20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

35. mál, söluskattur

Sverrir Hermannsson:

Hæstv. forseti. Án þess að taka sérstaklega afstöðu til þeirra tillögugerðar, sem hér er til umr., vil ég aðeins nota tækifærið til þess að taka undir það, sem fram kom hjá hv. 3. landsk., að í þessu efni ríkir að sjálfsögðu hið mesta óréttlæti. Það verður hvað augljósast þegar menn hafa það í huga að ekki er nóg með að þeir, sem úti á landi búa, þurfi að standa undir gífurlegum flutningskostnaði, t.d. á vörum, heldur leggst söluskattur ofan á þann flutningskostnað einnig, þannig að í hendi sinni má sjá að hér er um stórfellt óréttlæti að tefla. Því var það að fyrir tveimur árum var samþ. þáltill, hér á hinu háa Alþ. um að kjósa mþn. sem hefur með höndum að gera tillögur um jöfnun flutningskostnaðar. Ég á sæti í þessari n. Þessi n. hefur verið undir forustu hæstv. núv. menntmrh. N. hefur unnið allmikið að málum, fengið til þess sérstaka aðstoð, fengið leyfi til þess að ráða starfsmenn sér til aðstoðar. En það verður að játa að þetta verkefni reyndist allmiklu viðameira en menn í upphafi óraði fyrir. Þó er það svo að þegar við ræddum eigi alls fyrir löngu saman um þetta mál, ég og hæstv. menntmrh., þá sýndist okkur þó málum þann veg komið að gera mætti ráð fyrir því að einhverrar verulegrar niðurstöðu, — ég er ekki að segja að lokatakmarkið sé alveg hið næsta, — einhverrar verulegrar niðurstöðu og árangurs af þessum störfum megi vænta á þessu þingi.

Ég endurtek það að ég hef ekki haft tök á því að kynna mér þessa till. sérstaklega og þess vegna er ég ekki reiðubúinn til að leggja orð í belg um hana. Hún kann að vera góðra gjalda verð og væntanlega gæti hún komið til skoðunar hjá þessum aðila einnig, þannig að næðist fram meginefni hennar og hún næði þá .tilgangi sínum að því leyti sem ætlast er til.