12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

179. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að lengja þessar umr. úr hófi fram. Ég ætla að gera örstuttar aths. við tvær ræður sem hér hafa verið fluttar, þær sem hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 5. þm. Sunnl. fluttu.

Í fyrsta lagi er það um ræðu hv. 4. þm. Vesturl. að segja að hún var hógvær eins og hans er von og vísa. Ég vil þó aðeins gera þá aths. við hans málflutning, að það sem verið er að gera hér eða óska eftir að Alþ. geri hér, þ. e. a. s. að setja rammalöggjöf um starfsemi landshlutasamtakanna, er nákvæmlega það sama og sýslufélögin hafa við að búa. Það gilda þau lög í landinu að hreppar allir skulu vera í sýslufélagi, þeir eru skyldaðir til þess að vera í sýslufélagi að lögum og sýslunefndirnar hafa því við að styðjast dagaboð, lagaramma um sína starfsemi. Mér er nær að halda, eins og ég veit að hv. þm. hefur áreiðanlega einna besta þekkingu af okkur hér á Alþ. á, að það væri öðru vísi farið um sýslufélögin í dag ef þau hefðu ekki þennan lagaramma. Oft á tíðum verður náttúrlega ágreiningur á milli sveitarfélaga og gæti orðið það mikill ágreiningur að sveitarfélög segðu sig úr þeim samtökum sem þau eru í, eins og sýslufélagi, en það geta þau ekki vegna þess að þau eru skyldug til þess að vera þar í að lögum. Ég held þess vegna að það hafi verið mikil stoð og stytta fyrir sýslufélögin að hafa þessa löggildingu, eins og þau hafa haft — mér er nær að halda öldum saman.

Það er dálítið annað mál að segja um ræðu hv. 5. þm Sunnl., Garðars Sigurðssonar. Hann tók nú dálítið öðrum tökum og með léttara hjali á þessu máli heldur en hv. 4. þm. Vesturl. Hann hefur sýnilega ekki verið hér í salnum þegar ég flutti framsöguræðu mína fyrir þessu frv. og kom fram mikill misskilningur á ýmsu út af því. Hann benti m. a. á það að við leyfðum okkur að flytja frv. óbreytt og í því væri t. d. ekkert ákvæði um það að Norðurl. v. gæti verið í sérstökum samtökum. Ég benti á það í minni framsöguræðu að um þetta hefði verið flutt brtt., m. a. hef ég sjálfur flutt brtt. um þetta á síðasta þingi, og það er meginhugsunin í þeirri till., að ef sveitarstjórnir í kjördæmi eins og Norðurl. v. komast að þeirri niðurstöðu heima fyrir að þær vilji heldur vera í sérstökum landshlutasamtökum, þá skuli það heimilt. Ég benti á það og óskaði eftir því að hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, kanni þetta mál og flytji sameiginlega, ef hún getur komist að sameiginlegri niðurstöðu um það, brtt. við frv. Annars er hægt að endurflytja þessa brtt. En ég benti á þetta atriði og hef þegar lýst afstöðu minni til þess með flutningi brtt., þannig að þetta atriði ætti ekki að þurfa að tefja afgreiðslu þessa máls nú á þessu þingi. Og ég hygg að það hafi verið fullkomin samstaða um þetta mál á milli þm. Norðurl., um þá brtt. eða líka brtt. og ég flutti á síðasta þingi. Nóg um það.

Hv. þm. taldi, að við værum með því að skylda sveitarfélög til að vera í þessum samtökum með lagaboði að hafna margumræddu frelsi sem við vildum hafa á öllum sviðum. Það kann að vera að svo sé, að eitthvað sé :til í þessu. En það má t. d. benda á það, ættum við þá ekki að afnema það að hreppar skuli vera í sýslufélögum, ef við ætlum að hafa frelsi á þessum sviðum, eða afnema öll lög um það að opinberir aðilar skuli gera þetta og hitt. Það yrði þá hið fullkomna frelsi. Ég held að fáir finnist formælendur slíkrar frelsiskenningar. En það, sem liggur til grundvallar því, eins og kom raunar fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að við teljum nauðsynlegt að setja þessa reglu, er að við viljum tryggja að þessi samtök liðist ekki sundur, ef þau þurfa að taka verulegar ákvarðanir, þá líðist þau ekki hreinlega í sundur. Við viljum líka með þessu ákvæði tryggja rétt fólksins í öllum sveitarfélögum til þess að hafa áhrif á stjórn landshlutasamtakanna.

Hann benti svo á, að það væru heimildarákvæði í frv. sem gerðu það loðið og sundurlaust, laust í reipunum. Á þetta var líka bent í framsöguræðu minni, að það væri nauðsynlega að hafa þessi ákvæði vegna mjög breytilegra aðstæðna. Það er t. d. allt annar fólksfjöldi, — ég vona, að hv. þm. viti það, — á Vestfjörðum eða á Suðurlandi eða Austfjörðum eða Norðurlandi. Þess vegna er ekki óeðlilegt að það sé hægt að hafa svolítinn sveigjanleika í fjölda stjórnarmanna í þessum samtökum. Þessi heimildarákvæði eru yfirleitt sett þarna til þess að mæta mismunandi aðstæðum og til þess að hafa hæfilegt frelsi í uppbyggingu þessara ágætu samtaka.

Þá vil ég víkja að því máli sem ég hygg að sé mest undir niðri hjá þessum hv. þm. og hans flokksbræðrum í þessu og það eru kosningar til þessara ágætu samtaka. Ég benti á það í minni frumræðu að þarna væri um að ræða samtök sveitarstjórna, það mætti ekki gleyma því, samtök sveitarstjórnarmanna. Þess vegna þyrfti að vera tryggt að það yrðu sveitarstjórnarmenn sem yrðu á þingi þessara samtaka og væru í stjórn þeirra. Þetta væri samstarfsvettvangur sveitarstjórnarmanna í ákveðnum landshlutum til þess að taka afstöðu til sameiginlegra mála sem varða þróun alls landshlutans, eins og samgöngumála, orkumála, skólamála o. s. frv. Þess vegna yrði það að vera tryggt að þarna væru sveitarstjórnarmenn á þingi, ekki einhverjir aðrir sem ekki væru í sveitarstjórn viðkomandi byggðarlags, þeir væru ekki réttir aðilar á réttum stað í að sitja á þingi samtakanna, heldur sveitarstjórnarmenn. Við getum líka bent á, ef við tökum Vestmannaeyjar og sambandið á Suðurlandi, þá gæti það verið dálítið ankanalegt ef það yrðu einhverjir aðrir en bæjarstjórnarmenn í Vestmannaeyjum sem færu með umboð fólksins úr Vestmannaeyjum í þessum samtökum. Það gæti hreinlega komið upp ágreiningur á milli þess aðila og viðkomandi sveitarstjórnar, þannig að það yrði um fullkominn glundroða að ræða í þeim efnum ef svo ætti að halda á málum. Hins vegar benti ég á að það gæti verið ástæða til þess að athuga hvort ekki kæmi til greina að hafa beinar kosningar til landshlutasamtakanna þegar og ef þau fengju veruleg verkefni sem þau ættu að vinna til fullnaðar hjá sér, fengju vald yfir þeim. En þá taldi ég hins vegar að það ætti að búa þannig um hnúta að sveitarstjórnarmenn væru einir kjörgengir, svo að það væri tryggt að sveitarstjórnarmenn úr viðkomandi byggðarlagi væru í landshlutasamtökunum og færu þar með umboð fólksins. Hins vegar gæti fólkið kosið beinni kosningu þá sveitarstjórnarmenn sem það vildi helst.

Þetta var sú hugmynd sem ég varpaði hér fram í minni frumræðu. Ég held sem sagt að ef hv. þm. hefði hlustað á þessa ræðu, þá hefði hann getað sparað sér margt af því sem hann sagði hér, og ég ætla ekki að fara að efna til frekari orðræðna um þetta að þessu sinni. Ég vona að þetta frv. fái skoðun í n. Það er ekki ætlun okkar sem flytjum það að á það sé litið sem einhverja heilaga kú sem ekki verði hægt að finna að í einu eða öðru. Við munum áreiðanlega taka því vel ef koma fram við það skynsamlegar brtt. Hins vegar tel ég að þetta mál sé afar brýnt til þess að treysta þessi samtök í sessi. Þarna er um að ræða samtök sem eru mjög mikilvæg fyrir fólkið úti um byggðir landsins, og ég lít svo á að þetta sé áfangi, þetta sé áfangi á þeirri leið að treysta þessi samtök, efla þau, færa meira vald til fólksins úti um land, draga úr miðstjórnarvaldi, en dreifa valdinu í landinu.