17.03.1975
Efri deild: 60. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að eiga þátt í því að lengja umfjöllum Alþ. um þetta mál.

Það má vel vera að það sé skiljanlegt að hæstv. iðnrh. hafi ekki þótt það stór tíðindi þó að hross hálsbrotnaði í gryfju sem grafin hefur verið á Grundartanga í Hvalfirði. En ætla má, að þótt hæstv. ráðh. þyki tíðindin lítil hafi hrossinu þótt það nokkur tíðindi. Það væri ekki umræðuvert á Alþ. þótt hross færi í gryfju út af fyrir sig, en það er umræðuvert á Alþ. sem hæstv. iðnrh. kveðst ekki vita, þykist ekki vita, að það eru hafnar framkvæmdir uppi á Grundartanga í sambandi við smiði málmblendiverksmiðju á Íslandi, sem Alþ. fjallar nú um hvort leyfa eigi eða leyfa eigi ekki. Viti hæstv. ráðh. ekki af þessum framkvæmdum, þá ber honum skylda til að afla sér upplýsinga um, hvort satt sé, og gera ráðstafanir til að þessar framkvæmdir verði stöðvaðar, nema svo sé komið, og það má vel vera að svo sé, þó að ég viti það ekki vegna þess hversu tilkoma mín í sölum þessarar hv. stofnunar er ung, að ráðh. sé fjandans sama um sæmd Alþ. og einnig öðrum þeim mönnum, sem Alþ. skipa. Ég þykist hafa orðið var við það við, umfjöllun þessa máls að hv. alþm. sé nokkurn veginn sama um það hvort gerðar verði fullnægjandi vísindalegar kannanir á því hvort lífi á þessu landi : dýra, jurta og manna, stafi voði af fyrirhugaðri verksmiðju. Þeir fara ekki fram á það, þeir krefjast þess ekki að slíkar ráðstafanir séu gerðar. Það lítur einnig út fyrir að þeim standi nokkurn veginn á sama hvort gerðar verði fullnægjandi kannanir á efnahagshlið þessa máls. Mér liggur við að segja, að það líti út fyrir að hv. alþm. sé ekki aðeins sama um það hvort sviðinn verði gróður þessa lands, dýralífi útrýmt og jafnvel hv. rassarnir sviðnir af þeim sjálfum með eiturgufum frá þessari verksmiðju, þeim sé auk þess sama hvort þeir fái nokkuð fyrir það eða ekki.

Nei, andlát hross er vafalaust meiri tíðindi fyrir það sjálft og kannske þann, sem Grana átti, heldur en fyrir hæstv. iðnrh. Hitt ættu að vera tíðindi fyrir hann að það skuli vera hafnar framkvæmdir þarna efra. Það er ekki grafin sú eina hola sem hrossið liggur í. Það mun láta nærri að þær séu á milli 50 og 60, gryfjurnar sem búið er að grafa þarna. Framkvæmdirnar eru hafnar. Svo má Alþ. láta sem svo að það sé að fjalla um hvort það eigi að leyfa þessar framkvæmdir eða ekki.