17.03.1975
Efri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Áður en ég vík að máli því sem hér er á dagskrá, þ. e. a. s. frv. um járnblendiverksmiðju, vil ég fara nokkrum orðum um stóriðju almennt, um orkufrekan þungaiðnað og samskipti við erlenda aðila í því sambandi. Ég vil strax taka það fram að ég tel að stóriðjurekstur geti átt rétt á sér í takmörkuðum mæli hér á Íslandi og þá fyrst og fremst vegna þess að íslenskt atvinnulíf er nokkuð einhæft, en ég legg á það áherslu að við eigum ekki að ganga langt í þeim efnum. Við eigum ekki að gera slíkan iðnað að einhvers konar vaxtarbroddi í íslensku atvinnulífi. Við eigum að láta okkur nægja að ráðast í orkufrekan þungaiðnað í undantekningartilvikum þegar sérstök nauðsyn krefur og mjög sterk rök mæla með því.

Ég skal nefna nokkur dæmi þessu sjónarmiði til skýringar. Ég kalla það sterk rök ef um er að ræða að byggð sé upp framleiðslugrein sem reist er á innlendum hráefnum sem annars nýtast ekki, eins og t. d. gæti verið um að ræða með hugsanlega saltverksmiðju hér á landi eða ef um er að ræða framleiðslu sem er að talsverðu leyti í þágu innlends markaðar og sparar því augljóslega mikinn gjaldeyri, eins og um er að ræða í sambandi við Áburðarverksmiðjuna eða Sementsverksmiðjuna. Eins eru það óneitanlega sterk rök ef bygging raforkuvers er beinlínis háð því að unnt sé að selja stóriðjufyrirtækjum mikið orkumagn.

Um skeið var einmitt útlit fyrir að hugsanleg bygging járnblendiverksmiðju gæti verulega auðveldað byggingu Sigölduvirkjunar með því að lækka stofnkostnað hennar, því að slíkur orkukaupandi gæti ráðið úrslitum um það hvort virkjunin yrði byggð í einum áfanga eða þremur áföngum. En eins og kunnugt er, er þessi röksemd löngu fokin út í veður og vind og breytir þessi verksmiðja engu um það að virkjunin verður reist í einum áfanga.

Ég vil sem sagt í upphafi leggja á það áherslu að ég er ekki andvígur stóriðju almennt, en þar sem orkufrekur þungaiðnaður hefur marga augljósa ókosti þurfa rökin fyrir því að ráðist sé í slíka framkvæmd að vera svo sterk að þau yfirgnæfi annað. Kostirnir verða að vega að fullu upp á móti áhættunni og öllum þeim miklu ókostum sem almennt fylgja stóriðju af þessu tagi.

Í þessu tiltekna máli, sem hér er til umr. og snertir byggingu járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, hefur ekki verið bent á nein sterk rök málinu til stuðnings og þar er engin nauðsyn, engin brýn þörf á ferðinni. Þátttaka erlendra aðila í íslenskum atvinnufyrirtækjum á sjaldan rétt á sér, enda óskynsamleg og varhugaverð fyrir litla þjóð. Hún getur átt rétt á sér í undantekningartilvikum þegar ekki verður undan því vikist til þess að sérstökum nauðsynjamálum verði komið í höfn. En það skilyrði verður að setja, að eftir sem áður sé um íslensk fyrirtæki að ræða, þ. e. a. s. að þau lúti íslenskum lögum og meiri hluti hlutafjár sé í höndum íslendinga sjálfra. Með því er að sjálfsögðu átt við að meiri hluti hlutafjár sé í höndum opinberra íslenskra aðila, því að ella er augljós hætta á að erlendir aðilar smeygi sér fram hjá þess háttar skilyrðum með innlendum leppum.

Það sjálfsagða skilyrði, sem ég hef hér sett fram um meirihlutaeign íslendinga, er þó ekki það eina sem máli skiptir þegar um er að ræða aðild erlendra manna að íslenskum fyrirtækjum. Í fyrsta lagi hljótum við að hafa í huga hvaða erlendir aðilar eiga í hlut og hvers eðlis þeir eru. Vafalaust hafa flestir íslendingar þá heilbrigðu afstöðu að vilja frekar eigi viðskipti við heiðarlega menn en glæpamenn og það sama hlýtur að gilda í alþjóðlegum viðskiptum. Við hljótum því að reyna að kynna okkur hvert er eðli og hver er forsaga þeirra erlendu aðila sem við göngum til samvinnu við. Að vísu er eðlilegast að vera ávallt á verði þegar um er að ræða samvinnu við erlenda aðila, sem við þekkjum lítið til og búast þá jafnan við því versta. En að öðru jöfnu hljótum við að varast samvinnu við þá aðila sem reynst hafa öðrum þjóðum illa, t. d. sem lítt forbetranlegir mengunarvaldar eða sem þekktir samvinnuaðilar fasistískra afla í öðrum löndum.

Í umr. um hugsanlega samvinnu við auðhringinn Union Carbide hefur margt verið dregið fram í dagsljósið um grugguga fortíð þessa alþjóðlega auðjöfurs er reynst hefur alræmdur mengunarvaldur víða um lönd og einkar ósamvinnuþýður við heilbrigðisyfirvöld þrátt fyrir mikinn auglýsingaáróður um eigið ágæti. Það hlýtur því að vera til mikils að vinna fyrir íslendinga, úr því að við höfum leitað uppi þennan illa ræmda auðhring til að eiga við hann nána samvinnu í landi okkar.

Skal nú vikið að efnahagslegri hlið þessa máls, þar eð hv. þm. Stefán Jónsson hefur áður gert mjög greinagóð skil á mengunarhlið þessa máls.

Það hafa verið lagðir fram útreikningar við undirbúning þessa máls um efnahagslegt ágæti þess. Ég hef því miður ekki aðstöðu til að fella neinn lokadóm um ágæti þessara útreikninga og hef ekki haft þær upplýsingar í höndunum sem gera mér kleift að taka útreikningana sem slíka til umr. Hitt er ljóst, að þessir útreikningar um arðsemi væntanlegs stóriðjufyrirtækis í Hvalfirði eru fyrst og fremst byggðir á líkum og áhættan er augljóslega gífurlega mikil. Samkv. þeim upplýsingum, sem fram koma í umsögn Þjóðhagsstofnunar, hefur skráð verð á ferrocilikon þrefaldast á tveimur árum, þ. e. a. s. á tímabilinu frá árslokum 1972 til ársloka 1974. Að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að verðið fari sömu leið til baka aftur. Velta þessa fyrirtækis er áætluð 4300 millj. ísl. kr. á ári. Það er því ljóst, að á þessu fyrirtæki gæti orðið 500–1000 millj. kr. tap á ári ef illa gengi, ef verðið breyttist eitthvað að ráði niður á við.

Ég vil vekja á því athygli í þessu sambandi að áhættan er fyrst og fremst hjá íslendingum í þessu efni. Íslendingar eiga meiri hluta í fyrirtækinu, 55%, en samstarfsaðilinn fær hins vegar 7% af allri veltu fyrirtækisins hvernig sem gengur, hvernig sem háttað er verðlagi á framleiðsluvörunni. Miðað við núgildandi verðlag eru það um 280 millj. kr. á ári sem auðhringurinn fær í sinn hlut og er algerlega óháð því hvort um tap eða hagnað er að ræða af fyrirtækinu eða ekki.

Í sambandi við kostnaðarútreikninga er rétt að benda á að fjárfestingar í höfnum og vegum hafa ekki verið taldar með og er þó höfnin talin munu kosta 500 millj. kr. Þarf ekki að fara frekari orðum um það, að ef þessir liðir yrðu teknir inn í reikningsdæmið, þá yrði að sjálfsögðu arðsemin talsvert minni.

Herra forseti. Ég tek eftir því að frsm. hv. iðnn. er hér ekki staddur og kunna að vera gildar skýringar á því. Ég hef grun um að hann sé ekki hér á landi. En með hliðsjón af því vil ég eindregið fara fram á það að hæstv. iðnrh. verði viðstaddur umr., sem nú fer fram hér í deildinni, og vil biðja hann að sjá til þess að hann komi og hlýði hér á umr. (Forseti: Ég vil upplýsa það, að hæstv. iðnrh. hafði samband við mig og tjáði mér að því miður mundi hann ekki geta komið hingað fyrr en kl. hálfþrjú. Spurningin er hvort hv. þm. vill nú gera hlé á ræðu sinni þar til ráðh. kemur eða halda áfram. Herra forseti. Ég þigg það boð, því að ég ætlaði að ræða hér um ýmis atriði sem snerta þá orku sem er til ráðstöfunar og verðlagið á henni, og mér er ófært að hafa ekki einhvern til andsvara þegar þetta er til umr. (Forseti: Það verður að sjálfsögðu orðið við þeirri ósk hv. þm., og er þá þessu máli frestað í bili.) — [Frh.]