11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

325. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessari fsp., sem vissulega er nokkuð yfirgripsmikil, vil ég leyfa mér að svara þannig:

„1. Hver er, að mati menntmrn., árleg kennaraþörf grunnskólans næsta áratug?“ — Þörf á brautskráðum kennurum vegna skyldunámsins á ári hverju er talið að liggi á milli 50 og 70 kennara og auðvitað vaxandi eftir því sem árin líða. Það er örðugt um vik að svara þessu nákvæmlega, m. a. vegna þeirrar sveigju um framkvæmd grunnskólalaganna, sem grunnskólalögin sjálf leyfa, og einnig vegna töluverðrar óvissu sem alltaf er um það hversu margir kennarar hætta fyrir fullt og allt árlega af öðrum ástæðum en fyrir aldurs sakir.

„2. Hvað er áætlað að Kennaraháskóli Íslands útskrifi marga kennara frá vori 1974 og næstu 4 ár?“ — Dr. Broddi Jóhannesson rektor Kennaraháskóla Íslands gefur um þetta eftirfarandi upplýsingar, sem ég ætla að leyfa mér að lesa:

„Beint svar við fsp. er um 115 brautskráðir kennarar alls á árunum 1974–1977 þegar allt er talið. En sú tala ein sér heimilar engar ályktanir um sennilegan fjölda brautskráðra kennara á næsta áratug eða í framtíðinni yfirleitt, heldur nær þetta aðeins til þessara ára sem hér voru greind. Hlutfall kvenna og karla er um 8 á móti 5 í þessum hópi. Fjöldi þessi er ályktaður af skráningu kennaranema, en hún hefur verið þannig: 1971 9 stúdentar, 1972 30 stúdentar, 1973 27 stúdentar og 1974 70 stúdentar.“

Þá segir dr. Broddi enn fremur: „Með því að fyrsta spurning alþm. varðar áætlaða kennaraþörf næsta áratug, þá þykir mér rétt að tilgreina einnig sennilegan fjölda brautskráðra kennara á þeim tíma, en hann er 575 og skiptist sem hér segir á fyrri og síðari helming áratugsins: Árin 1974–1978, bæði ár meðtalin, 185 kennarar, meðalfjöldi á ári 37 kennarar, og árin 1979–1983, bæði ár meðtalin, 390 kennarar, meðalfjöldi á ári 78 kennarar. Auk þeirra sem ljúka á ári hverju kennaraprófi, má ætla að 30-60 hið fæsta muni stunda sérnám ýmislegt ár hvert í Kennaraháskóla Íslands, en þeir eru flestir starfandi kennarar fyrir.“

Þetta er álit dr. Brodda varðandi 2. lið.

„3. Hversu margir er ætlað að komi til starfa á grunnskólastigi?“ — Um það segir dr. Broddi:

„Við þessari spurningu munu einhlít svör torfengin, en ætla verður að þeir, sem leggja út í þriggja ára sérnám, hyggist neyta þeirra réttinda sem það veitir, og mun því allur þorri þeirra stefna að því að kenna við grunnskóla.“

„4. Hvað líður störfum n., sem skipuð hefur verið til að endurskoða lög um Kennaraháskóla Íslands“ o. s. frv. Minnt er á ákvæði l., þau skuli endurskoðuð að tveimur árum liðnum frá gildistöku þeirra. Þessu er því til að svara, að „n. hélt fyrsta fund sinn 29. nóv. 1972. N. leit svo á, að ekki yrði ótvírætt skorið úr því með formlegum rökum, hvort ákvæði 25. gr. l. skuli túlkuð svo, að endurskoðunin skuli hafin eða henni eigi að ljúka fyrir áðurgreindan skiladag, 16. apríl 1973. N. leit svo á, að ekki yrði ótvírætt skorið úr því með formlegum rökum, hvort ákvæði 25. gr. l. skuli túlkuð svo, að endurskoðunin skuli hafin eða henni eigi að ljúka fyrir áðurgreindan skiladag, 16. apríl 1973. N. var ljóst, að torsótt var að ljúka endurskoðun á settum fresti, ekki síst vegna þess að margs konar breytingar voru að gerast í skólamálum hérlendis sem skylt var að hafa til hliðsjónar þegar kennaramenntun skyldi skipulögð. Af miklu er að taka, en bent skal á nokkur atriði. Þegar n. hóf starf sitt, var a) löggjöf um grunnskóla í smíðum, b) endurskoðun á námsskrám fyrir greinar skyldustigs hafin eða í undirbúningi, e) frv. til l. um kennararéttindi í smíðum, d) skólanefnd Kennaraháskóla í vændum, sbr. 2. gr. 2. tölul.l. nr. 38/1971, um Kennaraháskóla Íslands, e) reglugerð Kennaraháskólans í smíðum, f) námsskrá hinna ýmsu greina skólans einnig í smíðum, g) fyrsti árgangur í kennaranámi hinu nýja á öðru ári námsins, reynsla af löggjöfinni því lítil sem engin. — Á fundum sínum hefur endurskoðunarnefndin einkum fjallað um meginsjónarmið, er kennaramenntun varðar, heimspekilegar, siðfræðilegar og félagslegar forsendur ákvarðana með hliðsjón bæði af kenningum í uppeldisvísindum og reynslu samtíðar.“ — Þetta er það sem dr. Broddi Jóhannesson hefur að segja um það hvað störfum n. liði.

Þá er loks hér í síðasta lagi spurt þannig: „Hver er framtíðarstefna yfirstjórnar menntamála að því er varðar kennaramenntun í landinu?“ — Í sambandi við þessa spurningu verður að minna á það, sem ég var að enda við að segja, að n. starfar nú við endurskoðun l. um Kennaraháskóla Íslands að fenginni nokkurri, en ég vil segja enn þá mjög stuttri reynslu af nýbreytingunum frá 1971. Mér finnst þess vegna að það sé mjög eðlilegt að stjórnarvöld og t. d. menntmrh. bíði um sinn með beinar yfirlýsingar eins og þá sem hér er óskað eftir. Hins vegar vil ég skýra frá því, að n. hefur orðið sammála um hlutverk Kennaraháskóla Íslands í eftirfarandi atriðum: „a) Skólinn annast uppeldis- og kennslufræðilega menntun allra kennara á skyldunámsstigi og í öllum skólum á framhaldsskólastigi, b) skólinn annast fullmenntun kennara á skyldunámsstigi í öllum þeim greinum, sem kenndar eru við skólann, c) skólinn skal vera miðstöð vísindalegra rannsókna í uppeldis- og kennslufræðum og búa stúdenta undir háskólapróf í þessum greinum, og d) skólinn skal í samvinnu við menntmrn. annast endurmenntun og viðbótarmenntun kennara. — Enn fremur er n. sammála um að vinna beri að samhæfingu kennaramenntunar á öllum kennslusviðum grunnskóla á þeim grundvelli að sérhver námsgrein teljist fullgildur þáttur í uppeldislegu hlutverki skólans.“

Herra forseti. Þá hef ég lokið að svara þessari fsp.