20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. 5. þm. Vestf. sagði í umr. fyrr í dag að hann ætti þess von að fá að heyra raddir einhverra vestfirðinga þegar þetta mál væri rætt og bauð hann sig að sjálfsögðu sjálfan fram til þess verks, eins og honum er gjarnt að gera. Gott er að fá að heyra eina rödd að vestan, betra er að fá að heyra þær tvær og best þó að fá að heyra þær þrjár, eins og ég held að við eigum í vændum.

Þegar hringvegurinn nýi eða réttara sagt vegurinn yfir Skeiðarársand var opnaður fyrr í sumar sagði hæstv. þáv. samgrh. eitthvað á þessa lund, að nú sé hægt að aka um Ísland án þess að koma nokkru sinni að vegarenda. Það er út af fyrir sig rétt að það er hægt að aka um Ísland án þess að koma að enda vegar,en því aðeins að einum landsfjórðungnum sé sleppt, nema því aðeins að menn villist ekki yfir Bröttubrekku á leið sinni hringinn og út á Vestfjarðaveg, vegna þess að þar geta menn fundið þann vegarenda sem hæstv. fyrrv. samgrh. fann ekki. Og þar yrði hæstv. fyrrv. samgrh. í vanda, ef hann kynni ekki að bakka sínum bíl.

Ég vil taka undir þau orð ýmissa þm., sem hafa talað um það mál, sem hér liggur fyrir, frv. til l. um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg, að ég er þeirrar skoðunar að framkvæmdir víð Norðurveg, framkvæmd varanlegrar vegarlagningar frá Reykjavík og til Norðurlands sé næsta verkefni í vegamálum okkar. Ástæðurnar eru margar fyrir þeirri skoðun minni, m.a. sú að þessi vegur yrði ekki aðeins til hagsbóta fyrir norðlendinga, heldur einnig fyrir vestlendinga og vestfirðinga að nokkru leyti. En enda þótt ég sé sammála þeirri meginstefnu, sem í frv. þessu felst, tel ég engu að síður að ýmislegt þurfi að athuga í sambandi við það mál. Vestfirðingar hafa e.t.v. átt því láni að fagna — það má einnig taka þannig til orða — að þeir hafa fengið vegi siðar en aðrir menn. Þess vegna eru ýmsir vegarkaflar á Vestfjörðum nýir og fullkomnir þótt á viðhaldið hafi skort. En að sjálfsögðu eru langir kaflar þar á milli þar sem vegir eru varla mönnum bjóðandi.

Vestfirðingar hafa haft mikinn áhuga á samgöngubótum í sínu kjördæmi, enda var Vestfirðingafjórðungur fyrsti landsfjórðungurinn sem fékk sérstaka landshlutaáætlun um samgöngumál. Áhugi vestfirðinga kemur t.d. fram í því að þegar boðin voru til sölu skuldabréf vegna Djúpvegarins, þá seldust þau skuldabréf upp á nokkrum dögum. Vitaskuld er mér ljóst að það er nauðsynlegt að vinna að vegabótum á Vestfjarðaleið eins og víðast hvar annars staðar á landinu. En það er þó ekki eina vegasambandið, sem vestfirðingar eru í erfiðleikum með, heldur er það annað, sem lýtur meira að því frv. til l. sem hér er flutt. Jafnvel þótt vestfirðingar eigi á stundum í sæmilega góðu vegasambandi við Suðurland, þ.e.a.s. á sumrin, yfir 3–4 mánuði ársins, þá er ekki sama máli að gegna um vegasamband þessa landshluta við Norðurland. Raunar hafa samgöngumál frá Vestfjörðum til Norðurlands verið í megnasta ólestri, enda tiltölulega skammt síðan farið var að fljúga reglulegt áætlunarflug milli þessara tveggja landshluta. Vegasamgöngurnar eru þó mun verri en flugsamgöngurnar. Það er raunar ekki unnt að komast með sæmilegu móti milli Vestfjarða og Norðurlands á annan hátt en þann að fara alla leið suður í Borgarfjörð. Að vísu er hægt að skrönglast á fjallabilum eða fólksbilum, ef menn vilja leggja í það, um þrjár heiðar frá Vestfjörðum yfir til Norðurlands, en þeir vegir eru vart færir og heyrt hef ég marga vestfirðinga kvarta mjög undan því að geta ekki verið í beinna og greiðara vegasambandi við Norðurland en þeir eru í dag.

Það er ekki mikið verk og ekki dýrt verk að leggja veg sem tengt gæti Vestfjarðaveginn við Norðurlandsveg öðruvísi en á þann hátt að fara alla leið suður í Borgarfjörð. Ég vil t.d. vekja athygli þm. á því, að fyrir liggur að taka ákvörðun um tengingu hins nýja Djúpvegar við Vestfjarðaveg sunnan Þorskafjarðarheiðar. Einkum og sér í lagi eru tvær leiðir sem þar koma til greina hjá heimamönnum. Önnur leiðin liggur á svipuðum slóðum og Þorskafjarðarvegurinn liggur í dag. Verði ákvörðun tekin um bað að sú yrði tenging hins nýja Djúpvegar við Vestfjarðaveg, þá yrði mjög skammt af þeim vegi og í vegasamband við Norðurlandsveg.

Það eru að vísu skiptar skoðanir meðal vestfirðinga um hvora leiðina eigi að velja. En ég held að ég geti fullyrt það með réttu að íbúar norðurfjarðanna og þá einkum og sér í lagi Ísafjarðar og Bolungarvíkur vilja heldur að vegurinn verði tengdur á svipuðum slóðum og Þorskafjarðarvegur liggur nú, m.a. með tilliti til þess, að þá yrði handhægt og ekki mjög dýrt að koma Vestfjörðum, þ.e.a.s. norðurhluta þeirra, í gott vegasamband við Norðurland.

Ég vil óska þess, ef þetta frv. verður samþ. óbreytt eða með breytingum, að þá yrði sérstaklega skoðað með hvaða hætti mætti sem fyrst og sem ódýrast tengja Vestfjarðaveginn við Norðurlandsveginn, þannig að fólk, sem þarf að bregða sér til Vestfjarða, geti haldið þá hringleið sem hæstv. fyrrv. samgrh. sagði í sumar að þegar væri á komin.