18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

123. mál, reksturstekjur Landssíma Íslands o.fl.

Jónas Árnason:

Herra forseti. Varamaður minn, Skúli Alexandersson, lagði fram í vetur svo hljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„1. Hve stór hluti símgjalda fyrir umframsímtöl er greiddur af notendum síma utan Reykjavíkursvæðisins? Hverjar eru meðaltekjur símans af hverjum notanda?

2. Hve miklar eru meðaltekjur símans af umframsímtölum af hverjum notanda á Reykjavíkursvæðinu? (Hér er spurt um öll símatæki í notkun. Stjórnarráð Íslands sé t. d. ekki talinn einn notandi, heldur eins margir notendur og símatækin sem eru í notkun hjá stjórnarráðinu. Sama regla gildir um ákvörðun um tölu notenda samkv. 1. og 3. spurningu.)

3. Hve miklar meðaltekjur hefur síminn af umframsímtölum af hverjum notanda á eftirtöldum stöðum: Hellissandi, Bíldudal, Skagaströnd, Hofsósi, Seyðisfirði, Grindavík?

4. Mun Landsími Íslands verða veitt heimild til byggingar jarðstöðvar til að annast fjarskipti við útlönd, án þess að áður eða jafnframt verði tryggt að sjálfvirka símakerfið um landið verði gert nothæft?“