18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

165. mál, hitaveituframkvæmdir

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Auðvitað eru allir menn sammála um, að hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir þá íbúa, sem eru á þessum svæðum, í Kópavogi. Garðahreppi og Hafnarfirði og auk þess á Suðurnesjum, þar sem þessar hitaveituframkvæmdir eru fyrirhugaðar eða standa yfir. Auðvitað verður notuð sú heimild sem hv. þm. gat um að væri í lögum um Hitaveitu Suðurnesja.

Hins vegar skil ég sannast sagna ekki almennilega ádeilu hv. þm. á stjórn Hitaveitu Suðurnesja.

Ég held að hún sé ástæðulaus. Ég veit ekki annað en þessu máli hafi verið hraðað eftir því sem unnt er. Í fyrsta lagi var frv. lagt hér fyrir Alþ. og lögð áhersla að fá það afgr. og lögfest fyrir jól og það tókst, þó að sumir hefðu athugasemdir uppi um það að of hart væri á eftir því rekið. Síðan var skv. lögunum skipuð stjórn sem að meiri hluta er skipuð fulltrúum suðurnesjamanna. Það eru 3 menn tilnefndir af sveitarfélögunum og 2 frá ríkisstj. Formaður er einn af fulltrúum suðurnesjamanna. Mér er kunnugt um að stjórnin hefur unnið að miklu kappi að undirbúningi þessa máls, og ég held allir hljóti að vera sammála um að nauðsynlegt var að endurskoða áætlanir og gera sem nákvæmastar áfangaáætlanir og greiðsluáætlanir. Meðan það var í gangi var ekki eðlilegt að farið væri að sækja um lánsfé skv. gömlum áætlunum. Áður þarf auðvitað allt slíkt að liggja fyrir, hver heildarkostnaðurinn er og hvernig kostnaður fellur á hvert ár. — Mér virðist sem sagt að þessi ádeila hv. þm. á stjórn Hitaveitu Suðurnesja sé ekki á rökum reist.