17.03.1975
Neðri deild: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

188. mál, tollheimta og tolleftirlit

Flm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem flutt er af okkur þremur þm. Norðurl. e., sem sæti eigum í d., og í fullu samráði við þá þm. kjördæmisins, sem sæti eiga í Ed., er að efni til það að Dalvíkurkaupstaður verði tekinn inn meðal tollhafna skv. 4. málsgr. 7. gr. laga um tollheimtu og tolleftirlit.

Hér er í rauninni um mjög einfalt mál að ræða í sjálfu sér og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Sú beiðni barst okkur þm. nú í vetur frá bæjarstjórn Dalvíkurkaupstaðar að hreyfa þessu máli og það er kveikjan að því að þetta mál er flutt. Og eins og ég segi, þá er sú breyt. ein ráðgerð skv. þessu frv. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit að Dalvikurkaupstaður verði tekinn í tölu þessara tilteknu tollhafna. Skv. 7. gr. l. eru nú alls 20 hafnir sem teljast tollhafnir, auk þeirra hafna sem nefnast aðaltollhafnir. Till. okkar er sem sagt sú að Dalvík verði sett á bekk með þessum 20 tollhöfnum.

Það má auðvitað rökstyðja þetta frekar. Meginröksemdin er sú að Dalvík er nú í tölu kaupstaða. Þar er allmikil útgerð, raunar mikil útgerð, þ. á m. eru nokkur skip sem eru í förum af og til, til útlanda. Það verður því að teljast mikið hagræði fyrir útgerð á Dalvík að hægt sé að tollafgreiða skip þar í heimahöfn og má segja að þetta sé meginástæðan til þess að fram á þetta er farið.

Ég geri ráð fyrir því að sú n., sem málið fær til athugunar, athugi þetta mál, allar málsástæður, sem best. Ég tel eðlilegt, miðað við efni þessa máls, að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.