11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

327. mál, vetrarvegur um Breiðdalsheiði og tenging Djúpvegar við þjóðvegakerfi landsins

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir skýr svör. Það kom fram í svari hans að sú áætlun, sem gert er ráð fyrir í 42. gr. heilbrigðislaganna, hefur ekki verið gerð og þarf kannske ekki að undra það. En við hljótum að leggja áherslu á að þessum málum sé haldið vakandi, og eins og ég benti á áðan finnst mér þessi 42. gr. gera ráð fyrir ákaflega nauðsynlegum og í rauninni sjálfsögðum hlutum sem horfa til bætts öryggis í okkar heilbrigðisþjónustu.

Það er samkv. 44. gr. sérstakur sjóður, Læknishéraðasjóður, sem stundum er kallaður tækjasjóður, sem á að búa lækna allsæmilega að tækjum. Í könnun, sem hefur verið gerð á þessu nýverið, kom í ljós að tækjakostur héraðslækna úti um land er viða ákaflega bágborinn, og var tekið til þar að Vestfirðir væru lakast settir í þeirri upptalningu. Það var gerð skrá yfir heilbrigðisþjónustu- og læknistæki, sem væru á staðnum. Þarna eru auðvitað feiknalegir fjármunir annars vegar, því að tæki öll hafa hækkað í verði eins og annað. En mjög jákvætt er það atriði l., sem kemur fram í 44. gr., að þar sem læknar eru ekki í starfi lögum samkv., þ. e. a. s. í læknislausum héruðum, eiga laun læknisins, sem ekki hefur fengist, að renna í þennan sjóð og hlynna að viðkomandi héruðum eftir föngum og á þeim sviðum þar sem helst er þörfin.

Það kom fram í svari hæstv. ráðh. viðvíkjandi 3. liðnum, að Póstur og sími telja að það hafi verið fyrir hendi frá upphafi að tengja sérstakt neyðarkerfi úti um sveitir landsins. Ég hygg, ef oddvitum almennt er ekki kunnugt um þetta ákvæði, að þá væri verðugt verkefni fyrir landlækni að benda oddvitum úti um sveitir landsins á að mögulegt er að fá þessa nauðsynlegu þjónustu ef þeir bera sig eftir henni. Og eins og ég sagði áðan, ég er alls ekki viss um, að sveitarstjórnum almennt úti um land sé kunnugt um þetta ákvæði.

Það gladdi mig að heyra,að það vantar aðeins 2 lækna í læknishéruð úti um landið eftir því sem hæstv. ráðh. upplýsti. Hann nefndi Flateyri og Kópasker, sem hefðu í nóv. s. l. verið læknislaus og eru það enn að ég best veit. Hæstv. ráðh. benti og á, og því ber saman við það sem landlæknir sagði mér, að útlit væri fyrir að læknaskorturinn yrði brátt úr sögunni með feiknalegri fjölgun lækna nú alveg á næstunni. Ég veit að við þurfum ekki að kvíða því að á sumri komanda verði nokkurs staðar læknislaust á Íslandi. En það leysir ekki aðalvandann, þó að við fáum unga og spræka lækna til þess að vera úti í héruðunum um sumarið. Það er um vetrarmánuðina sem mestu máli skiptir að læknar séu á sem flestum stöðum og alls staðar þar sem ráð er fyrir gert. Og það er þetta sem ég treysti að komi ekki fyrir aftur með okkar vaxandi læknafjölda nú, að það renni upp annar vetur þar sem fólk einangrast af snjóum og illviðrum 3–4 mánuði ársins. Við vitum ekki hvenær slíkt ástand getur leitt af sér hörmuleg slys og vandkvæði, sem það raunar hefur gert nú þegar. En þarna tel ég að við þurfum að beita okkur hvað mest, að reyna að leggja ekki svo upp á veturinn, að nokkurt afskekkt hérað á Íslandi hafi ekki læknisþjónustu sæmilega tiltæka.