18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

171. mál, fiskvinnsluskóli

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. menntmrh. fsp. um fiskvinnsluskóla. Fsp. mín er á þskj. 311 og er þannig:

„Í l um fiskvinnsluskóla segir, að á árunum 1972–1975 skuli undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum, Akranesi og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum. Hvað hefur menntmrn. gert til undirbúnings þessum skólum?“

Aðeins til frekari skýringar á fsp. vil ég taka það fram, að þegar lög um fiskvinnsluskóla voru sett, en þau voru samþ. á Alþ. 2. apríl 1971, voru þm. úr öllum stjórnmálafl., sem fjölluðu um málið í sjútvn., sammála um að nauðsyn bæri til að standa þannig að þessum skóla, að þó að aðalskólinn yrði hér á Reykjavíkursvæðinu, þá yrði samhliða komið upp skólum í beinum tengslum við aðalskólann í helstu útgerðarbæjum í hinum ýmsu landshlutum. Var gert ráð fyrir að það yrðu skólar sem næðu yfir 1. og 2. námsstig, en hins vegar ætti aðalskólinn að hafa einnig 3. og jafnvel 4. námsstig. Það var skoðun okkar sem þá fjölluðum um þetta mál í sjútvn., að eina vonin til þess að nægilega fljótt tækist að byggja þennan skóla upp sem öflugan skóla, þannig að hann næði verulega tilgangi, þyrfti að koma upp þessum undirskólum úti í byggðarlögunum, í rauninni til þess að mata aðalskólann að nemendum.

Nú hefur nokkrum sinnum áður verið minnst á þetta mál hér á Alþ., bæði af mér og öðrum og satt að segja hefur maður orðið lítið var við að það væri staðið við þau ákvæði, sem er að finna í lögunum, þar sem beinlínis er sagt að vinna skuli að því að koma upp þessum skólum á þar til greindum stöðum á árunum 1972–1975. Í tíð fyrrv. ríkisstj., vinstri stj., bar þetta á góma nokkrum sinnum og ég lét þá í ljós álit mitt, að ég teldi að hér hefði orðið óeðlilegur dráttur á framkvæmdum. Af þessum ástæðum beini ég nú máli mínu til hæstv. núv. menntmrh. og óska eftir því að hann geri grein fyrir því hvað þessum undirbúningi líður og hvers má vænta varðandi uppkomu þessara skóla skv. því sem fyrir er mælt í þessum lögum.