18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

327. mál, vetrarvegur um Breiðdalsheiði og tenging Djúpvegar við þjóðvegakerfi landsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Á þskj. 287 er fsp. frá Jóni Baldvin Hannibalssyni, sem sat hér á þingi um tíma, og er til hæstv. samgrh.

Í fyrsta lagi er spurst fyrir um hvenær megi búast við niðurstöðum frá Vegagerð ríkisins um tilhögun framkvæmda og kostnaðaráætlun vegna lagningar vegar um Breiðadalsheiði.

Breiðadalsheiði er og hefur verið sá þröskuldur, sem hvað mest stendur í vegi fyrir því að akvegasamband verði allt árið milli Djúps og byggða vestan heiðar. Á Alþ., 83. löggjafarþingi, 1962–1963, var flutt frv. um framkvæmd við jarðgöng gegnum Breiðadalsheiði. Frv. þetta var svæft í n. og lítið hefur heyrst um málið að öðru leyti en því, að á árinu 1972-1973, hygg ég að hafi verið, sem þáv. samgrh. Hannibal Valdimarsson beitti sér fyrir því að gerð yrði ítarleg könnun á jarðgangagerð gegnum Breiðadalsheiði að lokinni gerð jarðganga gegnum Oddsskarð, og þá ráð fyrir því gert að sömu verktakar mundu framkvæma þá rannsókn eða könnun. Að vísu hefur könnun átt sér stað að óverulegu leyti á jarðgangagerð gegnum Breiðadalsheiði. Við vestfirðingar a. m. k. teljum að slík könnun hafi ekki á neinn hátt orðið til þess að sannfæra menn um það að slík mannvirkjagerð geli ekki átt sér stað og eigi ekki að eiga sér stað. M.a. vegna þess er þessi fsp. fram lögð, að okkur vestfirðinga er farið að lengja eftir því að í framkvæmdir verði ráðist að undangenginni ítarlegri könnun á aðstöðu og mannvirkjagerðinni sem við teljum að sé fyllilega til staðar að framkvæma. Í ljósi þessa er þessi fsp. fram borin.

Í 2. lið er fsp. um hvað líði rannsókn Vegagerðarinnar á vegarstæði er tengi Djúpveg við aðalþjóðvegakerfi landsins. Sá merki áfangi náðist í samgöngumálum vestfirðinga á s. l. ári að hægt var, að vísu með hörmungum, að komast þennan veg inn Djúp og þannig á aðalvegakerfi landsins. Vonir standa til að þessu verki verði áfram haldið á yfirstandandi ári. Eigi að síður er mikið verk óunnið til þess að í þess orðs fyllstu merkingu sé hægt að tala um akvegasamband á þessari leið. M. a. er eftir að taka um það ákvörðun, hvaða leið verður farin til þess að tengja Djúpveg við akvegakerfið. Það hafa átt sér stað rannsóknir að þessu leyti um nokkurn tíma og er orðin knýjandi nauðsyn að niðurstöður slíkrar rannsóknar liggi fyrir, þannig að hægt verði að taka um það ákvörðun hvaða leið á að fara. Sem sagt er 2. liður þessarar fsp. til hæstv. samgrh. um það, hvað líði rannsókn Vegagerðar í sambandi við vegarstæði og væntanlega tengingu Djúpvegs við aðalþjóðvegakerfi landsins.