11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

327. mál, vetrarvegur um Breiðdalsheiði og tenging Djúpvegar við þjóðvegakerfi landsins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess til að fyrirbyggja misskilning hjá hv. fyrirspyrjanda í sambandi við þjónustu Pósts og síma, að ég sagði frá því sem upplýsingum landlæknis, að Póstur og sími hafi frá upphafi verið boðinn og búinn til að koma fyrir neyðarkerfi, svo sem bjöllum og tilheyrandi, við ósjálfvirkar símstöðvar að kostnaðarlausu. Oddvitum er síðan í sjálfsvald sett að semja við viðkomandi stöðvarstjóra um gegningu. Póstur og sími greiðir þeim ekki, stöðvarstjórunum, fyrir þessa þjónustu. Það verða sveitarfélögin að gera samkv. þessum upplýsingum. Það var aðeins út af þessum orðum, að ég vildi að hér yrði ekki misskilningur um þetta.

Ég verð að segja það, að á undanförnum árum hefur orðið gífurleg breyting á þjónustu lækna við landsbyggðina, þó að enn þá skorti þar á. Fram undan eru mjög mikil verkefni, sem kosta milljarða kr. En allir eru sammála um að hin mikla aukning nú á læknum verði til þess að héruð verði ekki læknislaus um fyrirsjáanlega framtíð, enda sést það á þeirri upptalningu, sem ég gerði hér áðan, að það vantar ekki lækna nema í tvö héruð, en það er auðvitað engin framför fyrir þessi tvö héruð frá því sem áður var. Þau njóta þar af leiðandi jafnlítillar og ómögulegrar þjónustu og oft áður, því að þarna er erfitt fyrir nágrannalækna að komast á milli og í raun og veru er þetta fremur lítils virði yfir sumarmánuðina þegar eru ekki nema nokkrar mínútur til næsta læknis að aka. Landlæknir hefur auglýst þessi héruð. Hann hefur reynt að fá menn í þessi héruð, sérstaklega að haustinu og yfir vetrarmánuðina, og við skulum vona að betur takist til að hausti heldur en nú á þessum vetri og á næsta vetri verði ekkert læknishérað læknislaust.