11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

325. mál, Kennaraháskóli Íslands

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að fá það staðfest í svörum hæstv. ráðh. að sú stefna, sem ég hafði í málefnum Kennaraháskólans á sínum tíma, hefur átt við mikil rök að styðjast. Ég áleit að sú stefna, sem þá var tekin upp, væri röng stefna, það væri tekið allt of stórt stökk frá kennaramenntuninni sem áður var. Ég vil taka það fram að það mátti gjarnan bæta menntun kennara, það mátti sérstaklega bæta starfsþjálfun þeirra, enda er raunin sú, að þrátt fyrir aukningu í námi þeirra hefur starfsþjálfunin ekki aukist að sama skapi. Hún er enn þá í algeru lágmarki.

Ástæðurnar fyrir því stóra stökki, sem tekið var, voru aðallega hin mikla ásókn í Kennaraskólann, of mikil aðsókn að menn töldu, og í öðru lagi kröfur kennaranna sjálfra, starfandi kennara, byggðar á von um að laun þeirra mundu batna við að fá menntunina færða upp á hærra stig. Hvort tveggja var auðvitað mikill misskilningur, og ég gleðst yfir því enn í dag að hafa verið einn þriggja manna á aðalfundi Sambands ísl. barnakennara, sem voru andvígir þessari stefnu með öllu. Útkoman er vitanlega þessi: Það eru sárafáir sem útskrifast til starfa fyrir skyldunámsstigið, fyrir grunnskólastigið, eftir að meira að segja er búið að útvíkka það stórum frá því sem það var, þegar þessi lög voru sett um Kennaraháskólann. Það verða útskrifaðir 30 –40 næstu árin og helmingurinn af þeim fer svo auðvitað í sérnám, sérhæfir sig enn þá frekar, 15–20 fara í störf, og þá sjáum við glögglega, hver verður hlutur landsbyggðarinnar í kennarafjöldanum næstu árin og hvernig landsbyggðinni gengur að manna sína skóla, sem nú þyrfti einmitt að gera mjög vel í framhaldi af samþykkt grunnskólalaganna. Það er stutt reynsla, sagði hæstv. ráðh., af þessu fyrirkomulagi. Sú reynsla verður býsna dýrkeypt fyrir landsbyggðina, og ég vona að hæstv, ráðh. sjái svo til að þessi lög verði endurskoðuð, þótt það þyki spor aftur á bak.