12.03.1975
Efri deild: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Flest orkar tvímælis þá gert er, og það má segja um margt hér á okkar landi sem gerst hefur í fortíðinni. Svo var um okkar síma og svo var um okkar tækniöld þegar hún hóf innreið sína hér með kolakrananum. Og margar sögur væri hægt að segja af þeirri tortryggni sem við höfum verið haldnir þegar nýjungar hafa verið fluttar inn til þessa lands. Aftur á móti lít ég svo á að ekki orki tvímælis um gildi og undirbúning þessa máls, og ég byggi það á ýmsu og kannske ekki hvað síst á því, að þetta er hugarfóstur tveggja ríkisstj. og það ólíkra ríkisstj. Vinstri stjórnin vann að þessu máli í þrjú ár af miklum áhuga og miklum krafti, og síðan hefur þessi ríkisstj. unnið að þessu í 6–7 mánuði undir forustu hæstv. iðnrh. Þetta tel ég nokkuð mikið öryggi fyrir því að málið sé vel undirbúið.

Það lágu fyrir drög að samningum, sem fyrri ríkisstj. hafði sætt sig við, og síðan hafa þessir samningar verið endurbættir og þeim hefur verið breytt og ég get ekki séð að í neinu sé þar um lakara tilboð að ræða en var áður, ef það er undanskilið að þátttaka ríkisins er nú minni í fyrirtækinu en var í uppkasti vinstri stjórnarinnar. Um það eru deildar meiningar og ég segi fyrir mitt leyti að ég hef alltaf verið því hlynntur að ríkið ætti sem stærstan hlut þarna. En ég styð þetta mál og það byggist m. a. á því að ég tel að okkar höfuðauðlindir, gróðurlendið og fiskimiðin, séu nú hvor tveggja fullnýtt, ýmist fullnýtt eða ofnýtt, og okkur veiti ekki af að fara að nýta í stórum stíl þá orkulind, sem við eigum eftir, vatnsaflið og hitaorkuna. Þarna eigum við miklar orkulindir og okkar orkulindir eru sérstæðar að því leyti, að þær ganga ekki til þurrðar þótt af þeim sé tekið. Það hefur ekki áhrif á rennsli Þjórsár eftir 100 ár hvort hún hefur farið í gegnum túrbínur eða ekki. Veðurfar getur haft áhrif á hana, en ekki það, hvort hún hefur framleitt rafmagn þennan tíma eða ekki. Það hefur ekki áhrif á stærð hennar í framtíðinni. Þess vegna held ég að okkur sé mikil nauðsyn að flýta virkjunum og hagnýta okkur það afl, sem virkjanirnar gefa, og það sem allra fyrst og í sem allra stærstum stíl.

Eitt er það enn sem veldur því, að ég er óhræddur við þetta frv. og þessa verksmiðju, og það er að tveir stærstu framleiðendur málmblendis í Evrópu eru, held ég, okkar nágrannaþjóðir, Noregur og Svíþjóð. Þetta eru þjóðir sem hafa orðið að búa við gamaldags verksmiðjur um áratugi, en þó eru þetta ríki með langlífasta fólki veraldar og þar sem heilsurækt og heilsuþjónusta er í einna bestu lagi í veröldinni. Ég á erfitt með að trúa því, að þessar ágætu nágrannaþjóðir okkar hefðu látið það viðgangast að hafa þessar verksmiðjur sínar í gangi ef það væri stórkostleg heilsuspilling eða hætta fyrir þeirra lífríki að starfrækja þær. Þó er þetta gamla tegundin af verksmiðjunum. Því held ég, að það geti ekki farið á milli mála, að ef við gætum að, eins og virðist vera gert í þessum samningi, þannig að við eigum jafnan kost á því að fylgjast með rekstri þessarar verksmiðju og erum meirihlutaeigendur að henni, þá eigi að vera auðvelt fyrir okkur að tryggja það að hún verði ekki okkar lífríki og ekki heldur því starfsfólki, sem þar vinnur, til skaða. Ég er þar með ekki að halda því fram, að þessi verksmiðja verði mengunarlaus. Það dettur víst engum manni í hug, hvort sem um ylrækt er að ræða eða áburðarframleiðslu eða slíka verksmiðju sem þessa, að umhverfið sé algerlega mengunarfrítt. En í fyrsta lagi lít ég nú svo á að þetta sé ekki neitt sérstakt stórfyrirtæki, og í öðru lagi held ég, eins og ég sagði áðan, að okkur ætti að vera í lófa lagið að tryggja okkar umhverfi fyrir hættulegri mengun frá þessari verksmiðju. Og ég verð að segja það, að ég treysti vel umsögn og álíti forstöðumanns Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Ég hef talað við hann persónulega um þessi mál, og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en hann hafi gildar ástæður til að gefa út það álit sem hann hefur gert.

Það er ekki vafi á því, að það er æskilegt fyrir okkur að auka fjölbreytni í okkar atvinnulífi, og við höfum einmitt nú á einu eða hálfu öðru ári rekið okkur óþyrmilega á það hve okkar höfuðatvinnuvegur er ótryggur í verðlagi, þótt við minnumst ekki á annað en það, að fyrir rúmu ári voru loðnuafurðir metnar á 10 dollara og hálfan prótein-eining, en er í dag metin á 3.5–4.5 dollara, að þorskblokkin var um sama leyti metin á 84–86 cent, en er í dag metin í hámarki á 58 cent. Við, sem lifum í þjóðfélagi okkar í dag, vitum þó hve mikið fjármagn við þurfum til að standa undir okkar heilbrigðisþjónustu, okkar menntakerfi og allri þeirri nýtískulegu og fullkomnu þjónustu sem við búum við. Þetta gerir okkur nauðsynlegt að búa við fjölbreytta og afkastamikla atvinnuhætti. Ég held, að þó að við setjum á stofn nokkur orkufrek fyrirtæki, þá geti varla hugsast að við þurfum að láta okkar hreina loft verða í hættu fyrir því. Og það er mín skoðun að 1–2 svona stór fyrirtæki muni ekki menga okkar land eins mikið og mundi ske ef t. d. túrismi ætti að koma í staðinn fyrir stóriðju, eins og drepið hefur verið á af ýmsum aðilum. Munurinn er sá á þessum tveim atvinnugreinum, að við stóriðjuna getum við ráðið. Hún er rekin á tiltölulega fáum stöðum. En við höfum allir haft fyrir augunum undanfarið hvernig umferð fjöldans getur leikið landið okkar.

Ég er að ýmsu leyti sammála hv. þm. Jóni G. Sólnes að því leyti, að ég hafði talið æskilegra að njóta betri samninga. En það finnst mér líka nokkuð öryggi, að þarna hafa tvær ríkisstj. verið að verki og þeim hefur ekki auðnast að fá betri samninga en raun ber vitni. Því tel ég að við hljótum að verða að líta svo á, að þetta séu bestu kjör sem hægt hefur verið að ná. Sá hv. þm. talaði einnig mikið um þá áhættu, sem við legðum okkur í. Aftur á móti hafði hann mikinn hug á því, að einstaklingar fengju að gerast hluthafar í staðina fyrir ríkið. Ég held að þetta seinna sem hann minntist á, að hann vildi gjarnan að einstaklingar ættu þess kost að ganga inn í þetta hlutafélag, bendi til þess að hann hafi trú á fyrirtækinu. Og ég held að jafnvel þótt eitthvað kæmi í ljós af því, sem hv. þm. Stefán Jónsson var að óttast, að olían í heiminum væri á þrotum, þá sé ekki mikil hætta á ferðum gagnvart afkomu þessa fyrirtækis og kemur þar margt til. Í fyrsta lagi, hvað sem segja má um Union Carbide, þá eru það aðilar sem eru vanir og kunna að reka slík fyrirtæki sem þessi. Í öðru lagi vill svo til, að hráefni til þessarar verksmiðju má fá í Evrópu og sölumarkaðurinn fyrir unna efnið er líka í Evrópu, og jafnvel þótt eitthvað kynni að henda þennan bandaríska auðhring, þá held ég að eftir nokkur ár yrði okkur ekki skotaskuld úr því að yfirtaka þessa verksmiðju og reka hana sjálfir.

Loks er svo það, að þessa verksmiðju á að afskrifa á 16 árum. Þó að við kynnum að komast að því einhvern tíma í framtíðinni, að það væri hentugra fyrir okkur að nota okkar raforku til annarra þarfa en bræða málmblendið, þá er tiltölulega stuttur tími þar til þessi verksmiðja hefur afskrifað sig að fullu og öllu. Enn fremur álít ég að það sé gerbreyting frá t. d. samningum við álverið, að þarna verður raforðuverð endurskoðað eftir örfá ár og nokkurt öryggi fyrir því að við fáum viðunandi orkuverð fyrir okkar orku um alla framtíð, á meðan þessi verksmiðja verður rekin. Ég vil því þakka hæstv. iðnrh. fyrir það, að hann hefur haldið því starfi áfram, sem fyrrv. ríkisstj. hafði unnið mikið að, og ég tel að þessi verksmiðja muni vera einn liðurinn í því að tryggja okkar afkomu í framtíðinni.