12.03.1975
Efri deild: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil reyna að svara í örfáum orðum nokkru af því, sem hér hefur komið fram. Þó vil ég, áður en ég kem að efnislegum þáttum málsins, lýsa því, að mig furðar á þeirri málsmeðferð sem hv. þm. Stefán Jónsson hefur þegar hann ræðir um það sem ég og aðrir eiga að hafa sagt. Satt að segja tel ég það vítavert, hvernig hann hefur farið með þá þætti.

Hann sagði t. d., að ég hefði fullyrt að framkvæmdastjóri hefði verið ráðinn að fyrirtækinu. Ekki man ég reyndar glöggt, hvernig orð voru nákvæmlega, en mig minnir að ég hafi sagt eitthvað á þá lund, að væntanlegur framkvæmdastjóri væri hér á ferðinni. Aðalatriðið er hins vegar það, að það kom fljótlega í ljós að þetta misskildist, þegar hv. þm. Albert Guðmundsson á nefndarfundi spurði nánar um það, og ég gerði þá grein fyrir því, hvernig þessu máli er háttað. Ég gerði grein fyrir því, að viðræðunefnd um orkufrekan iðnað hefur talið æskilegt að fá erlendan, tæknifróðan mann á þessu sviði til þess að vera um stund tæknilegur framkvæmdastjóri verksmiðjunnar. Þetta er ekki nýtt. Ég vil benda t. d. á það, að þegar Áburðarverksmiðjan hf., núv. Áburðarverksmiðja ríkisins, hóf að starfa, þá var þetta gert. Union Carbide benti á mann, sem kemur til greina og stjórn verksmiðjunnar mun að sjálfsögðu ákveða hvort hún ræður, ef af verksmiðjunni verður. Þetta viðurkenndi raunar hv. þm. Hins vegar byggði hann allan sinn málflutning á því, sem misskilið var þá, augsýnilega á fyrstu orðum mínum og reyndi að gefa til kynna að ég hefði sagt að framkvæmdastjóri væri ráðinn. Ég vil andmæla svona málflutningi.

Ég sagði heldur aldrei, að það væri gersamlega ástæðulaust að framkvæma líffræðilega athugun. Ég lýsti þeirri skoðun minni að það væri ekki ástæða til þess að framkvæma slíka líffræðilega athugun í þessu sambandi. Jafnframt lagði ég á það áherslu, að ég teldi æskilegt, að það væri hin almenna regla, en það væri gersamlega ástæðulaust hef ég aldrei sagt. Og ætlar hann virkilega að standa á þeirri fullyrðingu sinni að ungur menntamaður, sem lagt hefur mikla vinnu í þetta, verkfræðingurinn Eyjólfur Sæmundsson, sitji nú við það að setja Ísland í stað Bandaríkjanna í ameríska staðla? Ætlar hann virkilega að láta þetta birtast án þess að það verði leiðrétt? Ég vona að hann verði maður til að taka aftur slík ummæli við þessa umr. Ég veit að sá ungi maður vinnur mjög ötullega að því að kynna sér alla þætti þessa máls, er m. a. nú í Noregi til að kynna sér málið, mun eiga þar fundi með norskum aðilum á þessu sviði. Það verður líklega næst upplýst, að hann sé að setja inn í staðinn fyrir Noreg Ísland í þá staðla sem norðmenn eru að gera um sinn málmblendiiðnað. Nei, ég ber fullkomið traust til þessa manns, og ég hélt satt að segja að hv. þm. gerði það einnig.

Fleira slíkt gæti ég rakið, en ég vil ekki vera að þreyta hv. þm. á pexi um þetta, heldur snúa mér að málefnalegri hlið málsins. Ég læt hér nægja að lýsa vonbrigðum mínum með þennan málflutning, ekki síst þar sem þetta er stundum og æðioft gert um leið og vitnað er í vinskap.

Hv. þm. rengdi það áðan, að ég hafi farið rétt með úr bréfi fyrrv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar. Bréf þetta var skrifað 21. maí 1974, og þar sem ég heyri, að hv. þm. er enskan töm, þá ætla ég að lesa þetta hér á ensku. Hann segir þar:

„First of all can I confirm to you, that the government and myself are of the opinion that the terms and conditions negotiated with you were acceptable in all principal aspects and we had, and still have a strong and continued interest in the implementation of the project at an early date.“

Ég veit, að hv. þm. skilur þetta mjög vel, þó skal ég fara yfir þetta lauslega á íslensku: „Fyrst og fremst vil ég staðfesta við yður, að ríkisstj. og ég sjálfur erum þeirrar skoðunar, að skilyrði þau, sem samið var um við yður, séu viðunandi — (acceptable), geti orðið samþ. í öllum meginatriðum — og við höfum enn sterkan og áframhaldandi áhuga á því, að verkefnið verði framkvæmt fljótlega.“

Hann segir svo í lok þessa bréfs:

“We can now only hope, that this matter can be taken up speedily following the forthcoming election.“

En hann hefur jafnframt í bréfinu gert grein fyrir því, að fram undan séu kosningar og því geti hann að sjálfsögðu ekkert sagt um það, hvað taki við á eftir. En hann lýsir þarna þeirri von sinni að þetta verði tekið upp fljótt þegar eftir væntanlegar kosningar.

Ég held, að þarna fari ekkert á milli mála og mér sýnist að það, sem ég sagði áðan, standist fyllilega við það, sem ég hef nú lesið úr bréfinu sjálfu.

Raforkumálin voru ekki mikið rædd, en þó vil ég mótmæla því, að nokkurn tíma hafi komið fram hjá nokkrum manni, sem raforkumálin hefur rætt, hvorki stjórnarsinna, stjórnarandstæðingi né sérfræðingi, neikvæð afstaða til þess að bæta úr raforkuþörf landsmanna. Ég varð ekki var við annað en allir þm., m. a. hv. þm. Stefán Jónsson og allir þm. í iðnn., hafi lagt á það höfuðáherslu að kanna sem best þetta atriði. Þess vegna fagna ég, að iðnn. fékk með litlum fyrirvara nýtt yfirlit frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, sem að mínu viti bætir mjög úr þörf um upplýsingar af þessu sviði og svarar spurningum sem brunnu á mér áður en þetta kom, þótt ég hefði kynnt mér þetta mál vel. Ég fagna því, að þar koma frá sjálfstæðum aðila skoðanir, sem sannarlega styðja það að þessi verksmiðja mun ekki draga úr raforku sem fáanleg er til annarra þarfa, sem við viljum sannarlega allir bæta úr. Og ég varð raunar ekki var við það að hv. þm. treysti sér til að vefengja þær upplýsingar, sem liggja fyrir skriflega frá þessari Verkfræðistofu eða frá Landsvirkjun um raforkuverðið.

Hv. þm. ræddi mikið um náttúruvernd, enda hefur hún mjög verið til umr. á fundum n. M. a. ræddi hann enn um bréf Náttúruverndarráðs og las eitt bréf til viðbótar sem Náttúruverndarráð skrifaði iðnrn. Ég gat að vísu um það. Ég vil aðeins undirstrika það sem kom fram í þeim lestri, að í því bréfi leggur Náttúruverndarráð ekki til að fari fram líffræðileg athugun á umhverfi verksmiðjunnar í Hvalfirði áður en ákvörðun er tekin um byggingu hennar. Þó er þetta bréf skrifað 27. jan. 1975, eftir að líffræðistofnun Háskóla Íslands skrifar Náttúruverndarráði og fer fram á að slík athugun verði gerð. Ég þarf ekki að lesa bréfið aftur, það hefur verið lesið og liggur hér frammi. Þar er ekki minnst á slíkt. Ég hef einnig hér undir höndum fundargerð 177. fundar Náttúruverndarráðs 23. jan. 1975. Þar kemur ekki fram nein slík samþykkt. Þó mun hv. þm. eflaust kannast við það, að hann taldi á fundi iðnn. að svo hefði verið. Ég ætla ekki að lengja þetta með því að lesa hana upp. Hins vegar skal ég afhenda hv. þm. þessa fundargerð ef hann óskar þess. Ég tel, að Náttúruverndarráð hafi haldið mjög eðlilega á þessu máli. Í þeim lögum um náttúruvernd, sem ég las áðan, 29. gr., kemur greinilega fram, að Náttúruverndarráði ber að fylgjast með hönnun verksmiðjunnar og með bréfi Náttúruverndarráðs fá 27. jan. s. l., er Náttúruverndarráð að undirstrika þessa skyldu sína. Það vill fullnægja þessari skyldu laganna. Og iðnrn. hefur með milligöngu n., sem hæstv. iðnrh. hefur skipað til þess að fylgjast með tæknilegum undirbúningi þessarar verksmiðju þar til stjórn hennar er komin á fót ef samþ. verður, gert ráðstafanir til þess að Náttúruverndarráð fái að fylgjast með öllum undirbúningi að hönnun þessarar verksmiðju.

Ég vil einnig mótmæla því, að viðræðunefnd um orkufrekan iðnað hafi mistúlkað bréf Náttúruverndarráðs. Það stendur skýrum stöfum á síðu 18 í frv. til l. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, að viðræðunefndin hefur leitað umsagnar Náttúruverndarráðs um staðarval verksmiðjunnar. Það stendur ekkert annað en þetta. Þetta er eini staðurinn, þar sem á þetta er minnst: „Um staðarval verksmiðjunnar:“ Sjálfur notaði hv. þm. einmitt þetta orð a. m. k. tvisvar sinnum: staðarval. Leitað var umsagnar um staðarval. Það kom fram í bréfinu, sem ég las áðan og sé ekki ástæðu til þess að lesa og ætla ekki að fara að endurtaka hér. Viðræðunefndin vísar hvergi annars staðar til þessa bréfs.

Hv. þm. gerði að töluverðu umræðuefni kvaðningu Agnars Ingólfssonar prófessors á fund iðnn. Ég vil segja hv. þm. það, og raunar var ég búinn að skýra frá því, að ég ræddi við Agnar Ingólfsson mjög snemma við meðferð málsins. Ég hef hins vegar litið svo á og lít svo á enn, að Náttúruverndarráð sé eðlilegur aðili í þessu sambandi. Ég taldi því eðlilegt og reyndar vænti þess, að líffræðingur úr röðum Náttúruverndarráðs yrði með á þeim fundi, sem fulltrúar Náttúruverndarráðs mættu á. Svo varð því miður ekki. Og það var eftir það, að ég taldi eðlilegt að Agnar Ingólfsson mætti á fundi n. Ég held, að það hafi ekkert farið á milli mála. Ég fagna því, að prófessor Agnar Ingólfsson mætti á þeim fundi og gaf mjög athyglisverðar upplýsingar um álit sitt á þessum líffræðilegu rannsóknum og hvernig þær fara fram. Ég er fróðari eftir. Hins vegar vil ég benda á það t. d., að prófessor Agnar var spurður að því, hvort í þeim mikla aragrúa af ritum sem hann hefur að sjálfsögðu kynnt sér um líffræði vissi hann um nokkurt rit á þessu sviði. Hann kannaðist ekki við neitt. Veit ég, að hv. þm. man eftir þessu. Þetta kom fram. Og það er dálítið furðulegt, ég verð að viðurkenna það, að í skrá yfir um 40 eða 50 rit, sem fylgir skýrslu umhverfisverndarráðs Bandaríkjanna, er ekki eitt einasta rit um líffræðilega rannsókn á þessu sviði. Sú spurning hvarflar að mér, hvort ekki sé það rétt, sem forráðamenn Statens forureningstilsyn í Noregi sögðu þegar ég spurði þá um slíkt rit, að líffræðingar séu þar sammála um, að ekki séu þau skaðleg áhrif af þessu ryki að ástæða sé til að leggja í dýrar rannsóknir. Þarna virðist ýmislegt til þess benda.

Hv. þm. viðurkennir, að það hafi komið fram hjá prófessornum að hann eða samstarfsmenn hans væru ekki lausir nú til að fara í slíka rannsókn. Ég fagna því, því að áður hefur þetta ekki komið fram í ræðum hv. þm. Ég sagði aldrei, að það væri fullvissa mín, að menn fengjust ekki frá Noregi. Ég sagði, að ég teldi ekki ólíklegt, að menn væru þar einnig önnum kafnir við kennslu. Ég tel það ekki ólíklegt. A. m. k. tæki nokkurn tíma að kanna slíkt og yrðu 5 vikurnar að mínu mati fljótar að líða. Þetta er þó ekki aðalatriðið. Ég vil undirstrika þá skoðun mína, að ég tel að það eigi að vera verkefni Náttúruverndarráðs að láta fara fram slíka rannsókn og Náttúruverndarráð hefur ekki í skriflegum heimildum, sem ég hef undir höndum, og hef ég þó óskað eftir þeim öllum sem fáanlegar eru, gert neina aths. að þessu lútandi.

Hv. þm. kvartaði undan því, að ég hefði ekki fengið formann Búnaðarsambands Borgarfjarðar á fund n. Það er rétt, að mér er ekki kunnugt um enn hver hann er. Hins vegar óskaði ég eftir því, að framkvæmdastjóri þess, sem ég veit hver er, Bjarni Arason, kæmi á fund n., og starfsmaður þingsins mun geta staðfest það, að hann gerði ítrekaðar tilraunir til að fá hann á fund n. þann mánudag, sem við héldum fund með forráðamönnum sveitarfélaganna. En það tókst ekki að hafa samband við hann, hann var ekki heima. Ég reyndi það einnig þá helgi, en tókst ekki heldur.

Ég taldi ekki ástæðu til þess, enda komu engar ákveðnar skoðanir eða óskir fram um það þótt það væri nefnt, að þessi maður væri fenginn á sérstakan fund, því að satt að segja fæ ég ekki séð hvað hann getur lagt til mála umfram það, sem heimamenn höfðu gert og hinir fjölmörgu sérfræðingar, sem á fund n. voru kvaddir. Við höfum álit Búnaðarsambands Borgarfjarðar, það er enginn að vefengja það. Það hefur verið birt í blöðum, það hefur verið rakið hér, og við hljótum að meta það eins og það stendur skrifað.

Ég hef ekki miklar aths. að gera við álit Búnaðarþings. Þar er að mínu viti margt mjög skynsamlega sagt sem ég gæti gjarnan gert að mínum orðum í þessu sambandi. Ég tel hins vegar að það sé óraunhæft og byggist á misskilningi hjá Búnaðarþingi, að nauðsynlegt sé að fram fari líffræðileg athugun á þessu svæði áður en ákvörðun er tekin um verksmiðjureksturinn.

Ég vil endurtaka það, sem ég hef sagt áður, að ég tek að ekkert hafi komið fram frá neinum aðila, ekki heldur þeim sem óska eftir slíkri athugun, hvað á að rannsaka, hvaða efni það eru sem eru skaðleg. Engin slík ábending hefur komið fram þrátt fyrir margítrekaðar spurningar mínar og fleiri manna um það. Ég tel, að áherslan á þetta sé byggð á misskilningi og e. t. v. ekki að litlu leyti á því moldryki, sem upp hefur verið þyrlað um þetta mál og notað — vil ég leyfa mér að segja — í pólitísku æsingaskyni, eins og að mínu viti tvímælalaust var á margumræddum fundi á Leirá. Mér finnst ekkert undarlegt, þó að fjöldinn, sem sannarlega vill hreint land ekkert síður en við, óttist og vilji að þarna sé farið að með mikilli varúð. Ég fagna því að farið er af varúð. En við megum ekki nota þetta tískufyrirbrigði sem eins konar grýlu í vafasömum tilgangi.

Hv. þm. ræddi töluvert um Union Carbide, það vonda fyrirtæki. Ég efast ekki um að það er víða pottur brotinn hjá Union Carbide eins og hjá öllum þeim stóru fyrirtækjum, og ég er enginn sérstakur málsvari þeirra. Hv. þm. Jón G. Sólnes tekur það þá fremur að sér. Þetta eru hákapítalistísk fyrirtæki. En ég held, að það sé víðar pottur brotinn. Ég vildi t. d. benda á ríkisverksmiðjuna norsku, sem mikið hefur verið kvartað undan, og þannig mætti lengi rekja. Ég efast ekki um, að þessi hringur eins og aðrir reynir að auka sinn hagnað og drýgja sínar tekjur. En staðreyndin er sú, að okkur datt aldrei í hug að taka Union Carbide eitt trúanlegt á þessu sviði. Þess vegna fórum við af stað og öfluðum upplýsinga frá Noregi, ræddum við umhverfisverndarráð Bandaríkjanna og fleiri. Það gleður mig hins vegar, og það vona ég að sé mannlegt, að jafnvel starfsmenn þessa vonda hrings reyndust hafa sagt satt samkv. staðfestum upplýsingum frá umhverfisverndarráði Bandaríkjanna og fleirum. Ég fagna ávallt því þegar slíkt kemur fram. Ég gæti einnig lesið hér grein úr Business Week, grein sem birtist 9. nóv. 1974 og heitir „Union Carbide big clean-up job“ og hér fylgja tvær myndir, önnur fyrir og hin á eftir. Hér er vitnað m. a. í yfirmann Virginíufylkis í þessum málum, þar sem hann hælir því, hvað þeir hafi náð gífurlega langt á örfáum árum í að hreinsa upp þann mikla skít og ryk sem frá þessum verksmiðjum stafaði áður. En ég ætla ekki að lesa þetta upp. Hv. þm. getur fengið ljósrit af þessu og aðrir hv. þm. ef þeir óska. Ég gæti einnig vitnað í Washington Post um svipað leyti, sem ræðir um umhverfismálin og nefnir sérstaklega Union Carbide og telur, að þeir hafi þar forustu. En staðreyndin er sú, að þetta er ekki vegna þess að fyrirtækið sé svo gott. Staðreyndin er sú, að hinir ströngu staðlar í Bandaríkjunum eru þess valdandi nú, að hin ríku og stóru fyrirtæki komast undir staðlana, ef ég má orða það svo, og skáka sínum keppinautum. Þeir nota sitt gífurlega fjármagn, sína gífurlegu rannsóknarstöð, vísindin og allt það sem þau hafa aðgang að, og þau tæki sem litlu fyrirtækin hafa ekki aðstöðu til að nýta. Þetta er e. t. v. aðalástæðan, — ég veit það ekki, en mér finnst það ekki ólíklegt.

Það hefur komið fram í bandarískum ritum, að margir óttast að þessir ströngu staðlar umhverfisverndarráðsins leiði til vaxandi einokunar þessara stóru hringa og stríði nánast gegn einokunarlögum, sem þeir hafa þar og við því miður höfum ekki. Um þetta mætti margt segja, en ég læt þetta nægja. Við teljum, að hér séu tryggð bestu tæki sem fáanleg eru til hreinsunar, og það er aðalatriðið.

Mengun upp að marki Bandaríkjanna, var sagt, með því að taka þessa staðla. Ég held, að það hljóti allir að sjá, að slíkur staðall, sem á við hverja einstaka verksmiðju, tryggir að sjálfsögðu ekki mjög heildarmengunarmagn þegar slíkar verksmiðjur eru margar. Ég vona sannarlega, að við fáum aldrei tugi eða hundruð stóriðjufyrirtækja samanþjöppuð hér á landi. Ég held, að við höfum ekkert að gera með slíkt og það eigi ekki að vera meginstefnan í okkar þróun. Ég held hins vegar að þeir staðlar, sem eru gerðir til þess að tryggja þessa heildarmengun sem minnsta og því strangir, séu þess vegna góðir þegar fyrirtækin eru svona fá, ekki síst þegar fyrirtækið er aðeins eitt. Ég vil því andmæla þessu, og tel að rökstuðningurinn, eins og ég benti á, sé allt annar og eðlilegri en fram kom hjá hv. þm. Ég ætla ekki að lesa bréfin frá eiturefnanefnd.

Ég harma það, að hv. þm. stóð ekki við það sem hann sagði í upphafi síns orðs, að láta Baldur Johnsen njóta þess að hann er fjarverandi. Ég gat ekki fundið, að hann léti hann njóta þess. Þetta var fyrst og fremst hörð ádeila á forstjóra Heilbrigðiseftirlitsins og talið, að hann sýndi þarna — ég vil næstum segja: vítavert gáleysi og starfshætti. Ég er þessu algerlega andmæltur. Forstjóri Heilbrigðiseftirlitsins freistaði þess aðeins að fá á skömmum tíma fram eitthvert álit frá eiturefnanefnd. Þar fara bréfaskriftir enn fram og eiturefnanefnd er með málið enn í meðferð og mun, hygg ég, tvímælalaust skila álíti innan tíðar.

Fleiri orð vil ég ekki hafa um ræðu hv. þm. Þó vil ég segja það að lokum, að hann virtist hneykslast á því, að ég færi eftir minni persónulegu sannfæringu. Eigum við ekki allir að gera það? Er það ekki skylda okkar þm. að fara eftir okkar persónulegu sannfæringu? Svo hef ég skilið starf mitt hér og mun skilja þannig áfram. Ég hef sannfærst persónulega um hina ýmsu þætti þessarar verksmiðju og afstaða mín er eingöngu tekin af persónulegri sannfæringu minni og engu öðru, og þannig vildi ég gjarnan að hv. þm. starfaði og færi eftir engu öðru.

Hv. kapítalistinn Jón G. Sólnes talaði hér áðan og flutti skemmtilega ræðu. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hana. Við erum á öndverðum meiði að ýmsu leyti, þó að ég geti tekið undir ýmis sjónarmið hans. Það má vel vera, að hv. þm. hefði getað fengið betri samninga við þetta fyrirtæki. En ég vil leyfa mér að fullyrða, að til þess hefði orðið að fórna ýmsu, sem ég þykist viss um að hann muni vilja fórna, t. d. fórna því að við eigum þarna meiri hluta. Þetta var eitt aðalásteytingarefnið lengi vel, fyrirtækið vildi eiga meiri hluta. Það má vel vera, að þetta fyrirtæki hefði selt sína tækniþekkingu á lægra verði til eigin fyrirtækis, sem það á meiri hluta í. Ég skal ekki segja um það, mér þykir það ekki ólíklegt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að meirihlutaaðild íslenska ríkisins í þessu fyrirtæki sé grundvallaratriði sem ekki beri að bregða frá — þarna ber mikið á milli hjá okkur, — og ég er reiðubúinn að greiða töluvert fyrir það.

Ég hef áður lýst þessari tækniþóknun og einnig rætt nokkuð um tækniþjónustuna. Ég tel mig satt að segja bera nokkurt skynbragð á þetta. Ég hef heimsótt rannsóknarstofurnar og séð, hvað þar er mikið gert. Við höfum einnig í höndum álit sjálfstæðra sérfræðinga einmitt á þessum þætti, og ég get ekki annað í stuttu máli en lýst aftur minni persónulegu sannfæringu, að það sem hér er keypt, sé margfalt þess virði. Staðreyndin er sú, að í öllum þessum iðnaði ræður tækniþróunin orðið ákaflega miklu og miklu meiru en jafnvel ágætir kapítalistar ú Íslandi gera sér grein fyrir. Staðreyndin er sú, að tækniþróunin er jafnvel að verða meira ráðandi en flest annað. Tækin verða úrelt á skömmum tíma og það er einmitt gegnum gífurlegt samsafn tækniþekkingar sem þessi stóru fyrirtæki, eins og ég rakti áðan, eru að ná vaxandi yfirráðum á sviði mengunar. Ég tel þessa samninga um tækniþekkinguna og þjónustuna við allt, sem hér kann að fara úrskeiðis, einmitt meðal bestu trygginga þess að því fjármagni, sem íslenska ríkið ráðstafar hér, sé vel ráðstafað. Ég tel það einnig vera gífurlega tryggingu, að fyrirtækið Union Carbide tekur að sér sölu á þessari framleiðslu gegnum þau miklu sambönd og þjónustu sem það hefur á þessu sviði. Þetta eru mínar persónulegu skoðanir, og þær ráða miklu um það, að ég er fylgjandi þessu máli.

Hins vegar er það vitanlega mjög mikið atriði og kannske aðalatriðið, hvort fjármagn, sem ríkið leggur í þetta fyrirtæki, er vel tryggt, og um það má sannarlega lengi ræða. En ég vil benda á álit Þjóðhagsstofnunar. Þar kemur fram að Þjóðhagsstofnunin telur mjög varlega ályktað í þessu sambandi, og Þjóðhagsstofnunin telur, að það fjármagn, sem þarna er lagt fram, endurgreiðist á skynsamlegan og hæfilega máta, eins og fram kemur í skýrslum viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Því sýnist mér ljóst, að hættulaust sé að ráðstafa því fjármagni sem hér um ræðir. Ég á erfitt með að hjá stórum minni áhættu fyrir íslenskan þjóðarbúskap, þótt einstaklingar væru þarna með meiri hluta. Ég tek það fram, að ég er mótfallinn því. Það er okkar reynsla, að ríkið verður að hlaupa undir bagga þegar eitthvað ber upp á. Og ber þá ekki að sama brunni?

Hv. þm. Helgi F. Seljan kom ekki að mörgum atriðum, sem ég þarf að spjalla um. Ég vil benda honum á það, þegar hann ræddi um ofurefli erlendra aðila, þá vil ég fyrst og fremst beina því til hans, hvort það hafi engin áhrif á hann, sem fram kemur í skýrslu Þjóðhagsstofnunar, að vinnsluvirði þessarar verksmiðju er aðeins 1.1% af heildarvinnsluvirði íslensks þjóðarbúskapafr. Hefur það engin áhrif á hv. þm., að jafnvel í þessum litla hundraðshluta er þó íslenska ríkið meirihlutaaðili? Þetta eru hvort tveggja atriði sem verka mjög sterkt á mig. Og ég harma það, sem þm. lætur frá sér fara, að hann varði ekkert um skrif eða fullyrðingar um næga orku. Ég held, að við hljótum að skoða slíkt mál af skynsemi og meta þær upplýsingar sem fyrir liggja.

Svo er það að lokum stóriðja. Hann virðist vera henni mjög andsnúinn. Hvað er stóriðja? Það væri gaman að ræða það einhvern tíma við betra tækifæri. Er það bara stóriðja, sem erlendir aðilar eru stórir þátttakendur í? Eigum við ekki ýmis stóriðjufyrirtæki hér á sviði sjávarútvegs? Er það bara stóriðja sem notar mikla orku? Þannig getum við lengi velt fyrir okkur. Ef það er eingöngu stóriðja, sem notar mikla orku, er þá skakkt að reyna að nýta orkulindir okkar til aukins iðnaðar? Orkulindirnar eru auðlindir alveg eins og fiskurinn í sjónum og eiga sannarlega að verða grundvöllur eðlilegrar þróunar þessarar atvinnugreinar, iðnaðarins, sem byggir verulega á orku. Ég sé út af fyrir sig ekkert rangt við orðið stóriðja. Við verðum að meta hvert tilfelli út af fyrir sig. Mér þykir það furðulegt, sem ég heyrði einhvern segja, að áburðarverksmiðjan væri í lagi af því að hún væri þjóðleg. Áburðarverksmiðja, ef hún á að vera samkeppnisfær, þarf 400 mw., en margfalt, margfalt stærri en þessi. Er það góð stóriðja? Og er þetta vond stóriðja? Nei, ég legg áherslu á það, að stóriðja sem slík er ekkert markmið. Stóriðja á að þróast hér í eðlilegu samhengi við okkar virkjanir og við eigum að sjálfsögðu að meta hvert slíkt fyrirtæki sem einstakt fyrirtæki, sérstakt fyrirtæki og meta vandlega, hvort að því er hagsbót fyrir okkar þjóðarbúskap, og taka afstöðu til þess sem slíks.