu á útgerðarlánum.

Í síðasta lagi vil ég vekja athygli á því að það er verið að lengja lán og vinna nú að því að breyta vanskilaskuldum og lausaskuldum útvegsins í lán til nokkurra ára. Þessi afgreiðsla stendur nú yfir í báðum viðskiptabönkum í samstarfi við Seðlabankann og í þetta var farið að undirlagi sjútvrn. Það er tiltölulega nýbyrjuð afgreiðsla og í dag, einmitt á þessum tíma, er einn fundurinn þar sem átti að taka fyrir allmörg mál, svo að ég geri ráð fyrir að hér verði um að ræða afar þýðingarmikla ákvörðun fyrir sjávarútveginn í heild. Þetta er ekki fyrir bátana eingöngu, heldur einnig fyrir vinnslustöðvarnar. Ég tel að hér hafi verið unnið að mjög mikilvægu máli til þess að koma lausaskuldum útvegsins, að svo miklu leyti sem það er hægt, öllum skuldum innan bankanna og skuldum þjónustufyrirtækjanna í viðkomandi bönkum í lán til nokkurra ára. Þetta skapar auðvitað ólíkt betri rekstrarstöðu hjá sjávarútveginum.