18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

165. mál, hitaveituframkvæmdir

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svörin og þótt nokkuð sé liðið er sýnilegt að nauðsynlegt er að fá þessar upplýsingar. Sérstaklega er athyglisvert hvað það er mikið hagsmunaatriði, eins og reyndar oft hefur komið fram, að fá heita vatnið. Þess vegna hlýtur það að vera að allur dráttur kostar óhemju fjármagn fyrir þá, sem eiga kost á að fá heitt vatn, á móti því að þurfa að nota olíu. Þegar þetta svæði, Kópavogur, Garðahreppur og Hafnarfjörður, mundi spara nálægt 800 mill.j. á ársgrundvelli, þá sjá allir hvílíkt hagsmunamál það er. Upplýst hefur verið að Reykjavík muni spara rúmlega 2 milljarða, þannig að þessi þéttbýliskjarni hér mun hafa verulegar hagsbætur af því að heita vatnið dreifist sem víðast.

Það verður að segja að grátlega hægt gengur að undirbúa Hitaveitu Suðurnesja. Það hefur ekkert ákveðið skeð varðandi lánsútvegun og er það merkilegt sem kom fram hér fyrir áramót að allir væru á því að hefjast handa þegar í stað og ekki draga það neitt að taka lán til framkvæmdanna og hika alls ekkert í því efni. Einnig liggur ljóst fyrir að ekki er búið að semja um landnytjar eða réttindi til heita vatnsins svo að erfitt er að byrja nokkuð, eins og mér skildist að ráðh. gæfi í skyn, nema þetta liggi klárt fyrir. Það er eðlilegt að skipta þessu í áfanga og það hefur verið gert.

Það kom ekki heldur fram í þessari kostnaðaráætlun hvort nota á heimild í dögum um að fella hluta af aðalveitukostnaði niður, þ. e. a. s. innflutningsgjöld, eins og er gert við allar rafmagnsveitur. En á sínum tíma var samþ. till. sem ég flutti hér á Alþ. um að hafa þessa heimild í lögum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er ekki gert ráð fyrir því að heitavatnsnotendur á Suðurnesjum fái að njóta sömu kjara og aðrir í því efni? Ef það er ekki í þessari áætlun vil ég mælast til þess að þessi heimild í lögum verði notuð að fullu. Ég held að að skaðalausu megi hafa meiri gang í þessari framkvæmd svo hagmunarík sem hún er fyrir fólkið sem kemur til með að nota hitaveituna þegar að því kemur.