12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

179. mál, sveitarstjórnarlög

Gunnlaugur Finnsson:

Hæstv. forseti. Það sem kom mér til að biðja um orðið var skarpleg aths. hjá hv. 5. þm. Sunnl. um það að sveitarfélög, sem ekki eru innan vébanda landshlutasamtakanna, væru þar ekki vegna þess að þau vildu ekki vera þar. Og þetta er auðvitað alveg hárrétt. En það er svo annað mál að eftir því sem ár hafa liðið hafa ýmis sveitarfélög, sem í upphafi voru ekki innan þessara landshlutasamtaka, tekið virkan þátt í starfi þeirra, notið fyrirgreiðslu þeirra og starf landshlutasamtakanna hefur á ýmsan hátt komið þeim til góða. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað Samband ísl. sveitarfélaga er búið að starfa mörg ár eða marga áratugi en það var fyrst á síðasta ári sem síðasta íslenska sveitarfélagið gekk í samtökin. Og mér dettur ekki í hug, að þessi minnstu sveitarfélög, sem siðast komu inn til allsherjarsamtakanna hafi ekki notið þess á ýmsan hátt að þessi samtök hafa verið starfandi svo lengi.

Það hefur komið hér fram að það væri ekki fjötur um fót landshlutasamtökunum að starfa þótt þau væru ekki lögbundin. Mér fannst satt að segja að ýmislegt í ræðu hv. 5. þm. Sunnl. rækist hvað á annars horn. Í sambandi við það,hvort það er þeim fjötur um fót að vera ekki lögbundin, vit ég segja það að þau hafa iðulega fengið þau svör hjá stjórnvöldum: Hvað vilt þú hér? Hver er staða þín? Þið eruð engin lögbundin samtök og við höfum ekkert við ykkur að tala. — Eigi að síður hefur þeim á Alþ. verið falin veigamikil verkefni að vinna. Og mér er ráðgáta hvernig heildarsamtökin eiga að geta gegnt þeim skyldum, sem Alþ. hefur lagt þeim á herðar, ef þau eru svo laus í reipum að ákveðinn fjöldi sveitarfélaga getur hlaupist þar undan merkjum og komið sér hjá því að greiða kostnað eða taka á sig aðrar skyldur, eins og t. d. um framkvæmd grunnskólalaganna. Og mér er ráðgáta hvernig landshlutasamtökin geta gegnt skyldum sínum og störfum varðandi áætlunargerð, landshlutaáætlanir, ef á að skilja undan þau sveitarfélög sem út af fyrir sig hafa ekki enn þá gerst aðilar að samtökunum vegna þess að í upphafi vildu þau bíða og sjá til hvernig þessi samtök þróuðust þegar þau stigu sín fyrstu spor.

Ég verð að segja það að ég held að við verðum að líta til þess að þjóðfélagið er töluvert öðruvísi í dag en fyrir 100 árum þegar þau sveitarstjórnarlög voru raunar sett sem við í höfuðatriðum störfum eftir núna. Það kann vel að vera, að ef löggjafinn hefði gætt þess í gegnum áratugina að sjá sýslufélögunum fyrir nægilegu fjármagni og að leggja þeim ný verkefni á herðar eftir því sem önnur verkefni hurfu af vettvangi sýslufélaganna, þá hefði aldrei komið til að landshlutasamtökin yrðu stofnuð. Eftir að ýmsir veigamiklir málaflokkar, eins og t. d. framfærsluskyldan og fræðsluskyldan og annað fleira, sem hvíldi á herðum sýslufélaganna, voru af þeim teknir og komu undir hatt ríkisins, þá gerðist það að sýslurnar gátu ekki skapað sér ný viðfangsefni, og vegna þess að sveitarstjórnirnar sjálfar voru ekki virkir aðilar gagnvart sýslunefndunum þá dagaði uppi ýmis mál, sameiginleg hagsmunamás sem sveitarstjórnirnar þurftu að gegna. Og þegar ekki var tekið á þeim málum innan vébanda sýslunefndanna, þá knúði það einmitt á um að landshlutasamtökin yrðu stofnuð, annars vegar til þess að vera þjónustuaðill til þess að sinna ýmsum sameiginlegum verkefnum sveitarfélaganna, hins vegar til þess að vera samnefnari þeirra gagnvart ríkisvaldinu út á við.

Þegar um það er talað hér að það sé engin ástæða til þess að ræða þessi mál. það megi bíða endurskoðunar sveitarstjórnarlaganna í heild, þá hvarflar það að mér að við þurfum e. t. v. að bíða jafnmörg ár eftir niðurstöðu um endurskoðun sveitarstjórnarlaganna í heild eins og við höfum þurft að bíða eftir endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem lofað var, þegar lýðveldi var stofnað á Íslandi árið 1944. Þess vegna er mín niðurstaða sú að okkur sé nauðsynlegt að setja rammalöggjöf um landshlutasamtökin.

Hv. 5. þm. Sunnl. talaði hér áðan um glundroða annars vegar og hæddist að því í raun og veru að landshlutasamtökunum sjálfum væri heimilt innan viss ramma að ákveða hvernig þau höguðu málum sínum og hve margir færu með stjórn, að sjálfsögðu að fenginni staðfestingu ráðh. en á honum hlýtur að hvíla sú skylda að gæta þess að þarna sé um visst samræmi að ræða, en ekki glundroða. Hins vegar var svo að skilja á hv. ræðumanni að það væri hin argasta hneisa að landshlutasamtökin væru samtök sveitarstjórna. Landshlutasamtökin hafa verið hugsuð sem samtök sveitarstjórna, en ekki smækkað þinghald sem kosið er til eftir pólitískum línum, enda er við óbeinum kosningum í gegnum sveitarstjórnir alltaf möguleikar til þess að gæta eðlilegra skipta á milli flokka í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga um hlutfallskosningar.

Ég vildi aðeins, leggja inn þessa skoðun mína í þessum umr. og geyma mér þá önnur tilvik þangað til málið kemur hér til 2. umr.