18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

165. mál, hitaveituframkvæmdir

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Eins og þessar fsp. bera með sér voru þær samdar fyrir alllöngu og þess vegna á orðalag þeirra að sumu leyti ekki við nú. Hins vegar er sjálfsagt að verða við því að gefa upplýsingar um ástand þessara mála.

Það er þá varðandi fyrstu spurninguna, hvað áætla megi að kostnaður sé mikill af framkvæmdum við hitaveitu í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði. Heildarkostnaður við dreifikerfislagnir Hitaveitu Reykjavíkur í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði er áætlaður 1852 millj. kr. Í árslok 1974 var búið að verja til þessara framkvæmda 722 millj. kr. Ólokið er lögn fyrir 1 130 millj. kr. með núverandi verðlagi. Aukning jarðhitavirkjana vegna þessara dreifikerfa er ekki innifalin í ofangreindum kostnaðartölum. Þetta eru þær dreifikerfislagnir sem hér er um að ræða.

Önnur fsp. er um það hvernig fjármögnun þessara framkvæmda er fyrirhuguð. Hún er fyrirhuguð þannig að heimæðagjöld eru áætluð 430 millj. og lántaka 700 millj. eða samtals 1130 millj. sem þarf til þessara framkvæmda.

Í þriðja lagi: „Hvað má reikna með miklum olíukostnaði miðað við ársnotkun hjá íbúum á því svæði sem þessar framkvæmdir taka til?“ Olíunotkun á öllu svæðinu er áætluð 52 millj. lítra á ári. Með olíuverði 20.29 kr. fyrir lítra er heildarupphæðin 1 050 millj. kr. Heitavatnsnotkun er hins vegar áætluð á öllu svæðinu 6.7 millj. tonna á ári með vatnsverði 39.36 kr. á tonn. Er því heildarupphæð fyrir vatnsnotkunina 264 millj. kr. á ári. Af þessu er ljóst að mismunurinn á olíukostnaði og heitavatnskostnaði er tæpar 800 millj.

Fjórða spurningin er um það, hvers vegna sé ekki hafist handa um framkvæmdir við Hitaveitu Suðurnesja og hvað líði lánsútvegun vegna hitaveitunnar. Þessi spurning er e. t. v. að því leyti villandi að orðalagi að vitanlega er undirbúningur undir framkvæmdir í fullum gangi. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja vinnur að gagnasöfnun og endurskoðun á fyrri áætlunum. Hér er um að ræða endurskoðun kostnaðar vegna verðbreytinga, röðun verksins í áfanga eftir verkþáttum, framkvæmdatíma og kostnaði, auk þess er unnið að undirbúningi að samningum við landeigendur um kaup á hitaréttindum og landi við Svartsengi. Þessi atriði eru forsenda þess að hægt sé að hefja aðgerðir til öflunar fjármagns til framkvæmdanna. Mun nú verða hafist handa um það atriði hið fyrsta.

Heildarkostnaður Hitaveitu Suðurnesja er nú áætlaður 2420 millj. kr. Hann skiptist sem hér segir: Virkjun hitasvæðisins við Svartsengi 570 millj., aðveituæðar 795 millj., dreifkerfi 1055 millj.

Tillaga um áfangaskiptingu, sem nú liggur fyrir, miðast við að verkinu verði lokið á árinu 1978 og þá hafi öll hús í þeim byggðum, sem hitaveitunni er ætlað að ná til, verið tengd henni. Meginatriði áætlunar um áfangaskiptingu eru sem hér segir.

Árið 1975: Lokið verði við virkjun, aðalæð og allt að 50% af dreifikerfi fyrir Grindavík, auk þess sem unnið verði að hönnun varmaskiptistöðvar og aðfærsluæðar.

Árið 1976: Unnið verði áfram við dreifikerfi í Grindavík, en jafnframt verði hafin vinna við aðfærsluæðar og dreifikerfi fyrir Njarðvíkur og Keflavík og stór hluti þess tekin í notkun.

Árið 1977: Framkvæmdum verði lokið í Grindavík, Keflavík og Njarðvíkum ásamt nauðsynlegri virkjun við Svartsengi.

Árið 1978: Lokið verði við aðfærsluæðar og dreifikerfi fyrir Sandgerði, Gerðar og Voga.

Vegna endanlegrar hönnunar á varmaskiptistöðinni við Svartsengi er talið mjög mikilvægt að hefja framkvæmdir við hitaveituna til Grindavíkur, þannig að reynslan, sem fengist við rekstur fyrsta áfanga varmaskiptistöðvar, geti komið að notum við hönnun aðalstöðvarinnar.

Þessi áætlun um áfangaskipti eftir árum er byggð á þeim till. sem nú liggja fyrir hjá fyrirtækinu Fjarhitun sem unnið hefur að þessum málum á vegum stjórnar Hitaveitu Suðurnesja.